Latir unglingar?

Flestir unglingar nú til dags eru á fullu í tómstundum, ásamt því að vera í skóla þar sem kröfurnar eru miklar. Umræðan í samélaginu er oft á þá leið að unglingar eru sagðir vera latir og geri ekki annað en að hanga í símanum eða í tölvunni. Raunin er þó að auk þess að taka virkan þátt í félagstarfi og skóla eru mörg hver að feta sín fyrstu spor úti á vinnumarkaðnum. Atvinnumöguleikarnir fyrir þennan aldurshóp eru aðallega þjónustustörf. Þá eru bakarí, ísbúðir, sjoppur og matvöruverslanir það helsta sem þessi aldur sækist eftir.          Þeir sem eru í vinnu á unglingsaldri eru þá oftar en ekki búnir að skipuleggja ýmsa viðburði t.d. fjáraflanir, árshátíðir í skólanum ásamt því að hafa verið að passa yngri systkini eða börn fyrir vinafólk, hjálpa til við heimilisstörfin og aðstoða afa og ömmu. Þessi reynsla gefur þeim mikið fyrir fyrstu atvinnuna og kennir þeim þar með hvernig á að axla ábyrgð. Þau átta sig á hverju er verið að búast við af þeim og hverjar kröfurnar eru í vinnunni. Eins er fólk á unglingsaldri fljótt að læra og taka ábyrgð.

Þrátt fyrir það er alltof algengt að viðskiptavinir „leyfi sér“ að vera dónalegir og hvassir við þennan tiltekna aldurshóp, jafnvel telja að aldur endurspegli reynslu og vitsmuni. Ég hafði samband við nokkrar vinkonur mínar sem voru í þjónustustörfum á unglingsaldri og eru líka í þjónustustörfum nú eftir að þær eru komnar á þrítugsaldur. Allar voru þær sammála um að þegar þær voru að stíga sín fyrstu skref í þjónustustörfum að fólk var dónalegra við þær heldur en aðra starfsmenn á sama vinnustað sem voru eldri. Þá lenti ein þeirra í því að kona á fertugsaldri kom inn, var mjög dónaleg og fór að kvarta, settist svo niður. Konan kom svo aftur eftir einhverja stund og gerði sig líklega til að verða reið aftur en þá var starfstúlkan ekki ein eins og áður, heldur karlkyns starfsmaður á fimmtugsaldri hjá henni. Konan snarhætti við að byrsta sig og varð ljúf sem lamb í samskiptum við eldri starfsmanninn.

Einnig er áhugavert að velta fyrir sér hvaða aldurshópur það er sem lætur oftast út úr sér leiðinleg ummæli um þjónustu og starfsfólk. Eftir umræðuna við vinkonur mínar vorum við allar sammála um að það væru fólk sem væri 35-60 ára. Fólk sem er yngra en það getur jafnvel sett sig í spor starfsfólksins og fólk sem er orðið eldra er þá jafnvel að sýna umhyggju í garð starfsólksins, sem gæti verið vegna þess að þau eiga barnabörn á sama aldri og starfsfólkið sem um ræðir. Svona viðmót er mjög algengt gagnvart ungu fólki í þjónustustörfum sem fær mig til þess að velta því fyrir mér hvort það sé samhengi á milli orðræðunnar í samfélaginu um að unglingar séu latir og viðskiptavina sem halda að það hafi rétt á leiðinlegu og dónalegu viðmóti, sem býr jafnvel til valdabaráttu á milli ungra starfsmanna í þjónustustörfum og viðskiptavina og getur jafnvel endað með því að unglingar hrekist frá svona störfum og velja þá í einhverjum tilvikum að sleppa því að vinna með skóla.

Þar af leiðandi er mjög mikilvægt að allir setji sér það markmið að brosa og bjóða góðan daginn í samskiptum við annað fólk, því öll getum við sett okkur í spor starfsfólksins. Auk þess er engin þörf á því að hvessa sig og eyðileggja þar með dag einhvers, og jafnvel sinn eigin.

—–

Debóra Dögg Jóhannsdóttir, nemi í Tómstunda- og félagsmálafræði