Orð særa

Það hafa líklega allir fengið að heyra þá huggun að vera ekki að hlusta á þetta, þau meina ekkert með þessu. Ég myndi halda að flest allir gætu tengt við þessa setningu sama á hvaða aldri þeir eru. Öll höfum við lent í þessum aðstæðum á einhverjum tímapunkti. Þó svo að maður ætli sér ekki að taka orðin inn á sig þá gerir maður það ósjálfrátt. Fyrir börn og unglinga sem eru að stíga sín fyrstu skref í samfélaginu og verða að sjálfstæðum einstaklingum geta þessi orð skipt gífurlega miklu máli.

Það getur sært heilmikið að heyra frá skólafélögum þínum að þú sért heimsk af því að þú fékkst ekki háa einkunn á prófi eða þú sért ekki í nýjustu gerð af fötum. Sama þó svo að skólafélaginn ætlað sér ekki að vera vondur og særa þig þá hafa orð mikil áhrif. Alla mína skólagöngu leið mér eins og ég væri heimsk og væri ekki góður námsmaður af því að ég var kannski ekki með hæstu einkunnina í bekknum og að einhver gerði grín af mér.

Hvað erum við að kenna börnunum okkar ef við leyfum því að viðgangast að þau þurfi alltaf að vera að metast um hlutina? Í því hraða samfélagi sem við búum við í dag þar sem aukinn pressa er á að unga fólkið mennti sig og standa sig í daglegu lífi erum við að auka samkeppnina. Af hverju getum við ekki bara verið stolt af börnunum okkar og kennt þeim að einkunn skiptir ekki öllu eða hvernig þau líta út heldur hvort að þau drógu ávinning af verkefninu eða líði vel? Erum við að búa til betri manneskjur ef við gefum þeim þessi skilaboð að þau verði að vera best í öllu og eigi allt nýjasta og fínasta?

Mörgum nemendum hentar hreinlega ekki sú leið að taka próf og fyllast kvíða. Persónulega finnst mér ekki vera hægt að mæla þekkingu með prófi þar sem mörgum finnst próf ekki henta þeim. Margir gætu fengið lélega einkunn á prófi en svo í samtali gætu þau sagt þér frá öllu og verið jafnvel betri að sér í efninu heldur en sá sem fékk hæstu einkunn.

Sem verðandi tómstundafræðingur finnst mér að við þurfum að kenna börnunum okkar að hætta að metast. Ég heyri fólk of oft hrósa þeim sem eru í flottustu fötunum eða eiga nýjasta símann en sýna hinum engan áhuga. Hvar á leiðinni hættum við að horfa á persónuna og fórum að einblína á velgengni og verandlega hluti? Þurfum við ekki að taka skref aftur á bak og kenna börnunum okkar hvernig koma eigi fram við manneskjuna að virðingu og góðmennsku? Við erum alltof upptekin af að kenna börnunum okkar það sem skiptir ekki mestu máli. Sá einstaklingur sem fær þau skilaboð frá samfélaginu að hann sé aldrei nógu góður og þurfi að eiga hitt og þetta nær aldrei að blómstra. Hættum að dæma fólk út frá velgengni og hlutum og horfum á persónuna og styrkleika þeirra og vinnum með þeim.

Karen Ósk Ólafsdóttir