„Hvað meinaru?“

Er spurning sem ég er farin að fá oftar og oftar, og áherslan á „hvað meinaru“ ? verður sterkari og háværari með hækkandi unglingsaldri barnanna minna. Byrjaði sem saklaust „ha“? Þegar börnin voru rétt að byrja að tala, þá var „ha“ oftast svarið sem ég fékk við nánast öllu. „Af hverju“ orðasamsetningin kom svo á eftir „ha“ tímabilinu. Meira segja þegar þau vissu vel „af hverju“ þá var það eins og einhver þörf hjá þeim að bæta við „af hverju“?

Foreldrahlutverkið er mér afar hugleikið. Án nokkurs vafa það erfiðasta en á sama tíma mest gefandi hlutverk sem ég hef tekist á við. Vanmáttartilfinningin gagnvart því hvernig ég geti verndað börnin mín verður stundum svo mikil að mig verkjar. Það er ekki hægt að undirbúa sig fyrir þær áskoranir sem koma þegar maður verður foreldri. Okkur er ekki rétt nein handbók með heim af fæðingardeildinni, bara brosað til okkar og okkur góðs gengis.

Ef við kíkjum bara í eina elstu „handbók“ mannkynssögunnar í mannlegum samskiptum – Biblíuna, þá eru boðorðin tíu flott viðmið sem ég reyni að stuðla að þau tileinki sér í samskiptum við aðra. Þrátt fyrir að ein bylting taki við af annarri þá getum við nokkuð vel treyst á það að manneðlið breytist ekki mikið og að þessi gildi boðorðanna munu ávallt fylgja okkur. Sjálfsmynd okkar og sjálfstraust endurspeglast í samskiptarhæfni okkar og því hefur mikilvægasta verkefnið mitt verið að aðstoða börnin mín að byggja upp sterka sjálfsmynd til framtíðar.

Samskiptamiðlar (Facebook, Instagram, Snapchat o.fl.) og notkun snjalltækja hefur aukist gríðarlega s.l. áratugi. Ungmennin okkar eiga í samskiptum allan daginn í gegnum þessa miðla og þar getur verið mjög erfitt fyrir foreldri að fylgjast með.

Ég hef ég reynt að móta þau á sem jákvæðastan hátt með því að veita þeim kærleiksríkt uppeldi, vera þeim góð fyrirmynd, hvetja þau til tómstundariðkunar, beita sanngjörnum aga þegar kemur að notkun snjalltækja, umbuna þeim fyrir góð verk, kynnast vinum þeirra og verða meðvituð þegar þörf er á að taka „spjall“ um hin og þessi málefni til að stuðla að heilbrigðu líferni eins og vímuefnanotkun, kynlífi, einelti, fátækt og svo lengi mætti telja. Þetta ætti að gefa nokkuð grænt ljós á bjarta framtíð fyrir þau, ekki satt? En eins og ég sagði í upphafi þessarar efnisgreinar, þá hef ég reynt, en það er ekki það sama og að takast. Það mun sýna sig næstu árin hversu vel tókst til, því ég var langt í frá fullkomin, en ég reyndi.

En titillinn á þessari grein „Hvað meinaru“ er meira svona „HVA MEEEEEEEEINARUUUU“ því þau innilega skilja mig ekki oft og ég sömuleiðis ekki þau. Síðasta árið þeirra í grunnskóla og fyrstu tvö árin þeirra í framhaldskóla hafa reynst mér erfiðust í móðurhlutverkinu hingað til. Tilfinningin er svoldið eins og áhrifamáttur minn sé á undanhaldi og viss höfnunartilfinning gerði vart við sig. Þau þurfa minna eða öðruvísi á mér að halda. Núna eru það vinirnir sem eru gríðarlegir áhrifavaldar og þar á meðal nýju vinirnir, sem ég þekki lítið sem ekkert.

Kenning sálfræðingsins Eriks E. Eriksonar segir okkur að við erum að læra og þroskast frá vöggu til grafar, þannig að þó svo að við séum búin að gera okkar allra besta í uppeldinu þá er það ekki öruggur passi til framtíðar. Ég get þó huggað mig við kenningu Bowlbys, en hún gefur til kynna að tengslamyndun okkar í æsku sé mikilvægur grunnur fyrir góða samskiptarhæfni. Ég vona svo sannarlega að mitt framlag til barnanna minna muni koma þeim að gagni í gegnum þær áskoranir sem unglingsárin hafa fært þeim nú þegar og til næstu ára.

Sem tilvonandi tómstunda- og félagsmálafræðingur þá er eitt af mínu mikilvægasta hlutverki að vera fyrirmynd. Hvernig get ég verið sterk fyrirmynd fyrir unglinga? Sérstaklega þegar ég upplifi það oft á tíðum að ég nái ekki til minna eigin unglinga. Besta fordæmi sýni ég með því að láta verkin tala, þar sem verkin segja meira en nokkur orð á þessu tímabili, sýna nærgætni og nýta mér aðferðir óformlegs náms.

Fanney Marín Magnúsdóttir, fyrsta árs nemi við tómstunda og félagsmálafræði. Er gift Arinbirni Þór Kristinssyni til 19 ára og eigum við þrjá gullmola á aldrinum 19, 15 og 7 ára.