Hvert er stefnan sett eftir grunnskóla?

saga steinsenÞá er runninn upp sá tími þar sem margir ef ekki flestir unglingar í 10 bekkjum grunnskólanna eru farnir að íhuga stóru spurninguna sem skellur á þeim á loka önninni. Í hvaða menntaskóla ætlar þú? Þau velta fyrir sér hvort þau langi í iðnnám, hvort þau langi í skóla sem bíður upp á bekkjarkerfi, þau spá í fjölbrautarkerfinu og síðan eru alltaf einhverjir sem bara hreinlega ætla ekki í skóla og fara þá að öllum líkindum beint út á vinnumarkaðinn. Það er ekki sjálfgefið að krakkarnir velji að fara í framhaldsskóla strax að loknum grunnskóla. Sumir hafa ekki ráð á því, aðrir vilja kannski bíða aðeins með það og enn aðrir nenna því bara ekki.

Þegar ég var unglingur í 10.bekk í Réttarholtsskóla þá var þetta þvílíkur maga- og höfuðverkur. Ég man hvað þetta var samt allt ótrúlega spennandi. Loksins var maður að fara í Menntaskóla. Ég hafði alltaf stefnt að því að fara í menntaskóla og fara svo beint í háskóla eftir það. Flestir framhaldsskólar buðu upp á kynningardaga þar sem maður gat valið um hvaða skóla mann langaði að heimsækja. Ég gleymi því aldrei þegar ég var í þessum sporum. Ég valdi Versló, MS, Kvennó, MR og MH. Versló var of snobbaður fyrir minn smekk, MS lyktaði illa, Kvennó og MR voru með ruglingslegar byggingar og MH, já hann var bara MH.

Ég endaði í illa lyktandi skólanum, en aðallega vegna þess að ég sá ekki fram á að komast inn í aðra og mig langaði bara ekki í hina. En til þess að komast inn í alla þessa skóla þurftum við að taka próf. Það voru jú þessi blessuðu samræmdu próf sem við þurftum að þreyta á þessum tíma. Ég var meðalnemandi með slaka samræmduprófs einkunn í stærðfræði svo hún dróg meðaleinkunnina mína niður. Ég valdi málabraut til að losna við stærðfræði eftir fyrsta árið. Ég hefði ekki átt að hugsa svona þá, en ég veit það í dag.

En talandi um samræmda prófið, prófið sem fékk mig til að kvíða öllu sem kvíða þurfti. Þessi próf voru alveg hreint skelfileg fyrir manneskju eins og mig. Nú er búið að fella reglugerð nr. 414/2000 úr gildi, en hún snýr að fyrirkomulagi og framkvæmd samræmda lokaprófa í 10. bekk. Í staðin fyrir samræmda lokaeinkunn er tekin saman heildar einkunn þar sem nemendur hafa verið að skora mjög hátt. Er það rétta leiðin? Flestir nemendur útskrifast með prýðis einkunn og þá verður alveg vonlaust fyrir suma skóla að velja á milli nemenda. Langir biðlistar og þeir þurfa oftar en ekki að hafna fólki sem er með frábærar meðaleinkunnir. Það hefur einnig sýnt sig í sumum skólum að margir nemendur sem hafa útskrifast með háar meðaleinkunnir ná hreinlega ekki tökum á námsefninu. Afhverju er það? Jú það er af því að þetta kerfi er greinilega ekki að virka. Það þarf að finna einhvern meðalveg í þessu öllu saman. Ég er ekki að segja að það þurfi að taka upp samræmdu lokaprófin aftur en það þarf samt að breyta einhverju. Þetta er greinilega ekki að virka. En hvað væri hægt að gera?

Nú er ég ekki alveg nógu vel að mér í grunnskólunum, hvernig þeirra kerfi eru en þau eru ef til vill mismunandi eftir skólum. Að mínu mati þyrfti að koma upp einhversskonar kerfi sem metur nemendur fyrir öll þau þrjú ár sem þau verja á unglingastigi eða frá 8. bekk og upp í 10. bekk. Það væri jafnvel hægt að finna einhversskonar meðaleinkunn frá þessum þremur árum. Gera eitthvað meira úr þessu, sjá til þess að nemendur séu duglegir, skili verkefnum og geri þau vel. Ég er þó ekki hlynnt lokaprófum, sérstaklega ekki ef þau heita eitthvað eins og stúdentspróf eða samræmd próf. Það stressar bara manneskju eins og mig. Þetta eru bara próf sem þarf að klára svo hægt sé að halda áfram í lífinu (það hljómar miklu betur).

Mér þætti gaman að sjá hvort það yrði fundin einhver lausn á þessum málum.

Saga Steinsen, tómstunda og félagsmálafræði Háskóli Íslands.