Hvar er kynfræðslan?

 

Þegar kemur að kynlífi eru allar umræður mjög viðkvæmar á unglingsárunum. Þetta er aldurinn þar sem vangavelturnar byrja og spurningarnar kvikna. En hver á að svara þessum spurningum þegar unglingurinn þorir ekki að spyrja? Hver einasti fullorðni einstaklingur hefur verið í þessum sporum og ætti þess vegna að vita að það er þörf á kynfræðslu fyrir unglingana á þessum aldri. Unglingar eru forvitnir og þá vantar svör við spurningunum sem þau hafa. En þegar þau fá ekki kynfræðslu í skólanum og kannski ekki frá foreldrum heldur, hvert leita þau þá? Jú, auðvitað á netið þar sem hægt er að nálgast allar upplýsingar.

En hvernig upplýsingar ætli unglingar fái um kynlíf þegar þau kíkja inn á klámsíðu? Þar koma upp alls konar flokkar af alls konar kynlífi og það er ekki mögulegt fyrir þau að vita hvað sé eðlilegt og hvað ekki, eða hvað sé raunverulegt og hvað ekki. Þau fara kannski að telja það sem eðlilegan hlut að strákurinn eigi að ráða og stjórna og sama hvað þeim finnist eigi það bara að vera svoleiðis. Svo þegar þau fara að stunda kynlíf pæla þau ekkert í því hvað þau vilja eða hvað hinn aðilinn vill og gætu þá farið að pína sig í einhverja tegund kynlífs sem þau langar ekki að stunda.

Samkvæmt klámi er strákurinn alltaf tilbúinn fyrir kynlíf en strákar geta alveg verið þreyttir, orkulausir eða hreinlega bara ekki í stuði fyrir kynlíf alveg eins og stelpur sem geta verið nákvæmlega sömu stöðu. Klámið gefur einnig til kynna að stelpan eigi alltaf að fá mjög kröftuga fullnægingu en samkvæmt rannsóknum geta einungis 20% kvenna fengið fullnægingu með samförum einum og sér og því er ekkert óeðlilegt við það að eiga erfitt með að fá fullnægingu eða geta það bara hreinlega ekki. Annað sem er algengt í klámi er að munnmök virðast oftast eiga að vera til staðar á undan samförum en það er algjörlega persónubundið hvort að einstaklingurinn vilji munnmök eða vilji veita munnmök og er það eitthvað sem á ekki að vera sjálfsagður hluti af kynlífi. Klám er því alls ekki rétti staðurinn til að leita að svörum og eru þetta bara nokkur dæmi um villandi upplýsingar í klámi.

Foreldrum finnst oft erfitt að tala við unglingana sína um kynlíf. Sumum finnst það hreinlega óþægilegt sjálfum og sumum finnst það ýta undir að unglingurinn fari að stunda kynlíf. Einnig finnst unglingum sjálfum oft óþægilegt að tala við foreldra sína um kynlíf og því er spurning hvort skólinn væri ekki betri staður til að tala um þessa hluti. Kynfræðsla í skólum á Íslandi er alls ekki nógu góð og er alveg kominn tími til að bregðast við með því að auka kynfræðslu til muna. Mikilvægt er að unglingar fái réttar upplýsingar svo að þau séu skynsöm og til þess að þau viti að þau hafi rétt á að ákveða sjálf hvað þau gera í kynlífi eða hvort þau stundi kynlíf.

Kynlíf er partur af lífi allra unglinga, hvort sem þau eru að stunda kynlíf, stunda sjálfsfróun eða einfaldlega með forvitnilegar pælingar. Aukin kynfræðsla myndi auka vitneskju unglinganna mjög mikið og hjálpa þeim að takast á við allt tengt kynþroska og kynlífi í framtíðinni.

Ásta Eygló Pálsdóttir, nemandi í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands.