Fræðsla um kynlíf fyrir unglinga

Í þessari grein ætla ég að tala um mikilvægi fræðslu á kynlífi fyrir unglinga. Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig kynfræðsla var á þeim tíma sem ég var í unglingadeild. Þegar ég var unglingur hafði ég ekki hugmynd um margt sem tengist kynlífi eða kynþroska almennt. Við fengum eina fræðslu í 8-9. bekk og það var alls ekki fullnægjandi fræðsla fyrir ungmenni á þessum aldri. Ég hafði ekki hugmynd um afhverju konur færu á blæðingar, hvernig egglos ferlið er eða hvernig börnin almennt koma í heiminn nema bara almennt að það gerist með kynlífi. Ég hafði ekkert vit á kynsjúkdómum og hélt að smokkurinn væri einungis til að koma í veg fyrir barneignir. Það var ekki fyrr en ég fór sjálf að hugsa út í barneignir sem ég fór að kynna mér almennilega hvernig og hvað ég þyrfti að gera til þess að búa til barn. Ég vissi auðvitað að ég þyrfti að vera á getnaðarvörn til að koma í veg fyrir þungun en hafði ekki hugmynd hvernig egglos ferlið sjálft færi fram.

Þegar ég hugsa út í það hvernig ég vil að unglingar í dag læri um þessi mál þá myndi ég vilja hafa sér áfanga um þessi málefni. Þetta er mjög mikilvægt og gæti leitt til þess að unglingar byrji ekki eins snemma að stunda kynlíf ef þau vita áhættu á kynsjúkdómum og þess háttar. Það hefur einnig áhrif á að þau stundi öruggt kynlíf og geri sér grein fyrir öllu sem tengist kynlífi, hvort sem það eru kynsjúkdómar, barnsburður eða aðrir þættir. Ég talaði við kynsjúkdómalækni fyrir alls ekki löngu síðan og hún nefndi það að kynsjúkdómar væru mun algengari í dag en voru hér áður fyrr sem segir mér strax að fræðslan er alls ekki næg fyrir ungmenni í dag. Unglingar eru meira að leita upp á húð- og kynsjúkdómadeild með óþægindi og halda að það sé ekkert mál að fá sýklalyf til þess að losna við það, auðvitað eru einhverjir sjúkdómar sem eru með þannig meðferð en alls ekki allir. Mér finnst unglingar í dag ekki nógu vel upplýstir um þá alvarlegu afleiðingar sem kynsjúkdómar geta haft í för með sér en vita meira um til dæmis klamedíu og þessa ,,algengustu“ sjúkdóma. Smokkurinn er mikilvægur og ég held að unglingar geri sér ekki grein fyrir því hversu mikilvægur hann er og telja hann jafnframt óþæginlegan í kynlífi.

Það sem mér finnst að best væri að gera til þess að laga þetta vandamál er fræðsla fyrst og fremst. Kynfræðsla ætti að vera skylduáfangi í almennu námi á unglingsaldri, jafnvel einn áfangi á hverju ári semsagt í 8., 9. og 10. bekk. Með því gætu unglingar útskrifast úr grunnskóla með góða vitund um kynlíf og allt sem tengist því. Þessi fræðsla er mjög mikilvæg og hefur það sannað sig margoft. Þetta getur komið í veg fyrir marga hættulega sjúkdóma og unglingar vita hversu mikil áhrif sumir af þessum sjúkdómum getur haft síðar meir, til dæmis á barneignir. Ég skora á skóla að auka fræðslu og þekkingu fyrir ungmenni á þessum mótunaraldri og eigum við fullorðna fólkið að ýta á það og láta í okkur heyra.

Þórey Rán Brynjarsdóttir