Gæði og þróun – Um dægradvöl í Kópavogi

Bild6Frístundaheimilin sem ætluð eru fyrir 6-9 ára börn eru mikilvægur þáttur í lífi þeirra margra. Þar gefst börnunum tækifæri á að njóta sín, efla félags- og samskiptahæfni í gegnum bæði frjálsan leik og markvisst hópastarf og mynda vinatengsl við jafningja sína.

Starf frístundaheimila hefur breyst mikið undanfarin ár og má sennilega rekja það til ársins 2002 þegar Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur (ÍTR) tók yfir rekstur heimilanna í Reykjavík. Síðan þá hefur starf frístundaheimila verið markvisst þróað með það að markmiði að bjóða upp á faglegt barnamiðað félagsstarf fyrir 6-9 ára börn. Þegar ÍTR tók yfir voru gefnar út bæði foreldra- og starfsmannahandbækur sem skilgreindu og útskýrðu starfið betur fyrir þessum hópum. Haustið 2011 voru Menntasvið Reykjavíkur og ÍTR sameinuð í eitt svið, sem kallast Skóla- og frístundasvið. Ein af fystu ákvörðum innan sviðsins var að búa til gæðaviðmið fyrir allt frístundastarf, s.s. frístundaheimilin, félagsmiðstöðvar og frístundaklúbba, til að geta lagt mat á þessa þjónustu og finna leiðir til úrbóta í samstarfi við starfsstöðvar þeirra. Í kjölfar þessa var ritið „Viðmið og vísbendingar um innra og ytra mat í gæðum frístundastarfs“ gefið út haustið 2015.

Samhliða þessari þróun hefur umræða um hlutverk frístundaheimila aukist mikið innan Háskóla Íslands, þá sérstaklega innan tómstunda- og félagsmálafræðarinnar. Þaðan útskrifast fjöldi nemenda á hverju ári sem tómstundafræðingar en þeir eru sérfræðingar á sviði tómstunda og þeirri menntun barna sem á sér stað í frítíma þeirra. Auk þess eru reglulega haldnar ráðstefnur þar sem fagfólk úr öllum áttum kemur saman til að ræða málefni tengd frítíma. Sem dæmi um þetta, má nefna að í mars 2015 var haldinn Tómstundadagur, þar sem málefni frístundaheimila voru í brennidepli og árið 2016 verður Tómstundagurinn haldinn í annað sinn og þá helgaður tölvum og tækni.

Hafa ber í huga að umræða um starf frístundaheimila miðar að mestu leyti við það starf sem fram fer í Reykjavík. Við vitum lítið um það starf sem fram fer í öðrum sveitafélögum á Höfuðborgasvæðinu eða á landsbyggðinni. Ein af ástæðunum fyrir þessum mismun á framboði félagsstarfs er að í 33. grein í grunnskólalögum 91/2008 er aðeins skilgreind sú „lengda viðvera“ sem sveitfélög mega bjóða upp á gegn greislu án þess að skilgreina um hvers konar þjónustu er að ræða. Því hefur hvert sveitafélag fyrir sig fundið lausnir til að koma til móts við foreldra barnanna um samfellda þjónustu fyrir þau. Oft hafa sveitafélögin þá lýsandi nöfn fyrir sína þjónustu. Sem dæmi eru í sveitafélögum á Höfuðborgasvæðinu notuð fimm mismunandi nöfn fyrir sömu þjónustu. Í Reykjavík og Hafnafiði er talað um frístundaheimili, dægradvöl í Kópavogi, frístundasel í Mosfellsbæ, tómstundaheimili í Garðabæ og skólaskjól í Seltjarnarnesi.

Í öllum þessum sveitafélögum er unnið gott, fjölbreytt starf. En við vitum of lítið um þetta starf, þar sem erfitt er að finna góðar upplýsingar um starf frístundaheimila fyrir utan Reykjavík. Ég hef unnið sem forstöðukona í frístundaheimili (dægradvöl) í Kópavogi í þrjú ár núna og markmiðið með þessari grein er að lýsa þróun á því frístundastarf fyrir börn 6- 9 ára í Kópavogi með áherslu á það hvaða breytingar hafa átt sér stað síðasta eina og hálfa árið eða svo.

Þegar ég hóf störf við dægradvöl í Kópavogi var starfið skipulagt þannig að allar ákvaðarnir voru teknar innan grunnskólans. Dægradvalir í Kópavogi tilheyra hver sínum grunnskóla. Skólastjórar eru yfirmenn dægradvala en við forstöðumenn sjáum um daglegan rekstur þeirra. Við forstöðumenn hittumst sjaldan og óreglulega og oft voru okkar fundir frekar notaðir til að tala saman en síður til að ræða markvisst um okkar fag og starf. Þetta breyttist vorið 2014 þegar menntasvið Kópavogsbæjar hugðist innleiða svokallaða sumardvöl fyrir börn á leið í fyrsta bekk. Við forstöðumenn byrjuðum að efla samskipti milli okkar og ræddum um fyrirhugaðar breytingar en einnig um daglegt starf okkar í skólunum, ásamt hlutverki og ímynd dægradvalar innan skólasamfélagsins svo dæmi sé nefnt. Við byrjuðum að hittast reglulega, að minnsta kosti einu sinni í mánuði eða jafnvel oftar þegar það átti við. Við byrjuðum að skilgreina okkur sem faghóp en ekki einungis sem hóp fólks með sömu starfsheiti. Þá fórum við einnig að kynna okkur starf frístundaheimila á öðrum stöðum. Í október 2014 fórum við saman til Norrköping í Svíðjóð og svo í apríl 2015 til Akureyrar. Í Norrköping lærðum við um nám frístundakennara og hlutverk þeirra í skólasamfélaginu. Akureyrarbær er hins vegar sveitafélag af svipaðri stærð og Kópavogur og töldum við því upplagt að bera frístundaþjónustu þessara tveggja sveitafélaga saman. Hlutverk og starfshlutfall forstöðumanna í Kópavogi er mun betur skilgreint en á Akureyri. Þar sinna forstöðumenn oft tvöföldu hlutverki í grunnskólum, vinna t.d. líka á bókasafni eða sem ritarar skólans.

Á sama tíma og hópur forstöðumanna dægradvala Kópavogsbæjar varð samheldnari fór einnig af stað umræða innan menntasviðs um að bæta faglegt starf í dægradvölum með því að skrifa niður og birta opinberlega stefnu þeirra. Þar er meðal annars gert ráð fyrir að hver dægradvöl geri starfsáætlun á sama hátt og grunnskólar, vinni markvisst með óformlegt nám og frjálsan leik og að grunnþættir menntunar; læsi, lýðræði, jafnrétti; menntun til sjálfbærni og skapandi starfs, séu grundvöllur fagleg starfs í dægradvölum. Í kjölfar þessarar umræðu var einnig skrifuð starfsmannahandbók sem ætlað er að skilgreina starfið enn nánar, lýsa verkferlum og hjálpa almennu starfsfólki að aðlagast vinnuumhverfi sínu. Bæði stefna og starfsmannahandbók dægradvalarinnar verða gefin út á næstu vikum og munu þær hafa djúpstæð áhrif á starf í dægradvölum í Kópavogi á næstum árum. Mér finnast þessar breytingar afar skemmtilegar og gefandi og hef ég lagt mig mikið fram við að aðstoða bæði við skilgreiningu stefnunnar og gerð handbókarinnar. Ég sé miklar framfarir innan míns starfsstaðar og ég finn að starf okkar er orðið mun stærri hluti af daglegu starfi skólans en áður. Ég er í daglegum samskiptum við kennarna um börnin og félagslega stöðu þeirra. Samstarf milli dægradvala hefur einnig breyst mikið. Við forstöðumenn notum samfélagsmiðla til að aðstoða hvert annað í daglegu starfi og undafarnar vikur hafa börn í öllum dægradvölum fengið tækifæri að kjósa nafn fyrir sína dægradvöl.

Á sama tíma upplifi ég ferlið eins og það á sér stað í Kópavogi núna sem krefjandi og finnst það valda miklu álagi. Ekki eru allir sammála um hversu mikið samstarf þurfi að vera milli dægradvala og vilja miklu frekar að þær haldi sérstöðu sinni. Mér finnst það sjónarmið hafa fullan rétt á sér en til að bæta fagleg vinnubrögð í dægradvölum og lyfta þeim upp á næsta þrep er að mínu mati nauðsynlegt að auka faglegt samstarf milli forstöðumanna undir stjórn menntasviðs til að tryggja að allar dægradvalir vinni að sömu markmiðum. Að samræma skipulag dægradvala en viðhalda þó sérkennum hvers staðar fyrir sig er mjög krefjandi vinna og vonast ég til þess að við munum ná því markmiði á næstu árum. En ég er viss um að við getum það ef vinnunni verður haldið áfram af sama krafti og verið hefur undanfarin ár.

Áfram Kópavogur- Við getum þetta!

Ulrike Schubert, forstöðukona í Krakkalandi, dægradvöl í Snælandsskóla