Verkfæraþristur – Guðmundur Ari

Við erum að fara af stað með nýjan lið hér á Frítímanum sem við kjósum að kalla „Verkfæraþristur”. Í Verkfæraþristi fer fram stutt kynning á einstaklingi með reynslu af vettvangi frítímans. Einstaklingurinn kynnir svo til leiks þrjár æfingar sem eru í uppáhaldi hjá honum þegar hann vinnur með hópum. Ein æfingin á að vera ísbrjótur, nafnaleikur eða orkuskot. Önnur æfingin skal vera Hópeflis, samvinnu og/eða traustæfing. Þriðja æfingin skal svo vera ígrundunar- eða enduvarpsæfing. Markmiðið með Verkfæraþristinum er að deila þekkingu hvort með öðru og skapa gagnabanka sem hægt er að nýta við skipulagningu á hópastarfi.


 

Nafn: Guðmundur Ari Sigurjónsson10671261_10205150952643908_7182377107898842184_n

Aldur: 26 ára

Starf: Verkefnastjóri í félagsmiðstöðinni Selinu og ungmennahúsinu Skelinni. Formaður Félags fagfólks í frítímaþjónustu. Umsjónarmaður Ungmennaráðs Seltjarnarness.

Menntun: B.A. í Tómstunda- og félagsmálafræði

Uppáhalds verkfæri í hópastarfi: More Than One Story! 🙂

 

Ísbrjótur, nafnaleikur eða Orkuskot (energizer)

Patí, patí, patí, quack quack! 

Markmið:

  • Að koma blóðinu á hreyfingu
  • Nota röddina
  • Snerting
  • Hækka orkustig hópsins
  • Fíflast og hlæja

Fjöldi: 7+
Tími: 20 mínútur
Hvað þarf til?:
Ekkert
Undirbúningur: Enginn
Framkvæmd: 

  • Fá alla til að fara í allir dansa kónga röð.
  • Valfrjálst hvort maður hvetur þátttakendur til að gefa næsta manni smá axlanudd áður en lengra er haldið.
  • Næst er leikurinn útskýrður en hann er s.s. þrjár umferðir af labbi í halarófu og að gefa frá sér andahljóð á sama tíma.
  • Fyrst á hópurinn að túlka „pabba önd” sem gengur stór og klunnaleg skref og gefur frá sér djúpt „quack quack, quack quack!” hljóð í hverju skrefi.
  • Því næst á hópurinn að ganga um sem „mamma önd”. Hún er með stórar mjaðmahreyfingar og gefur frá sér kvenlegt „quack quack, quack quack!”
  • Að lokum gengur hópurinn um sem andarunginn sem tipplar á tánum og syngur „patí, patí, patí, quack quack!” Patí er sungið á hverju skrefi og svo þegar kemur að „quack quack” hópar hópurinn.
  • Mikilvægt er að hópurinn sé samtaka og syngi með.
  • Næst er hægt að endurtaka allan leikinn með hendur á mjöðum. Á eftir því er svo hægt að endurtaka með hendur á ökklum en þá þarf hópurinn að krjúpa. Hvert skref eykur erfiðleikastigið og þarf að meta hópinn hverju sinni.

Enduvarp: Oftast tek ég þessa æfingu sem létta upphitunaræfingu og fer svo beint í áframhaldandi hópavinnu. Það er þó hægt að sjálfsögðu hægt og hugsanlega best fatta ég þegar ég er að skrifa þetta að loka æfingunni með því að spyrja hann útí sína upplifun og gefa einstaklingum færi á að tjá sig um æfinguna og framkvæmdina, hvað stóð uppúr og hvað var krefjandi.

Hópeflis-, samvinnu og/eða traustæfing (team building)

Stólað yfir hafið

Markmið: 

  • Stuðla að samvinnu innan hópsins
  • Auka traust innan hópsins
  • Fá hópinn til að setja sér markmið
  • Snerting
  • Fíflast og hlæja

Fjöldi: 10+
Tími: 60 mínútur
Hvað þarf til?: Jafn marga stóla og þátttakendur
Undirbúningur: Ákveða upphafs- og endapunkt sem hópurinn þarf að ferðast á milli án þess að snerta jörðu. Lengdin á leiðinni ákveður að mestu lengdina á æfingunni svo gott er að taka mið af tímanum sem ætlaður er í æfinguna þegar leiðin er ákveðin. Gott er að hafa hindranir eins og dyragættir og beygjur með.
Framkvæmd: 

  • Raða upp stólum á byrjunarpunkti og fá alla þátttakendur til að standa upp á stól.
  • Útskýra æfinguna fyrir þátttakendum. Markmið hópsins er að komast á endapunktinn án þess að snerta jörðu. Hópurinn þarf að hjálpast að til að ná alla leið. Setja leikinn af stað.
  • Þegar þátttakendur leggja af stað tekur hópstjóri stól af þeim sem oftast kallar á sterk viðbrögð hópsins. Þá útskýrir hópstjórinn að hann muni reyna fjarlægja eins marga stól og hægt er. Hann hvetur hópinn til að setja sér markmið hvað hann telur að hann þurfi marga stóla til að klára æfinguna.
  • Hópstjóri fjarlægir svo eins marga stól og hægt er á leiðinni. Mikilvægt er að gera æfinguna krefjandi svo hópurinn þurfi að þjappast saman, halda hvert öðru og hafa fyrir þessu. Hafa skal þó í huga að markmiðið er þó að hópurinn klári æfinguna.
  • Þegar hópurinn kemst svo á endapunktinn eru taldir þeir stólar sem eftir eru.

Enduvarp: 

  • Afar mikilvægt er eftir þessa æfingu að setjast niður með hópnum og fara yfir æfinguna.
  • Hægt er að byrja á því að skoða framkvæmdina og hvernig gekk út frá markmiðinu sem hópurinn setti sér.
  • Því næst er hægt að spyrja hópinn útí hvernig honum fannst hann hafa unnið saman. Hvernig setti hann sér sameiginlegt markmið? Tók einhver frumkvæði? Var leitað af niðurstöðum sem allur hópurinn var sáttur við? Voru sumir meira virkir en aðrir? Hver voru mismunandi hlutverk hópmeðlima? Afhverju?
  • Að lokum er gott að skoða upplifun einstaklingana á æfingunni. Hvað fannst þeim krefjandi og hvað stóð uppúr.

Endurvarp (debriefing) eða ígrundun (reflection)

Steinamat

Markmið: 

  • Að fá einstaklinga til að líta um öxl, rifja upp og leggja mat á verkefni, upplifun eða reynslu.
  • Virkja alla til að hugsa og mynda sér skoðun án þess að setja of mikla pressu á hvern og einstakling til að tjá sig fyrir framan allan hópinn.

Fjöldi: 5+
Tími: 10-60 mínútur
Hvað þarf til?:

  • Undirlag sem hægt er að merkja stórar hring á. T.d. fjöru, sand eða möl
  • Einn stóran stein og jafnmarga minni og þátttakendur eru margir

Undirbúningur: 

  • Útbúa spurningar sem spyrja á hópinn sem hægt er að meta á skala. T.d. frá góðu til slæms
  • Draga stóran hring í sandinn eða hvaða yfirborð sem æfingin fer fram á
  • Setja stóra steininn í miðjan hringinn og útdeila minni steinunum á hvern þátttakenda

Framkvæmd: 

  • Útskýra æfinguna fyrir þátttakendum.
  • Hópstjóri spyr svo spurningar eða kemur með fullyrðingu.
  • Þátttakendur stíga inn í hringinn og staðsetja steininn sinn eftir því hvar þeir staðsetja sig á skalanum sem hópstjórinn gefur. Dæmi: Hópstjóri setur fram fullyrðinguna „ég lærði mikið af nýjum hlutum á þessu námskeiði” og biður svo þátttakendur til að stíga inn í hringinn og staðsetja steininn sinn þar sem miðjan er að vera 100% sammála og útjaðar hringsins þýðir að einstaklingur sé ósammála.
  • Hópstjóri gefur svo 2-3 einstaklingum færi á að segja frá hvar þeir staðsetju sinn stein og afhverju. Mikilvægt er að þetta sé ekki skylda heldur aðeins valfrjálst. Hópstjóri metur útfrá fjölda hópsins og tíma hversu margir fá að segja frá í hverri umferð.
  • Þátttakendur ná svo í steininn sinn og spurð er önnur spurning eða fullyrðing lögð fram

Enduvarp: Æfingin er í heild sinni endurmat á stærra verkefni eða ferðalagi sem hópur hefur gengið í gegnum saman. Hægt er þó að enda æfinguna á að spyrja hópinn hvernig honum hafi fundist framkvæmdin á æfingunni hafa gengið, hvernig honum hafi liðið á meðan á æfingunni stóð. Hvað var krefjandi fyrir þátttakendur og hvað stóð uppúr.


 

Ég skora á góðvin minn og bekkjarbróðir, Boga Hallgrímsson til að koma með næsta verkfæraþrist!