Vissir þú þetta um félagsmiðstöðvastarfsmenn?

ÞVE myndFélagsmiðstöðvar hafa verið til í einhverri mynd síðan 1956 sem afdrep fyrir unglinga. Undanfarin ár hefur orðið gífurleg þróun í starfi félagsmiðstöðva, allavega í Reykjavík, og fagstarfið sem þar er unnið skákar oft á tíðum því sem best gerist annars staðar í heiminum. Undirritaður hefur rekið sig á stórskemmtilega fordóma gagnvart starfi félagsmiðstöðva og bakgrunn félagsmiðstöðvarstarfsmanna; talið að þeir séu bara að leika sér og jafnvel í einhverri pattstöðu í lifinu. Því fer ansi fjarri raunveruleikanum.

Vissir þú að…

… forstöðumaður félagsmiðstöðvar þarf að hafa lokið háskólaprófi á uppeldissviði?

… félagsmiðstöðvarstarfsmenn ná stundum að mynda tengsl og vera betur meðvitaðir um félagslegan bakgrunn unglinganna en foreldrar þeirra?

… foreldrar unglinga í vímuefnavanda leita stundum til félagsmiðstöðvastarfsmanna í úrræðaleysi sínu til að reyna tjónka við unglingi?

… félagsmiðstöðvarstarfsmenn eru stundum einu aðilarnir sem unglingurinn treystir fyrir vandamálum og vangaveltum sínum?

… barnavernd fær einna flestar tilkynningar frá félagsmiðstöðvum  (enda ber þeim skylda að tilkynna skv. tilkynningarskyldu) á eftir lögreglu?

… í sumum hverfum Reykjavíkur leggja nánast allir unglingar leið sína í félagsmiðstöðina einhverntíman yfir skólaárið en að ca helmingur reykvískra unglinga mætir vikulega eða oftar?

… félagsmiðstöðvar í Reykjavík fara eftir þremur höfuðgildum; forvarnargildum, menntunargildum og afþreyingargildum. Og að allt starf er skipulagt með þessi gildi að leiðarljósi?

… allir nýir starfsmenn félagsmiðstöðva í Reykjavík fara á grunnnámskeið um starfsemi félagsmiðstöðva, skyndihjálparnámskeið og fræðsludag um verklag í félagsmiðstöðvum. Auk þess að forstöðumaður handleiðir nýjan starfsmann markvisst inn í starfið eftir móttökuáætlun félagsmiðstöðvarinnar?

… félagsmiðstöðvarstarfsmenn eru oft meðvitaðri um félagslega stöðu unglinga en margir aðrir í umhverfinu þeirra?

… félagsmiðstöðvar eru með facebook-síður og einn tilgangur þess er að fylgjast með netvenjum unglinganna og grípa inn óviðeigandi  í aðstæður?

… hver einasta félagsmiðstöð í Reykjavík rýnir í rannsóknir um hagi og líðan unglinga í sínu hverfi og skipuleggur starfsemina út frá þeim?

… hugsanlega er hvergi að finna jafn margar verklagsáætlanir og í starfi félagsmiðstöðva?

… flestir starfsmenn félagsmiðstöðva í Reykjavík eru í eða hafa lokið háskólanámi?

… þessi listi gæti verið miklu lengri?

Með þessum orðum hnykki ég á því að félagsmiðstöðvarstarfsmenn eru ekki að gera bara eitthvað í sínu starfi. Þeir eru fagmenn fram í fingurgóma að vinna markvisst fagsstarf í viðleitni sinni til að skila sjálfsstæðum, sjálfsöruggum, umburðarlyndum og lífsglöðum einstaklingum út í lífið. Og það sem meira er; flestir félagsmiðstöðvarstarfsmenn elska vinnuna sína.

Þorsteinn V. Einarsson
Deildarstjóri unglingastarfs
Frístundamiðstöðin Kampur

Ungmennaþing í stað lokaðs ungmennaráðs

ungness logoFyrir fimm árum fórum við á Seltjarnarnesi af stað með eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í þegar við lögðum í það að stofna Ungmennaráð Seltjarnarness eða Ungness. Við nálguðumst verkefnið þannig að Ungness yrði skipað ungmennum sem væru 16 ára og eldri og var markmiðið sem við lögðum af stað með að ráðið yrði bænum til ráðgjafar á stjórnsýslustiginu ásamt því að halda viðburði og fræðslu fyrir ungmenni á menntaskólaaldri á Nesinu.

Við boðuðum nýútskrifuð ungmenni í félagsmiðstöðina og auglýstum kosningar í ráðið. Góð mæting var á þennan stofnfund en 19 ungmenni lögðu leið sína á fundinn og 12 gáfu kost á sér til setu í ráðinu. Haldnar voru framboðsræður og svo kosnir 7 fulltrúar ungmennana í Ungmennaráð Seltjarnarness. Veturinn fór vel af stað og héldum við úti opnun fyrir 16+ einu sinni í viku í félagsmiðstöðinni og var mætingin góð. Þegar líða fór á veturinn fór hópurinn þó að þynnast og hægt og rólega fóru ungmenni sem ekki voru í ráðinu að hætta að mæta.

Þetta fyrsta sumar tókum við þátt í ungmennaskiptum á vegum Evrópu unga fólksins með sænsku ungmennaráði frá Lundi. Þetta sænska ráð hafði verið starfandi frá aldamótum og voru með allt annan strúktúr á sínu ráði en við. Þar var ekki kosið í neitt ráð heldur var ráðið opið öllum sem vildu taka þátt og byggðist starfið upp á ungmennaþingum sem haldin eru fjórum sinnum á ári. Á þessi ungmennaþing eru öll ungmenni Lundar velkomin en í Lundi búa rúmlega 80.000 manns. Þingin eru alltaf með ákveðin þemu og eru fræðsla og umræður út frá þemanu. Á þinginu velja ungmennin sig svo í nefndir og vinna verkefni út frá sinni nefnd.

Eftir að hafa kynnst þessum sænska strúktúr og bera hann saman við okkar ákváð Ungmennaráð Seltjarnarness að breyta sínu fyrirkomulagi og heimfæra sænska stílinn á Seltjarnarnes þar sem búa rúmlega 4000 manns.

Ákveðið var að opna ungmennaráðið og í staðinn fyrir að hafa það lokað ráð með kjörnum fulltrúum, að gera það að opnu ráði þar sem öll ungmenni Seltjarnarness mættu taka þátt í verkefnunum og segja sína skoðun sem. Við tókum upp á því að halda fjögur Ungmennaþing á ári en á þau eru allir Seltirningar á aldrinum 16-25 ára boðaðir og þeir sem mæta á þingin eru með atkvæðis- og tillögurétt. Á þingunum er farið yfir verkefni síðastliðinna þriggja mánaða og næstu þrír skipulagðir. Stundum er skipulagt lengra fram í tímann en þetta er svona grunnstefið sem miðað er við.

Við það að opna ráðið og halda þessi fjögur þing sem virka eins og púlsinn í starfseminni jókst þátttaka til muna og verkefnin samhliða því. Á hverju þingi er ákveðið hvaða verkefni skal ráðast í og skipaðir eru verkefnastjórar eða nefndir fyrir hvert verkefni. Það má í raun segja að í staðinn fyrir að hafa eitt ráð sem hefur yfirumsjón með öllum verkefnum er Ungmennaráðið orðið vettvangur þar sem ungt fólk kemur saman til að framkvæma verkefni og myndaðar eru minni nefndir fyrir hvert verkefni af þeim sem vilja koma að því verkefni. Við hugsum þetta sem hugarkort eða bubblukerfi eins og við höfum kallað það.

 

Ungness
Hluti af verkefnum Ungness. Verkefni fæðast út frá ráðinu og allir jafnir.

Eftir að við tókum upp á þessu kerfi hefur ungmennaráðið vaxið og dafnað, endurnýjun hefur verið góð á sama tíma og stofnmeðlimir taka enn þátt í starfinu. Það góða við þetta kerfi er það að þú þarft ekki að vera með í öllum verkefnum og þarft ekki að bjóða þig fram til að vera einn af sjö heldur geturðu valið þér verkefni sem þú hefur áhuga á. Þetta minnkar pressuna á krakkana sem margir hverjir hafa nóg á sinni könnu og þurfa þau ekki að vera all inn alltaf heldur kemur maður í manns stað.

Guðmundur Ari Sigurjónsson
Tómstunda- og félagsmálafræðingur
Verkefnastjóri í Selinu og Skelinni

Spennandi ár framundan hjá Félagi fagfólks í frítímaþjónustu

DSC_0095-2

Nú þegar sumarið fer að líða undir lok og fólk mætir aftur til vinnu eftir sumarfrí þá fer starfsemi Félags fagfólks í frítímaþjónustu á fullt. Við í stjórn FFF ásamt nefndum höfum verið útbúa starfsáætlun fyrir veturinn og hefur hann sjaldan litið jafn vel út. Nú þegar er skráning hafin á námskeið fyrir leiðbeinendur í Reynslunámi en það er haldið í samstarfi við Áskorun ehf og má nálgast frekari upplýsingar hér en örfá sæti eru laus á þetta spennandi námskeið.

Í vetur stefnir fagfélagið á að halda 2 hádegisfyrirlestra á önn en þeir hafa verið vel sóttir síðastliðin ár. Fagfélagið mun í samstarfi við Æskulýðsvettvanginn halda fimm námskeið í Litla Kompás víðsvegar um landið á haustönn. Einnig stefnum við á að halda fleiri námskeið í samstarfi við Háskóla Íslands en það samstarf hófst á síðasta ári og lukkaðist afar vel.

Ein spennandi nýjung sem við í stjórninni erum þegar byrjuð að undirbúa er námsferð sem fagfélagið stefnir á að fara í á næsta ári. Stefnan væri þá að ferðast til Evrópu, kynnast systrasamtökum FFF ásamt því að fá innsýn inn í það nýjasta í frístundastarfinu úti.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í spennandi starfi fagfélagsins í vetur þá hvetjum við þig til að skrá þig í félagið en það er gert með einföldum hætti hér.

Hér má svo lesa starfsáætlun stjórnarinnar í heild sinni.
Likeaðu við FFF á Facebook

Guðmundur Ari Sigurjónsson
Formaður Félags fagfólks í frítímaþjónustu

 

„Maður lærir líka að vera góður“

Þrátt fyrir áratugasögu hefur félagsmiðstöðvastarf á Íslandi lítið verið rannsakað en þó er nokkuð stór hópur unglinga virkir þátttakendur í starfi félagsmiðstöðva einhvern tíma á unglingsárum. Í rannsókn sem var grunnur að meistaraverkefni í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands beindi Eygló Rúnarsdóttir sjónum að félagsmiðstöðvastarfinu.

Um rannsóknina

Í rannsókninni, sem ber yfirskriftina „Maður lærir líka að vera góður“ kallaði hún eftir sýn unglinga á starf félagsmiðstöðva í Reykjavík og sýn þeirra á eigin þátttöku í starfseminni. Viðtöl við átta unglinga sem tóku þátt í starfi tveggja ólíkra félagsmiðstöðva í Reykjavík veturinn 2008–2009 lágu til grundvallar en áður hafði hún til undirbúnings tekið viðtöl við þrjá unglinga í þremur ólíkum félgsmiðstöðvum, gert vettvangsathuganir og tekið viðtöl við frístundaráðgjafa. Með rannsókninni var leitast við að svara því hvaða merkingu félagsmiðstöðin hefur í hugum þessara unglinga, hvaða ástæður þeir telja vera fyrir því að þeir hófu þátttöku í starfi félagsmiðstöðva og héldu þátttöku sinni áfram, hvaða reynslu eða lærdóm, ef einhvern, unglingarnir telja sig draga af þátttöku sinni í félagsmiðstöðvastarfi og upplifun unglinganna af starfsfólki félagsmiðstöðva.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að unglingarnir sjá félagsmiðstöðina sem öruggan samastað í hverfinu þar sem aðgengi er að jafningjum, skemmtun og afþreyingu. Þessir þættir eru jafnframt hvatar
að fyrstu kynnum þeirra af félagsmiðstöðvastarfinu. Áframhaldandi þátttaka þeirra mótast af tvennu. Annars vegar mótast hún af ytri þáttum, öðrum viðfangsefnum þeirra í frítímanum, tímaskorti, opnunartíma félagsmiðstöðvarinnar, aldri unglinganna og viðfangsefnum í starfi félagsmiðstöðvanna. Hins vegar mótast áframhaldandi þátttaka af því hvort unglingarnir mynda öflug tengsl við starfið, einhvers konar skuldbindingu. Unglingarnir telja sig flestir læra, þó í mismiklum mæli, af þátttöku í starfinu. Þau þemu sem þar koma fram eru þekking, verkleg færni, félagsleg færni, persónuleg færni eða eiginleikar og lífsgildi. Starfsfólk félagsmiðstöðva virðist jafnframt skipta unglingana miklu máli. Þeir eru sammála um að þar starfi gott fólk með viðmót sem einkennist af jafningjanálgun, stuðningi og hvatningu.

Niðurstöðurnar gefa þeim sem fyrir félagsmiðstöðvastarfinu standa og starfsfólki á vettvangi innsýn í hugmyndir unglinga um starfsemi sem þeim er ætluð og eru vonandi lóð á vogarskálarnar við áframhaldandi þróun starfsins.

Hér má nálgast verkefnið í heild sinni.

Um höfundinn

Eygló Rúnarsdóttir er grunnskólakennari og uppeldis- og Eygló Rúnarsdóttirmenntunarfræðingur en hefur hátt á annan áratug starfað á vettvangi frístundarstarfs. Hún starfaði um árabil í Breiðholtinu í Reykjavík, fyrst um nokkurra ára skeið í félagsmiðstöðinni Fellahelli en síðar í Frístundamiðstöðinni Miðbergi sem deildastjóri unglingastarfs. Síðast liðin 12 ár hefur hún starfað á skrifstofu tómstundamála hjá íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkur (ÍTR), og nú skóla- og frístundasviði Reykjavíkur (SFS) auk þess að starfa sem sérfræðingur hjá námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræðum við Háskóla Íslands. Í starfi sínu hjá Reykjavíkurborg hefur hún auk verkefna sem snúa að málefnum unglinga og félagsmiðstöðva unnið með Reykjavíkurráði ungmenna og leitt þróun starfsemi ungmennaráða í hverfum borgarinnar frá 2001 eða frá upphafi verkefnisins.

Auk verkefna sinna hjá Reykjavíkurborg og Háskóla Íslands hefur Eygló sinnt fjölmörgum verkefnum á sviðið æskulýðs,- forvarnar- og félagsmála. Eygló var verkefnastjóri ráðstefnunnar Ungdom, demokrati og deltagelse undir merkjum Norrænu ráðherranefndarinnar þegar Ísland fór með formennsku í nefndinni 2004. Hún kom jafnframt að stofnun Félags fagfólks í frítímaþjónustu árið 2005 og sat í stjórn félagsins í nokkur ár, hefur tekið virkan þátt í starfi SAMFÉS, samtökum félagsmiðstöðva, og sinnt fræðslu og námskeiðshaldi um félagsmiðstöðvastarf og starfsemi ungmennaráða víða um land. Eygló kom að stofnun veftímaritsins Frítímans og situr jafnframt í ritstjórn hans.