Félagsmiðstöðvastarfsfólk sem fyrirmyndir

 

Unglingsárin er sá tími þar sem einstaklingur tekst á við að móta sjálfsmynd sína. Fyrirmyndir eru stór hluti af því að móta einstakling. Starfsfólk félagsmiðstöðva eru oft miklar fyrirmyndir og þurfum við því að einblína á það að gera okkar allra besta sem slíkar. Unglingsárin er sá tími þar sem einstaklingar læra samskipti, læra að bera virðingu fyrir öðrum ásamt því að hlusta á skoðanir sínar og annarra. Unglingsárin eru viðkvæmur tími á þroskaferlinu þar sem breytingar verða útlitislega og andlega. Ungmennin geta verið viðkvæm þar sem mikil hormónastarfsemi er í gangi og miklar tilfinningar. Starfsfólk félagsmiðstöðva þurfa því að vinna faglega í að efla félagsfærni, samskipti, framkomu og að skapa vettvang fyrir unglinga til að styrkja sjálfsmynd sína. Hlutverk starfsfólks félagsmiðstöðva er að vera jafningi þeirra og vinur ásamt því að styrkja unglinginn á uppbyggilegan hátt og styðja við hæfni hans í að takast á við framtíðina.

Nú er ég ásamt öðru fólki að læra tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. Þar læri ég samskiptafærni og hvernig á að sinna faglegu starfi. Við lærum virka hlustun, þroskaferli barna, jafnrétti, lífsleikni svo lengi mætti telja. Margir halda að starfið snúist einkum um það að spila, spjalla og horfa á vidjó. Starfsfólk félagsmiðstöðva leggja mikið upp úr skoðunum ungmenna og hjálpa þeim að framkvæma hluti sem þau vilja framkvæma. Tel ég starfsfólk félagsmiðstöðva reyna sitt allra besta í að hlusta á ungmennin og bera virðingu fyrir skoðunum þeirra ásamt því að efla sjálfsímynd þeirra. Starfsfólk félagsmiðstöðva eiga að gera sitt besta í að vera fyrirmyndir og ungmennin eiga að geta leitað til þeirra og treysta þeim fyrir því sem þeim er sagt. Það að geta leitað til starfsfólks sem hlustar og skilur mann er verulega dýrmætt á unglingsaldri. Auðvitað koma upp mál sem starfsfólk eru skyldugir til þess að fara með lengra en það er því nauðsynlegt að hughreysta þau og útskýra það fyrir ungmennunum  að best sé að leysa vandann með hjálp fagaðila.

Ungmennin líta upp til starfsfólksins og á það við innan sem utan vinnustaðar. Starfsfólk félagsmiðstöðva eiga það til að fara út að skemmta sér og drekka áfengi í sínu einkalífi og eru alltaf líkur á því að þau rekist á ungmenni jafnvel úr sinni félagsmiðstöð. Því er mikilvægt að tækla þær aðstæður og sýna að hægt er að neyta áfengis án þess að vera með fávitaskap. Starfsfólk eiga það til að hópa sig saman úr nokkrum félagsmiðstöðvum og skella sér til dæmis í keilu þar sem áfengi er við hönd. Er ekki skynsamlegra að hittast á öðrum vettvangi og þá helst lokuðum vettvangi þar sem minni líkur eru á að hitta ungmennin? Skiptar skoðanir eru á þeim málum þar sem mörgu starfsfólki finnst þau mega gera það sem þau vilja í sínu einkalífi. En við sem fyrirmyndir ungmennana erum að móta hegðun þeirra að vissu leyti og er því mikilvægt að starfsfólk sé meðvitað um það bæði í vinnu sem og utan hennar.

Verum flottar fyrirmyndir sem ungmennin líta upp til. Með því sýnum við gott starf og ábyrgð sem félagsmiðstöðvastarfsfólk.

Sara Laufdal Arnarsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands