Fá börn að njóta æskunnar í fámennum sveitarfélögum?

Íþrótta- og æskulýðsstarf gegnir þýðingarmiklu hlutverki í samfélagi okkar og í lífi einstaklinga. Þátttaka barna og ungmenna í starfinu hefur fjölþætt gildi á ýmsum sviðum og í gegnum þetta mikilvæga starf skapast vettvangur til að vinna að aukinni lýðheilsu, efla félagsþroska barna og ungmenna ásamt því að vinna að forvörnum, félags- og lýðræðiþátttöku, borgaravitund og ýmsu fleira.

Við höfum öll heyrt af ávinningi forvarnarátaka á Íslandi síðustu áratugi þegar kemur að neyslu áfengis, tóbaks og fíkniefna meðal ungmenna á Íslandi. Það hefur unnist með markvissu átaki og forvörnum í gegnum árin ásamt áherslu á virka þátttöku í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Með þessum árangri hefur skilningur samfélagsins á gildum tómstunda og íþrótta skilað auknum fjárframlögum og áherslum í þeim málaflokki. En er sigurinn unninn og getum við farið að slaka á? Langt því frá, því það er ekki algilt að á Íslandi séu starfrækt öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf í hverju hverfi, bæ eða þorpi.

Snemma á þessu ári komst í fréttirnar úrskurður frá Norðurþingi þar sem að sveitastjórn ákvað að það skyldi loka sundlaug Raufarhafnar yfir veturinn og takmarka aðgengi að íþróttahúsinu. Lokunin nær til allrar þjónustu sem að var í boði í húsinu, þar á meðal sundlaugarinnar, innrauðs klefa, heits potts, gufuklefa og aðgengi almennings að íþróttahúsinu. Lokunin er gerð í sparnaðarskyni því að aðsóknin í íþróttamiðstöðina réttlætti ekki starfsemina. Samt sem áður er sundlaugin mjög vel sótt, yfirleitt er einhver í sundi og jafnvel nokkrir í einu sem að er jákvætt í ekki stærra þorpi.

Sundlaugin hefur gríðarlegt gildi fyrir íbúa þorpsins enda miklu meira en bara sundlaug. Hún þjónar ekki einungis heilsueflandi tilgangi fyrir alla aldurshópa og að vera samkomustaður heldur er hún líka í raun eina tómstund barnanna í þorpinu á veturna. Það er því ekki undarlegt að þessi ákvörðun hafi vakið miklar tilfinningar meðal íbúa Raufarhafnar. Þessi skerðing myndi hafa neikvæðar afleiðingar fyrir íbúana. Maður spyr sig hvernig er hægt að réttlæta að skera niður grunnþjónustu við heilt þorp þegar aðrir léttvægari hlutir innan sama sveitafélags eru fjármagnaðir, t.d. upphitaðir göngustígar á Húsavík.

Eftir mikil mótmæli íbúa og áskorun frá Hverfisráði Raufarhafnar var ákveðið að endurskoða lokun sundlaugarinnar en hún verður lokuð fram í apríl vegna viðhaldsvinnu og gert er ráð fyrir að hún opni í byrjun maí. Sem þýðir að með samstöðu og baráttu íbúa var ekki einungis hætt við að skera niður þjónustuna heldur er nú verið að fjárfesta í henni og bæta. En þegar þessi ákvörðun var tekin af fjölskylduráði Norðurþings ímynda ég mér að þau hafi ekki fyllilega velt fyrir sér áhrifum hennar og til þeirra mörgu hlutverka sem að sundlaugin þjónar.

Ég fagna baráttu Raufarhafnarbúa og sé nú hversu mikilvægt það er að við stöndum vörð um réttindi okkar og barna okkar til jákvæðrar tómstundaiðkunnar. Þessi ákvörðun sýnir að þrátt fyrir mælanlegan árangur og skilning á mikilvægi tómstundastarfs er ekkert sem að stendur í vegi fyrir niðurskurði að hálfu sveitafélagsins nema við íbúarnir. Það er greinilega þörf á því að bundið sé í lög aðgengi að frítímaþjónustu fyrir almenning á landinu öllu. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að sveitarfélögin mismuni íbúum sínum og að við getum boðið upp á jákvætt frístundastarf um allt land allt árið.

Jóna Guðbjörg Ágústsdóttir

Höfundur er nemi í tómstunda- og félagsmálafræði og fyrrum íbúi á Kópaskeri.