„Ég hlakka svo til að verða ánægð með mig“

Fyrir ekki svo löngu var ég stödd í Sundlaug Kópavogs. Í búningsklefanum var hópur af unglingstelpum, líklega í 8. bekk sem höfðu verið að klára skólasund. Þær voru að klæða sig og gera sig til á sama tíma svo ég komst ekki hjá því að heyra samtalið þeirra. Þær stóðu nokkrar við spegilinn og voru ýmist að greiða á sér hárið eða mála sig. Þær byrjuðu nokkrar að tala um húðina sína. Ein talaði um að hún væri með svo mikið af bólum að hún gæti ekki einu sinni talið þær allar. Önnur benti þá á bakið á sér og sagði að sú fyrri væri þó allaveganna ekki með svona ótrúlega mikið af bólum á bakinu. Önnur fór þá að tala um hvað hún væri alltaf föl í framan og með mikla bauga og umræðurnar þróuðust og alltaf bættust við fleiri stelpur í umræðuna og fyrr en varið var þetta orðið að einskonar samkeppni um hver liti verst út. Þær fóru út í það að tala um þyngdina sína, hæðina sína, stærðina á nefinu sínu og alltaf komu fleiri og fleiri innskot frá stelpunum. Ein sagði svo að lokum, “ohh stelpur, ég hlakka svo til að verða ánægð með mig einhvern daginn” og hinar stelpurnar tóku undir.

Eftir sundferðina sat þetta samtal þeirra í mér og þá sérstaklega þessi síðasta setning. Hvenær verður maður ánægður með sig? Er einhver ákveðinn tímapunktur þar sem maður tekur sjálfan sig í sátt? Ég man eftir því að hafa verið á þeirra aldri og liðið nákvæmlega svona. Ég átti í baráttu við aukakílóin, var með bólur, frekjuskarð og fleira sem bætti ekki upp á sjálfstraustið. Í dag er ég 22 ára og er enn að vinna í sjálfsmyndinni minni og bíð í raun líka eftir því að vakna einn daginn og verða bara ánægð með mig eins og er. En það virkar ekki þannig. Við erum alltaf að móta sjálfsmyndina okkar og vinna í sjálfstraustinu.

Ég hef núna unnið á félagsmiðstöð í rúmlega tvö ár og hef átt þónokkur samtöl við stelpur um líkamsímynd og sjálfstraust og það brýtur í mér hjartað að heyra hvernig þær tala um sig sjálfar. Hvernig er hægt að sporna gegn þessu óöryggi sem byrjar svona snemma hjá þeim?

Kynþroskaskeiðið er erfiður tími í lífi langflestra þar sem margar breytingar eiga sér stað sem skiljanlega geta valdið óöryggi. Breyttur líkamsvöxtur, hárvöxtur, bólur og fleira hafa áhrif á útlitið og getur verið erfitt að sætta sig við þessar breytingar. Á þessum aldri hafa útlitskröfur samfélagsins gríðarleg áhrif á hugsunarhátt unglinga sem dregur úr sjálfstraustinu. Þau gleyma öllu öðru sem skiptir máli eins og styrkleikum þeirra.

Ég fann nýlega myndband af mér frá því að ég var 15 ára þar sem ég er á sviði að syngja fyrir framan heilan sal af fólki. Ég man eftir því að hafa bannað pabba mínum að birta myndbandið eða sýna einhverjum því mér fannst ég svo feit. Það hryggir mig í dag að ég hafi hugsað svona á þessum tíma og líka að þetta hafi skipt mig svona miklu máli því þegar ég horfi á myndbandið núna fyllist ég stolti af þessum flotta ungling sem stóð fyrir framan fjölda fólks og negldi flutninginn verandi bara ótrúlega flott nákvæmlega eins og hún er.

Í starfi með unglingum vil ég hjálpa þeim að átta sig á þeirra eigin verðleikum og styrkja sjálfstraustið með því að minna þau á að þau eru alltaf, alveg nógu góð.

Indíana Björk Birgisdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði