Eigum við að lögleiða félagsmiðstöðvar?

Já, það er skrítið að ég sé að spá í því hvort að það eigi að lögleiða félagsmiðstöðvar.  Mörgum finnst eftirfarandi setning vera ögn eðlilegri: ,,Eigum við að lögleiða kannabis?” Enda hefur hún verið á milli tannanna á fólki í langan tíma.

En ástæða þess að ég velti þessu fyrir mér er sú að félagsmiðstöðvar eru í raun ekki þjónusta sem sveitarfélögin þurfa í raun að hafa eins og til að mynda skólar. Með einu pennastriki getur bæjarstjórn hvers sveitarfélags strokað út félagsmiðstöðina. Vissulega er fjárskortur í mörgum sveitarfélögum ef ekki öllum. Það er verið að skera niður allsstaðar og hafa félagsmiðstöðvar heldur betur fundið fyrir því. Ég tel því mikilvægt að það yrði sett í lög að sveitarfélögum sé skylt að bjóða uppá þessa þjónustu.

,,Af hverju ættu sveitfélögin ekki bara að stroka út félagsmiðstöðvarnar?

Jú þetta er góð spurning. Sjálfum finnst mér félagsmiðstöðvar vera þjónusta sem allir unglingar ættu að geta haft greiðan aðgang að. Í lang flestum félagsmiðstöðum er unnið gífurlega flott starf. Þarna fá einstaklingar sem kannski ekki ná að ,,fúnkera” í venjulegu skólakerfi að finna sig og þau sem hugsanlega hafa það ekki sem best heima fyrir hafa þarna einhvern stað utan skólans sem að þau geta leitað til. Það er ávallt reynt að vinna með styrkleika hvers og eins. Þarna kemur klúbbastarf gífurlega sterkt inn enda er ekki hægt að læra brjóstsykursgerð eða skipuleggja viðburði í skólum, en það er hægt að gera í félagsmiðstöðunum sem er svo frábært.

Það sem mér finnst frábært við félagsmiðstöðvar er að ungmennin geta haft áhrif á komandi dagskrá hjá félagsmiðstöðinn. Ef einhvern langar til þess að hafa borðtennismót eða brjóstsykursgerð að þá reyna starfsmennirnir að gera eins mikið og þeir geta til að fullnægja þeirri þörf.  En ungmennin geta því miður haft voðalega lítil áhrif á skólakennsluna enda um rótgróið fyrirbæri að ræða sem ekkert má hreyfa við.

Sjálfum fannst mér fremur þreytandi að vera í dönsku enda byrjuðu allir dönskutímarnir á því að ég byrjaði að rökræða við hana Erlu mína (sem er þvílíkur meistari) um hversu tilgangslaus danskan var. Ég hefði miklu frekar viljað læra að búa til kvikmyndir eða vera á sjálfstyrkingarnámskeiðum heldur en að læra dönsku, enda kom það svo uppá dekk að ég hef aldrei þurft að nota þessa blessuðu dönsku. Þó svo að ég sé búinn með þriggja ára grunnskólapróf  úr henni og einnig stúdent.

Mér finnst það vera algjör ,,no brainer” að setja það í íslensk lög að sveitarfélög þurfi að vera með félagsmiðstöð í sínu hverfi. Hún hefur mikið uppeldislegt gildi sem og er mjög góð forvörn fyrir unglingana. Við sem þjóð erum að byrja æ seinna á lífsleiðinni að neyta áfengis og tóbaks og held ég að félagsmiðstöðvar í þeirri mynd sem þær eru í dag hafi mikil áhrif á það.

Kæra ríkisstjórn eða einhver sem vill láta sig þessi mál varða, viltu vera svo væn/n að gera öllum greiða og setjið félagsmiðstöðvar inn í íslensk lög.  Það er yrði gífurlega stórt skref fyrir okkur sem þjóð að samþykkja félagsmiðstöðvar inn í íslenska löggjöf. Eins og ég sagði hér ofar að þá geta sveitarfélögin strikað út félagsmiðstöðina í sínu hverfi vegna þess að þetta er ekki lögbundin þjónusta. Það er vissulega afar ólíklegt að það muni gerast en það yrði bara svo faglegt að hafa þessa þjónustu lögfesta. Með þessu samþykki þínu/ykkar erum við að tryggja að unglingar hafi einhvern stað þar sem þau geta verið þau sjálf.

Svo yrði rúsínan í pylsuendanum með þessari löggjöf að ég myndi fá löggilt starfsheiti sem tómstunda- og félagsmálafræðingur. Mér þætti það virkilega ánægjulegt að geta sett í símaskrána Þráinn Orri Jónsson, tómstunda- og félagsmálafræðingur.

Með ást í hjarta og bros á vör,

Þráinn Orri