Afþreyingarleysi í frímínútum

Þegar ég var í Rimaskóla á unglingsaldri árið 2005 til 2008 þá voru frímínútur tími sem ég varði töluvert öðruvísi en ég tel unglinga gera núna í dag árið 2018. Fyrsti dagurinn í 8.bekk var æðislegur af því að þá voru fyrstu frímínúturnar sem ég þurfti ekki að fara út. Goðsagnakennt var það að unglingarnir máttu vera inni í frímínútum en enginn vissi hvað þau voru að gera á meðan við hin þurftum að vera úti að leika okkur. Ég komst fljótt að því að það væri ekki neitt spennandi að fara gerast í frímínútum nema ég og vinur minn myndum láta það gerast sjálfir. Eftir það voru ófáar mínútur sem við vorum að spila með spilastokk sem bókasafnskennarinn lánaði okkur áður en hún fór í kaffi. Ég pældi einnig í því af hverju Sigyn félagsmiðstöð Rimaskóla væri ekki opin í frímínútunum og afhverju við fengum ekki að fara í borðtennis, billiard eða fótboltaspil. En þegar við spurðum fengum við alltaf sömu svörin að við gátum ekki hagað okkur og þess vegna fengum við ekki aðgang að þessum afþreyingum. Hvað með ástandið í dag í frímínútum unglinga?

Í dag er orðin gífurleg bylting á veraldarvefnum með aðgengi einstaklinga að forritum og afþreyingarmiðlum í gegnum snjalltæki sem eru á stærð við lófann á okkur. Þegar ég var í 8. bekk þá komst ég á Youtube en ég þurfti að gera það heima í fartölvunni sem bróðir minn átti eða fá að vera inn á bókasafni í frímínútum sem var aldrei í boði af því að við gátum ekki hagað okkur. Í dag starfa ég í skóla á höfuðborgarsvæðinu og hef gengið um gangana seinustu vikur til þess að athuga hvernig unglingarnir í 8.-10. bekk væru að verja tíma sínum í frímínútum. Í fyrri frímínútum skólans skiptist unglingadeildin í tvennt. Annars vegar voru unglingar á leið inn í matsal að fá sér nesti og hins vegar voru unglingar sem einfaldlega sátu eða lágu á ganginum fyrir framan stofurnar í snjalltækjunum sínum. Þeir unglingar sem fóru inn í matsal að borða nestið sitt sátu margir saman á borði en var mikill meiri hluti hópsins í símanum sínum og ekki að tala hver við annan.

Eftir þetta fór ég að velta fyrir mér hvað við gætum gert sem starfsmenn félagsmiðstöðvar inni í skóla til þess að veita unglingum tækifæri til þess að verja frítíma sínum í skóla á annan hátt. Ég fór seinna og gekk um gangana og ræddi við hópana sem lágu á göngunum og þau voru öll samhljóma í því að þetta væri í raun það eina sem væri í boði í frímínútum fyrir þau nema einstaka sinnum. Á mánudögum er einn starfsmaður í félagsmiðstöðinni með viðveru á skólatíma fyrir hádegi og hefur sá starfsmaður verið að bjóða upp á ýmsa viðburði í íþróttasalnum í frímínútum en hann er samt bara með viðveru einu sinni í viku og þá stendur restin af vikunni auð.

Og hvað með þær félagsmiðstöðvar sem eru ekki inn í skólum? Fá þær tækifæri  til þess að vera með viðburði á skólatíma? Í mínum starfsmannahópi erum við að setja saman allskonar hugmyndir að því hvernig við getum virkjað unglinga í frímínútum þannig að þau séu ekki aðeins að hanga í snjalltækjunum sínum. En ég hef einnig gífurlegan áhuga á því að heyra hvað aðrir sem starfa með unglingum eru að gera. Þannig að ef einhver þarna úti er með skemmtilegar hugmyndir eða pælingar sem þá langar að deila með mér má sá hinn sami endilega senda mér póst í gegnum netfangið [email protected]

Magnús Björgvin Sigurðsson