Tíminn fyrir framan skjáinn

Unglingar í dag eyða mun meira af tímanum sínum fyrir framan skjáinn en gert var áður fyrr. Nú er ekki lengur bara sjónvarp í boði heldur eru það líka snjallsímar, spjaldtölvur, leikjatölvur og margt meira. Á þessum tækjum er svo ótrúlega fjölbreytt val af ,,afþreyingu” í boði fyrir unglingana og má þar á meðal nefna TikTok, Snapchat og Youtube. En vita unglingarnir og foreldrarnir hvað þessi aukni skjátími þýðir fyrir þau eða hvaða áhrif þetta hefur á heilsu þeirra? Margar rannsóknir bæði íslenskar og erlendar hafa kannað áhrif tölvunotkunar á andlega vellíðan og líkamlega heilsu unglinga og hafa þær flestar einblínt á slæmar hliðar of mikillar tölvunotkunar en þrátt fyrir það þarf tölvunotkun ekki að vera alslæm.

Framkvæmd var rannsókn árið 2009 á Íslandi þar sem skoðað var tímann eftir skóla hjá börnum og unglingum en í henni var aðallega einblínt á sjónvarpsáhorf en ekki skjátíma, enda var á þeim tíma minna af möguleikum þegar það kom að tækjaúrvali. Í þessari rannsókn kom fram að ca. 45% nemenda í 9. bekk horfðu umfram leiðbeindum skjátíma samkvæmt leiðarljósi um skjátíma (Amalía Björnsdóttir, Börkur Hansen og Baldur Kristjánsson, 2009; Skjátími, e.d.). Áhugavert væri að sjá þessar tölur í dag miðað við hvernig tímarnir hafa breyst og skjátími hefur breyst frá sjónvarpsáhorfi í öll hin snjalltækin sem eru í boði. Amalía Björnsdóttir og fl. (2009) skoðuðu einnig hlutfall unglinga sem höfðu sjónvarp inni í herbergi hjá sér eða nettengda tölvu inni hjá sér en 73% pilta og 62% stúlkna höfðu sjónvarp inni hjá sér og 54% pilta og 50% stúlkna höfðu nettengda tölvu inni hjá sér. Hvernig væru þessar tölur í dag? Í nútíma samfélagi er auðvitað ekki hægt að skoða nákvæmlega sömu tækjaeign og fyrir 12 árum því það þyrfti að bæta við snjallsímum, spjaldtölvum og fleiri tækjum sem hafa bæst við síðan þá.

Árið 2014 gerðu Kremer, Elshaug, Leslie, Toumbourou, Patton og Williams rannsókn í Ástralíu þar sem þau rannsökuðu áhrif hreyfingar og skjánotkunar á þunglyndiseinkenni. Kannað var íkamlega og andlega heilsu hjá 8256 nemendum í grunnskólum í Ástralíu. Fram kemur að einkenni þunglyndra voru há í þessu úrtaki eða rétt yfir 30% nemenda sögðu frá einkennum þunglyndis. Kom í ljós að nemendur sem stunduðu meiri líkamlega hreyfingu eða voru með minni skjátíma en aðrir voru ólíklegri til þess að sýna einkenni þunglyndis. Nemendur sem sögðu frá meiri skjátíma en aðrir voru mun líklegri til þess að sýna fram á einkenni þunglyndis en aðrir og var tekið fram að þetta átti sérstaklega við um yngri þátttakendur í rannsókninni. Eru þessar niðurstöður í samræmi við fyrrum rannsóknir sem hafa verið framkvæmdar í kringum þetta viðfangsefni.

Rannsóknin sem var framkvæmd á Íslandi árið 2009 sýnir nú þegar fram á slæmar tölur þegar kemur að skjátíma unglinga á Íslandi jafnvel þótt að það séu 12 ár síðan hún var framkvæmd og einnig sýnir hún fram á að u.þ.b. 50% unglinga í 9. bekk í úrtakinu áttu nettengda tölvu. Þetta hlutfall væri mögulega mun hærra í dag vegna tilkomu snjalltækja. Seinni rannsóknin sýnir fram á neikvæðu hliðar of mikils skjátíma sem að getur leitt til aukinna einkenna þunglyndis. Rannsóknin sýnir einnig fram á að hreyfing geti minnkað þessi einkenni. Mikilvægt er að finna gott jafnvægi á milli skjátíma og hreyfingar til þess að forðast einkenni þunglyndis.

Alexander Leósson

Heimildaskrá

Amalía Björnsdóttir, Börkur Hansen og Baldur Kristjánsson. (2009). Tíminn eftir skóla skiptir líka máli: um tómstundir og frítíma nemenda í 1., 3., 6., og 9. Bekk grunnskóla. Sótt af http://hdl.handle.net/1946/13983

Kremer, P., Elshaug, C., Leslie, E., Toumbourou, J., Patton, G., og Williams, J. (2014). Physical activity, leisure-time screen use and depression among children and young adolescents. Journal of Science and Medicine in sport, 17(2), 183-187. Sótt af https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S1440244013000790

Skjátími. (e.d.). Sótt af https://www.skjatimi.is/efni/skjatimi