Einfaldað hópefli?

Á Íslandi er sterk hefð fyrir því á vordögum að vinnustaðir hristi hópinn saman. Skemmtinefndir vinnustaða vinna baki brotnu að starfsmannagleði ársins. Það er ýmist brugðið á leik, farið í ferðir eða haldnar heljarinnar árshátíðir þar sem er heldur betur skálað! Upp rennur árshátíðardagurinn, fólk mætir prúðbúið, forvitið og spennt, flestir þá þegar búnir að fá sér alla vega einn á happy og tilbúnir í fjörið. Dagskráin fer rólega af stað með ræðu forstjórans og fordrykk. En þegar líður á æsast leikar. Frítt áfengi flæðir og forrétturinn er borinn fram. Skyndilega eru 7 ára hrekkjusvín í hverju horni og hömlulaust fólkið gerir það sem það vill. Áður en þú veist af er Guðrún búin að skríða undir borð og skipta um sæti við Gunnu, Siggi í móttökunni hraunar yfir Fjólu í bókhaldinu og Jóhann hellir óvart rauðvíni yfir jakkaföt besta vinar síns Óla. Þegar klukkan slær 22:00 stígur leynigestur kvöldsins á svið, enginn annar en Björgvin Halldórs, BÓ sjálfur! En á sama tíma er Gunnar að fara með klámvísur á klósettinu og flestir missa af því. Bó tekur fjögur fimm lög áður en DJ-inn tekur við. Ballið klárast og það er búið að æla á gólfið, Fjóla í bókhaldinu var sótt áður en BÓ kom á svið og Jóhann sem var á sínu fyrsta fylleríi aðeins sautján ára gamall var sóttur af mömmu sinni rétt eftir að aðalrétturinn var borinn fram. Eftir kvöldið er forstjórinn sáttur, búinn að tékka í hópeflis/hrista hópinn saman boxið og getur loksins haldið áfram að vinna sína vinnu.

En er þetta svona einfalt, er það svona sem starfsmannaandi verður léttari og hópurinn þéttist? Jú, vissulega fóru einhverjir á trúnó á fylleríinu, kannski spjalla þau á kaffistofunni á mánudaginn. Það voru pottþétt einhverjir sem deildu áhuga á matnum eða tengdu í gegnum tísku. Auðvitað er ávinningurinn einhver. En tékkaði þetta í hópeflisboxið? Samkvæmt skilgreiningu í nýútgefnu íðorðasafni tómstundafræðinnar við HÍ segir að hópefli sé „kraftmikil og dýnamísk aðferð til að styrkja hópa, einstaklinga og efla samvinnu. Það byggist á því að kynnast hópnum sem unnið er með, skapa grunn fyrir heiðarlegt samtal og…styðja við jákvæða þróun hópsins.“. Ég leyfi mér að efast um að skemmtinefndir hafi þessi viðmið til hliðsjónar þegar starfsmannafögnuðir eru skipulagðir. Það eru svo ótrúlega margar einfaldar aðferðir sem hægt er að grípa til þegar efla á hópa. Þetta er ekkert nýtt af nálinni en menningin hérlendis býður ekki endilega uppá að þetta sé gert vímuefnalaust. Það er engin leið að fá hóp af fullorðnu fólki til að koma saman utan vinnu öðruvísi en að það sé vín, gætu sumir sagt. En ef vinnustaðir vilja raunverulega byggja á sterkum starfsmannahóp er mikilvægt að þar sé staðið fyrir alvöru hópefli. Ef rétt er farið að má nota hópefli til þess að t.d. stuðla að umbótum eins og bæta tjáskipti, samskipti og hegðun, efla skilvirkni, bæta félagsfærni og byggja upp traust, vinna gegn neikvæðri hegðun og stuðla að hraðari og jákvæðri þróun hópa (ordabanki.hi.is).

Það er algjör snilld að Björgvin Halldórs hafi mætt á árshátíðina og frábært að fólk kom saman utan vinnu til þess að skemmta sér. En væri ekki tilvalið að bjóða uppá eitthvað sem ber raunverulegan árangur, allir muna eftir leynigestinum, fólk gengur glatt frá borði, fötin eru heil og mamma þarf ekki að sækja? Árshátíðir eru ómissandi partur á flestum vinnustöðum og fjölmörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að hópefli en er það ekki ákveðin einföldun á mikilvægu ferli hópsins að hella hann bara fullan og sniðganga hið eiginlega hópefli. Þarf alltaf að vera vín?

Gréta Sóley Arngrímsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði,