Þeirra annað heimili

Af hverju skiptir það máli að hafa sérhúsnæði fyrir frístundastarf?

Húsnæði fyrir félagsmiðstöðvar sem og frístundaheimili er grundvöllur þess að halda úti góðu og virku starfi. Í húsnæðinu þarf að vera gott flæði þar sem mikil starfsemi fer fram. Húsnæðið þarf að hafa mikið rými svo að krakkarnir hafi pláss til að leika sér. Það er gríðarlega mikilvægt starf sem fer fram í félagsmiðstöð eða á frístundaheimili. Rannsóknir hafa sýnt fram á að vellíðan barna og ungmenna eykst með frítímastarfi eða tómstundastarfi. Í starfinu sjálfu er einnig lögð áhersla á gildi forvarna, sköpunargleði og að starfsemi sé fagleg og byggi á uppeldisgildum frítímans. Að vera með eigið húsnæði fyrir frístunda- og félagstarf í skólum er mikilvægt vegna þess að það skapar öryggi hjá þeim sem sækja starfið. Þegar starfið fer fram í föstu húsnæði þá þekkja krakkarnir það og það dregur úr kvíða og óvissu hjá börnum því að þetta er staður sem þau þekkja sig á. Þetta er þeirra staður. Að hafa stað þar sem allir í hverfinu, börn og unglingar, geta leitað í til að sinna frístunda- og tómstundastarfi, er mikilvægt. Í sumum tilfellum eru þessi hús einhverskonar annað heimili barnanna og viljum við að þetta húsnæði sé þeirra og að þau séu alltaf velkomin.

Reynsla Maríu
Reynsla mín af því að hafa haft sér húsnæði fyrir starfsemi frístundaheimila og félagsmiðstöðva er til fyrirmyndar. Þar sem ég ólst upp var sér húsnæði fyrir þessa starfsemi og húsnæðið byggt nýtt fyrir aðeins þessa starfsemi. Í þessu húsnæði var og er nóg svæði fyrir allt og alla sem vilja þar vera með í starfinu. Í húsnæðinu er mikið opið rými og mörg minni rými sem var hægt að nýta í allt á milli himins og jarðar. Allir árgangar höfðu rými til þess að nýta sér húsnæðið þó ekki allir á sama degi á sama tíma en skipulag og góð nýting skiptir öllu máli. Eldhús, matsalur, hjólastólaaðgengi, salur fyrir böll, leikrými fyrir yngri árgangana og svo mætti lengi telja.  

Hér er ég með þau forréttindi að hafa fengið þetta húsnæði og notið góðs af. Af hverju eru ekki allir með sömu réttindin og fá húsnæði sem hentar þeim?

Reynsla Margrétar
Ég vinn í einum af stærstu grunnskólum landsins og eru margir krakkar sem taka þátt í frístundastarfinu hjá okkur. Við höfum lent í vandræðum með húsnæðið og var það einfaldlega út af því að aðstaðan var orðin of lítil til að koma til móts við alla krakkana. Starfið var staðsett inn í grunnskólanum í endanum á einum ganginum þar sem voru í raun tvær stofur og eitt millirými. Einstaka sinnum fengum við afnot af stofum en það voru ekki vinsælar lausnir á meðal kennara. Við vorum oft sökuð um að ganga illa um og fara ekki vel með dótið inn í stofunum. Við þurftum því oft að sætta okkur við litla hornið okkar. Á svona litlu svæði geta myndast mikil læti. Þessi læti höfðu slæm áhrif á bæði starfsmennina og krakkana. Ég man oft eftir því að hafa komið heim þreytt og með hausverk og veit ég að það voru fleiri sem fundu fyrir þessu. Lítil svæði útiloka líka þann möguleika að krakkarnir geti farið og verið í friði þegar þau þurfa á því að halda. Þannig getur myndast pirringur hjá krökkunum sem ýtir undir stress og vinnu hjá starfsfólkinu.

Við höldum að húsnæðismálum fyrir frístundaheimili og félagsmiðstöðvar sé oft ábótavant og gleymist þegar kemur að því að byggja upp hverfi. Nú er endalaust verið að byggja ný húsnæði. Það er talað um að bæta við íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Það er verið að tala um að byggja nýja grunnskóla og leikskóla en hvað með að byggja gott frístundaheimili eða félagsmiðstöð? Það að byggja aðstöðu fyrir krakkana til að geta komið og leikið sér án þess að vera hrædd um að stíga á tærnar á næsta manni ætti að vera eitt af forgangsatriðum þegar kemur að því að byggja upp hverfi. Í sumum hverfum eru húsnæðisaðstæður fyrir þessa starfsemi til fyrirmyndar en í öðrum hverfum er hægt að gera betur.

Margrét Stefanía Þorkelsdóttir og María Lilja Fossdal eru nemendur í Tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands

 

 

Fyrirmynd eða áhrifavaldur?

Í þeim heimi sem við lifum í dag er mikið um svo kallaða áhrifavalda í tísku á samfélagsmiðlum. Sem eru oft að mínu mati með mikið af duldum auglýsingum sem eru alls konar gylliboð fyrir fylgjendur sína og allt eru þetta þarfahlutir að þeirra sögn, „þessi hlutur bara breytir lífi mínu“, „ég veit ekki hvað ég myndi gera ef ég ætti þetta ekki“.

Að vera góð fyrirmynd þýðir einfaldlega að koma vel fyrir, láta öðrum líða vel í kringum sig og láta gott af þér leiða. Góð fyrirmynd hefur mikil áhrif á hvað og hvernig við gerum hlutina alla daga. Að vera áhrifavaldur þýðir að vera með auglýsingar á samfélagsmiðlum, gefa alls konar vöru með afsláttarkóða sem þú getur ekki lifað án að þeirra sögn. Svo fá áhrifavaldar greitt fyrir hversu margir nýta kóðan ásamt fastri greiðslu. Mér hefur oft fundist þetta snúast meira um að áhrifavaldurinn er aðeins að auglýsa þessa vöru svo hann fái borgað en ekki vegna þess að honum líkar varan.

Allir samfélagsmiðlar eru með aldurstakmörkin 13 ára. Á þessum aldri eru börnin okkar ennþá verulega ung. Því spyr ég: Þarf ekki meiri eftirfylgni með þessu? Frá þessum aldri og jafnvel fyrr, eru börn byrjuð að fylgjast með áhrifavöldum á öllum mögulegum samfélagsmiðlum. Efnið sem finnst þar inni er jafn mismunandi og fólkið og endalaust af upplýsingum og áreiti sem streymir inn. Er bara í lagi að 13 ára séu að spá í tannhvíttun, varafyllingum, veipum og áfengi?

Já, ég sagði áfengi, sem er með lögum bannað að auglýsa en virðist viðgangast á samfélagsmiðlum. Það er verið með alls konar leiki og því næst er dregin út kassi af bjór. Margir áhrifavaldar eru svo oft blekaðir á miðlum sínum að sýna hversu gaman er að vera undir áhrifum og hvað þeir gera sig að miklum fíflum. Erum við þá að sýna unglingum okkar hvernig á að haga sér eða hvernig á ekki að haga sér?

Að mínu mati þyrfti að herða verulega á auglýsingareglum, hvað má og hvað má ekki auglýsa á samfélagsmiðlum. Það er ekki hollt fyrir neinn, hvað þá unglinga sem eru eins og svampar að sjúga í sig hvað er í tísku og hvað á að kaupa! Þó svo þú eigir ekki nýjasta símann, 150 þúsund króna úlpu eða nýjustu air skóna þá ertu ekkert verri manneskja. Það eru margir unglingar sem eru í 50 til 80 prósenta vinnu með skóla til þess eins að geta fjármagnað neyslu sína. Það hefur sýnt sig að það er ekki mælt með að unglingar vinni mikið með skóla. Það hefur áhrif á heimanám, svefn og oft félagsskap sem er svo mikilvægur á þessum uppvaxtar- og mótunarárum. Með vinnu sjá þau oft peninginn í hyllingum og hætta þá frekar í skóla.

Við fullorðna fólkið eigum að vera fyrirmyndir fyrir unglingana okkar. Við ættum að vera nægjusöm og kenna unglingunum okkar það líka.

Hvort ert þú fyrirmynd eða áhrifavaldur?

Sveinborg Petrína Jensdóttir

 

 

Að elska sjálfan sig

Fyrir mér er það að læra að elska sjálfan sig eins og maður er ótrúlega mikilvægt. Frá því að ég var barn hef ég haft mjög lítið sjálfsöryggi og það var verst á unglingsaldri. Ég var alltof feit, ekki nógu flott, o.fl. Ég sé svo eftir því að hafa ekki bara elskað sjálfa mig eins og ég var í staðin fyrir að rífa mig niður. Ég hefði óskað þess að einhver hefði sýnt mér að hver og einn er sérstakur á sinn hátt og það er engin ein rétt leið þegar kemur að útliti. Ég tel að lykilinn að hamingju sé að læra að elska sjálfan sig fyrst og fremst. Það eru alltof fáir sem elska sjálfan sig eins og þau eru.

Þetta er mikilvæg umræða og sérstaklega fyrir börn og unglinga. Við þurfum að setja góð fordæmi og kenna þeim að elska sjálfan sig eins og þau eru frá unga aldri. Ég hef unnið með börnum og unglingum núna í nokkur ár og mér finnst sorglegt hvað stór hluti af þeim hefur lítið sem ekkert sjálfstraust. Það er skrítið hvernig við leyfum okkur að tala um okkur sjálf, við segjum margt um okkur sjálf sem við myndum aldrei segja við aðra manneskju. Það er alltof mikið af ungu fólki og þá sérstaklega stelpum sem hata hvernig þau líta út og þá í samanburði við það sem er „samfélagslega rétta útlitið“.

Mér finnst samfélagsmiðlarnir vera okkar stærstu óvinir þegar kemur að þessu. Á samfélagsmiðlunum er verið að senda okkur óbein skilaboð hvernig við eigum að vera og hvað við þurfum að gera til að verða samþykkt af samfélaginu. Mér finnst önnur hver auglýsing vera um hvernig maður á að grenna sig og oft á mjög óheilbrigðan hátt. Við þurfum að læra að elska okkur sjálf áður en við elskum aðra og leyfum öðrum að elska okkur. Það tekur tíma að læra að elska sjálfan sig, hlusta ekki á samfélagslegan þrýsting gagnvart útliti en þegar upp er staðið er það þess virði.

Það vantar meiri umræðu og fræðslu fyrir börnin og unglingana. Ef við byrjum nógu snemma að kenna þeim að elska sig sjálf þá verður þetta eitthvað sem við gerum sjálfkrafa. Við eigum að fagna því að við séum fjölbreytt, það væri ekkert gaman ef allir væru eins. Ég átta mig ekki á því af hverju það er stimplað svona fast inní hausinn á okkur að við þurfum að vera grönn, alveg sama hvort það sé gert á heilbrigðan hátt eða ekki. Ef við förum með þetta í öfgar þá myndi ég halda að það væri erfiðara að vinna sig uppúr anorexíu en offitu. Ég veit um nokkrar stelpur sem litu út fyrir að vera í mjög góðu líkamlegu formi en þær voru að svelta sig og hreyfingin var komin í öfgar. Með því að grennast á óheilbrigðan hátt er mjög líklegt að heilsan hrynji og maður verði lengi að ná sér eftir það. Svo lengi sem við erum heilbrigð og borðum hollan og næringarríkan mat þá erum við í góðum málum sama hvernig holdafarið er.

Samfélagsmiðlarnir eru aðeins að breytast og sýna réttu hliðarnar en ekki bara glans hliðarnar. Það eru margir áhrifavaldar farnir að sýna hvað uppstilling skiptir miklu máli þegar myndir eru teknar og þau bera saman uppstillta mynd og svo venjulega mynd og þar sést mikill munur.

Að elska sjáfan sig eru stærstu skref sem fólk getur tekið í lífinu.

Guðbjörg Halldórsdóttir

 

 

Engir unglingar eru óþekkir!

Börnum er oft refsað fyrir óæskilega hegðun. En eru börn í raun óþekk, er refsing nokkuð nauðsynleg? Hvernig er best að koma fram við börnin sín?

Foreldrar eru misjafnir eins og börn eru misjöfn. Það getur verið flókið að ala upp annan einstakling, enda fylgja engar leiðbeiningar með barni við fæðingu. En það skiptir miklu máli hvernig foreldrar koma fram við börnin sín. Í langflestum tilfellum eru foreldrar að gera það sem þau halda að sé best fyrir barnið sitt. Til eru allskonar uppeldisaðferðir en sumir nota sömu aðferð og var notað á þau sjálf. Það er allur gangur á því hvernig fólk elur upp börnin sín. Margir unglingar upplifa erfiðleika í samskiptum við foreldra sína. Sumir unglingar hegða sér óæskilega og jafnvel dónalega. Unglingar eiga til að vera með skapsveiflur og geta tekið reiðiköst. Þau upplifa oft ósanngirni. Þau skilja ekki tilfinningar sínar og eiga erfitt með að stjórna sér.

Sumir foreldrar sækjast meira í að refsa fyrir óæskilega hegðun frekar en að vinna með tilfinningar þeirra þegar þeim líður illa. Foreldrar gleyma oft að jákvæðni geti dregið út jákvæðni hjá unglingum sínum. Eins og með ást, hlýju og skilning.

Sumar uppeldisaðferðir eru ekki góðar fyrir unglinga, sumar þeirra geta haft slæm áhrif á þau bæði andlega og líkamlega. Að refsa unglingum fyrir óæskilega hegðun getur haft öfug áhrif á hegðun unglingsins og einnig haft þær afleiðingar að honum líður illa á heimili og jafnvel með sjálft sig. Sú upplifun að maður þurfi að skammast sín fyrir að tjá tilfinningar sínar getur haft þær afleiðingar að maður vilji ekki tjá sig við neinn og loka sig alveg af. Flestum unglingum finnst erfitt að opna sig. Þegar foreldrar skamma og refsa unglingum sínum getur það einnig haft niðurlægjandi áhrif á þau.

En hvað er óæskileg hegðun og fyrir hvern er þessi óæskilega hegðun slæm?

Óæskileg hegðun er í raun hegðun sem við foreldrarnir viljum ekki sjá né heyra. Þegar barn eða unglingur grætur, reyna foreldrar að þagga niður í því. Í stað þess að leyfa því að klára að gráta. Þegar unglingur gengur illa um, þá er það óþekkt. Þegar unglingur gerir ekki það sem foreldrið biður um, þá er það óhlýðni. Sumir foreldrar beita líkamlegum refsingum fyrir dónaskap og óæskilega hegðun. Algengt er að unglingar fara í útivistarbönn eða að þeim sé refsað þannig að þau fá ekki að gera það sem þeim þykir mikilvægast. Sem getur verið til dæmis að missa símann sinn, tölvuna sína, fá ekki að hitta vini sína og svo framvegis. Allt þetta getur haft öfug áhrif á unglinginn. Meiri líkur eru á að unglingurinn fari að hegða sér enn verr.

Foreldrar skammast sín oft fyrir hegðun barna sinna og refsa þeim fyrir minnstu atvik. Foreldrum finnst óþæginlegt þegar barn tekur grát- eða reiðikast. Börnin eiga allt af að hegða sér vel. Það er mjög mikilvægt að unglingar fá að tjá tilfinningar sínar. En í stað þess að leyfa þeim að tjá sig eða að leiðbeina þeim á réttan hátt, þá eru börn þögguð niður og látin skammast sín.

Þegar unglingar upplifa þessa niðurlagandi tilfinnigu við refsingu þá skilja þau ekki hvað þau gerðu rangt af sér og endurtaka jafnvel óæskulegu hegðunina aftur. Það er eðlilegt að unglingur treysti ekki foreldri sínu fyrir neinu ef það hefur aldrei fengið að tjá sig við foreldrið.

Eru þessir unglingar að hegða sér illa eða eru þau í raun að tjá tilfinningar?

Að vera óþekkur er ekki til! Það er bara gamaldags hugsun. Börnin okkar og unglingar eru auðvitað að tjá tilfinningar sínar. Allir hafa þörf á að tjá sig. Við fullorðna fólkið þurfum að koma fram við alla sem jafningja og leiðbeina börnum okkar þegar þau taka rangar ákvarðanir. Það er hægt að gera það með virðingu og skilningi. Með því að fara rétt að sem foreldri, þá er hægt að koma í veg fyrir að unglingur sækist í slæman félagsskap. Foreldrar þurfa að setja unglingum mörk og framfylgja þeim. Það er hægt að gera það án þess að refsa börnum. Ef foreldri vill refsa unglingi sínum, þá þarf það að vera raunhæft og þarf foreldri að halda ró sinni. Við græðum ekki neitt á því að verða pirruð og reið. Foreldrar verða að vísa unglingunum í rétt átt svo þau taka ekki rangar ákvarðanir og kenna þeim afleiðingarnar sem hegðunin hefur.

Við þurfum að leyfa þeim að klára að tjá sig, leyfa þeim að komast að því afhverju þeim líður eins og þeim líður. Við verðum að kenna unglingunum okkar að enginn sé 100 prósent. Það sé  gott fyrir sálina að gráta. Foreldrar þurfa að hlusta á unglinga sína. Þau eru bara að reyna að losa sig við streitu eða einhverja spennu. Það getur stundum verið erfitt að stjórna sér.

Við fullorðna fólkið látum ekki aðra stjórna því hvernig við hegðum okkur. Við eigum öll rétt á okkar tilfinningum. Þessvegna verðum við að virða börnin okkar, koma fram við hvort annað sem jafningjar.

Með því að sýna virðingu fyrir öðrum þá getum við komið í veg fyrir að barn vaxi upp óhamingjusamt. Unglingsárin geta orðið erfið, en með því að fara rétt að í uppeldinu, þá getum við auðveldað þróunina að hamingjunni. Traust á milli foreldris og barns er mikilvægt. Við viljum öll lifa hamingjusömu lífi.

Auður Rakel Georgsdóttir

 

Tengslaröskun – lítil sem engin þekking

Ég vinn með börnum og ungmennum með margþættan vanda, greiningarnar sem við vinnum með eru margar og fjölbreyttar og hver annarri áhugaverðari. Sú greining sem mér hefur alltaf þótt mjög áhugaverð er sérstök greining sem heitir tengslaröskun (e. attachment disorder). Tengslaröskun er flókin og hefur hingað til verið erfitt að greina hana, en aftur á móti er greiningin frekar ný og má því áætla að þekkingin sé ekki mikil vegna þess. Mig langar að stikla á stóru í þessari grein um það sem mér finnst mikilvægt að vita um tengslaröskun og þar að leiðandi af hverju það er mikilvægt að þekkingin sé til staðar hjá t.d. stofnunum eins og heilsugæslum, skólum og félagsþjónustum. Lesa meira “Tengslaröskun – lítil sem engin þekking”

Brottfall unglinga í skipulögðum íþróttum

Regluleg hreyfing barna og unglinga er mikilvæg fyrir heilsu og vellíðan. Samfélagið okkar í dag virðist vera að draga úr daglegri hreyfingu og kyrrseta ungmenna orðin algengari en áður. Hreyfing ungmenna getur dregið úr andlegum og líkamlegu sjúkdómum, svo sem kvíða og þunglyndi. Einnig eru ungmenni sem stunda íþróttir að sýna fram á betri sjálfsmynd og eru mun ólíklegri til að neyta vímuefna. Lesa meira “Brottfall unglinga í skipulögðum íþróttum”