Nauðsyn öflugs félagsstarfs meðal óvirkra fíkla

eva_arnadottirFlestir þekkja málefni er varðar óvirka fíkla. Einstaklinga sem hafa verið í ógöngum en hafa snúið við blaðinu. Félagsstarf er eitt af því mikilvægasta í bataferli fíkilsins þar sem edrú líferni má ekki verða að gráum hversdagsleika ef fyrrum fíkilinn á að ná bata til lengri tíma. Margir spyrja sig eflaust af hverju í ósköpunum má þetta vera en ef edrú líferni verður innihaldslaust og leiðinlegt eru miklar líkur á að einstaklingurinn leiti í fyrra líferni þar sem gleðin virtist oft á tíðum vera meiri.

Þau félagasamtök sem koma mest að óvirkum fíklum eru SÁÁ samtökin. SÁÁ býður allt frá meðferð upp í félagsstarf af ýmsum toga. En af hverju hafa samtök sem þessi ekki starfandi félagsmála- og tómstundafulltrúa í vinnu sem sér um öll þau málefni sem snúa að félagsstarfi óvirks fíkils? Er ekki litið á málefnið sem einn af mikilvægustu þáttum í edrú göngu fíkilsins? Er of mikið horft til þess að koma einstaklingum í meðferð eða önnur úrræði til þess að gera viðkomandi edrú? Hvað gerist svo þegar einstaklingurinn hefur náð að þurrka sig upp, hvað tekur við? Margir fíklar þekkja þann raunveruleika eftir langa eða stutta neyslugöngu að þegar þeir hyggjast hætta þá standa þeir einir. Sumir eru löngu orðnir einir á meðan aðrir eiga einungis neyslufélaga. Þessum raunveruleika þarf að mæta með því að bjóða upp á stuðning sem SÁÁ býður upp á í vissu mæli og nýtist eflaust mörgum vel. En þeim sem fara ekki þá leið þarf einnig að standa eitthvað til boða.

Með þessum skrifum er ég ekki að segja að samtökin bjóði ekki upp á félagsstarf, alls ekki, en ég bendi á mikilvægi þess að hafa faglærðan einstakling sem sér um allt starf sem snýr að félagsstarfi. Allt það félagsstarf sem samtökin bjóða upp á er rekið af áhugamönnum og konum. Hópanir sem sækja félagsstarfið eru misjafnir og hægt er að skipta þeim upp eftir því hvað hentar hverjum og einum. Öll sú félagsstarfsemi sem SÁÁ býður upp á er frábær og ekkert út á hana að setja sem slíka. Samt sem áður tel ég þörfina fyrir menntaðan einstakling í tómstunda- og félagsmálafræði mjög mikla fyrir samtökin. Ástæða þess að ég tel mikilvægt að hafa faglærðan aðila í starfinu er að til þess að geta mætt öllum samfélagshópum jafnt þarf að hafa þekkingu og kunnáttu  sem nauðsynleg er á þessum vettvangi. Þar sem mikilvægi þessa vettvangs er gríðalegur, ört vaxandi og síbreytilegur, er rík þörf fyrir að hafa aðila í fullri vinnu við málefni sem snýr að félagsstarfi óvirkra fíkla

Þeir sem velta þessu málefni fyrir sér spyrja sig eflaust af hverju þessu er ekki sinnt betur. Hvar á listanum yfir mikilvægi liggur málefni sem þetta, hvað má gera betur? Tilgangurinn með þessum skrifum er að sýna fram á mikilvægi öflugs félagsstarfs er varðar líf óvirkra fíkla, að gefa þeim sem lítið vita um þetta málefni betri innsýn og vonandi opna á jákvæða og skilningsríka umræðu. Hvort stjórnendum SÁÁ þyki málefnið jafn mikilvægt og aðrir telja er aftur á móti annað mál. Í þróuðu samfélagi sem okkar þykir mikilvægt að skoða og velta fyrir sér öllum þáttum er varðar fólkið og samfélagið í heild og fellur málefni sem þetta vel í þann ramma.

Eva Árnadóttir, háskólanemi