,,Og er alveg þörf fyrir svona fólk í þjóðfélaginu?“

fanney,,Og hvað ertu að læra segirðu?“ Spurði Helga kunningjakona mín sem ég hafði ekki séð í talsverðan tíma. Ég stóð í miðri mjólkurvörudeildinni í Hagkaup og hafði gripið mér laktósafría Hleðslu og banana. Ég andvarpaði. Hún horfði á mig stóreygð og spyrjandi. Ég vissi að nafnið eitt myndi alls ekki útskýra greinina í heild sinni og undirbjó mig undir ræðuna.

Ég er í ótrúlega skemmtilegu og fjölbreyttu námi sem heitir Tómstunda- og félagsmálafræði. „Já okei, ertu þá ekki að fara vinna á svona frístundaheimili?“ spurði hún brosandi. Jaaa… nei… ég meina ég gæti gert það og það er til dæmis fullt af fólki sem að velur sér þetta nám og ætlar sér að starfa með börnum og unglingum á þeim vettvangi eða öðrum. En það er töluverður misskilingur í gangi sem veldur því að fólk tengir þetta nám einungis við þetta starf. Ég til dæmis hef meiri áhuga á að starfa með fullorðnum. „bíddu… nú skil ég ekki“.

Jú, sjáðu til, tómstunda- og félagsmálafræði er ótrúlega fjölbreytt og gott grunnnám og frábær grunnur fyrir allt sem að snýr að vinnu með fólki, svo er námið ótrúlega mannbætandi í heild sinni. Við lærum ótrúlega praktíska hluti. Flest allt sem við lærum fáum við svo tækifæri til þess að „æfa“ úti á vettvangi. Ég hef t.d. fengið tækifæri til þess að fara í útivistarferðir þar sem við höfum lært að starfa í hópi og skoða okkur sjálf. Ég fékk tækifæri til þess að kenna lífsleikni í Borgó, síðasta haust fékk ég að vera útinámskennari í öðrum bekk og núna er ég í vettvangsnámi hjá ÍMARK fagfélagi markaðsfólks á Íslandi. „Haaaa! Vá það hljómar eins og það sé ótrúlega fjölbreytt og skemmtilegt“. Já mér finnst það! Áfangarnir sem við förum í spanna allt frá þroskasálfræði og upp í verkefna og viðburðastjórnun, leiklist og já á fyrsta ári vorum við í hugleiðslu og jákvæðri sálfræði.

,,En skemmtilegt. En eru þið þá ekki bara að leika í ykkur alla daga?“.Ég gretti mig í hljóði. Það er nú líka talsverð mýta, Við erum einnig í bóklegum greinum eins og aðferðarfræði og sitjum fyrirlestra í bland. Hins vegar er eins konar bekkjarkerfi í tómstunda og félagsmálafræði og afþví að við erum talsvert fá þá skapast góður hópandi. Þar af leiðandi eru allir spenntir að mæta í skólann og við pössum vel upp á hvort annað. Við erum líka í nánari samskiptum við kennarana okkar. Það er ekki eins mikil fjarlægð og oft myndast þegar salurinn er of stór og fyrirlestrarnir fara fram á sviðinu í Háskólabíó. Við erum mikið í að leika okkur en það er alltaf eitthvað „point“ með leikjunum, auk þess sem að það er mikilvægt að eiga góða leiki í farteskinu þegar starfa á með fólki.

,,Hvað ætlarðu þá eiginlega að vinna við í framtíðinni?” Ég klóraði mér í hausnum og reyndi að senda einhver skipulögð orð út um munninn: Ég veit það ekki alveg, ætli ég fari ekki í master, hugsa ég. Fer kanski að skapa eitthvað skemmtilegt fyrir fólk, búa eitthvað til, námskeið eða fyrirtæki sem gerir eitthvað skemmtilegt. Ég veit það ekki alveg.

,,Og er alveg þörf fyrir svona fólk í þjóðfélaginu?“ sjáðu til ….tómstundarfræðin miðar að öllu sem viðkemur tómum stundum, það eiga allir tómar stundir. Tómstundafræðingar miða að því að skapa meiri lífsfyllingu og hamingju í þessum tómu stundum. Við eyðum allri ævinni í að læra að vinna en engin kennir okkur að eiga frítíma. Þess vegna er svarið já, ég held það sé algjörlega þörf fyrir tómstundarfræðinga í samfélaginu.

,,Ég skil, vá hvað ég hef bara aldrei heyrt þetta” sagði Helga og hagkaupsetti hleðslu í körfuna sína. ,,Við ættum algjörlega að taka kaffi við tækifæri og spjalla.”  Já endilega, gerum það sagði ég og garnirnar gauluðu. En ég þarf að þjóta! Takk fyrir spjallið! „Bless og gangi þér vel!” sagði Helga og tók stefnuna á kassann.

Fanney Þórsdóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands