Val á glansmynd eða námi?

birna dadaÁ hverju ári dynur á unglingum í 10. bekk spurningin: „Í hvaða skóla ætlar þú svo næst?“ 
Sumir eru með sitt allt á hreinu og vita nákvæmlega hvað þau vilja og hvert stefnan er tekin eftir grunnskólann…. að minnsta kosti að þau halda. Hjá öðrum fer heilinn á flug og upp vakna ótal spurningar. Hvaða skóli er bestur? Hvar er skemmtilegast? Og þetta verður mikið áhyggjuefni.  Með árunum er alltaf erfiðara fyrir ungmennin að velja skóla og skólarnir eru alltaf að gera meiri kröfum um hversu vel nemendur þurfa að vera staddir í námi til þess að komast inn.

Á síðasta ári grunnskólans fara margir nemendur í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu í vettvangsheimsóknir í mennta- og framhaldsskóla á Reykjavíkursvæðinu. Með heimsókninni ættu nemendur að vera að fá innsýn inn í hvernig skólinn er. En hverjir eru að selja hugsanlegum nýjum nemendum skólann? 
Mín reynsla frá því að ég fór í þessar vettvangsheimsóknir í skólana með mínum grunnskóla er sú að það var minnst verið að kynna námið, hvað væri kennt og hvað væri í boði eftir nám. Í lang flestum tilfellum voru nemendafélögin að kynna hversu mikið er í boði hjá nemendafélaginu og félagslíf skólans. Er leikrit ? Eru stór böll ? Eru stórar vikur þar sem námið er brotið upp? Er bekkja- eða áfangakerfi? Hvort er betra að vera í bekkja- eða áfangakerfi?

Út frá kynningum skólanna að dæma eru nýir nemdendur margir hverjir einungis að velja skóla út frá félagslífinu. 
Ég er þó alls ekki að segja að félagslífið sé ekki af hinu góða, að sjálfsögðu þarf það að vera til staðar enda hollt og gott fyrir alla að vera í einhverjum félagsskap. 
Að mínu mati finnst mér vanta meiri samstöðu á milli þessara mennta- og framhaldsskóla, að þeir tali meira saman og mögulega breyti því að allir séu jafnir og jöfn skilyrði inn í alla skóla. 
Eru ungmennin okkar nógu þroskuð og gömul til að taka þessa ákvörðun þar sem að þau eiga að velja skóla og nám ? 
Eru þessir stóru skólar með stóru nemendafélögin eitthvað betri skólar en aðrir skólar?

Ég fékk sjálf þessa tilfinningu þegar ég var að sækja um framhaldsskóla en fór einnig að skoða iðnnám. Oft fékk ég spurninguna ætlar þú í iðnnám? Hvað ætlarðu að gera við það? Ætlarðu ekki að klára stúdentinn? Er ekki nógu flott að fara í iðnnám og þá kannski að læra það sem að viðkomandi hefur áhuga á? 
Margir sem að fara í þessa stóru og „vinsælu“ skóla sjá oft bara glansmyndina sem er sýnd af skólanum í vettvangsheimsókninni og er nýjasta dæmið sem ég hef heyrt af á málþingi þar sem að formaður femínistafélags Verslunarskóla Íslands lýsti því yfir að hún valdi skólann út frá nemendafélaginu. Það sem hún sá var samasem merki á milli þess að í skólanum væru bara sætir strákar í jakkafötum og sætar stelpur. Hún vildi geta verið í Versló og verið sæt. Sem betur fer þá breyttist sýn hennar algerlega þegar námið var hafið en þetta var þó myndin sem að hún fékk. Í dag er hún flottur nemandi og flottur fulltrúi femínistafélags skólans og er ekki að skafa af sínum skoðunum. 

Ég vil hér með skora á skólana að fara að auglýsa skólann með því námi sem er í boði og því sem er í boði eftir nám og hvernig andinn er í skólanum. Hvaða áfanga þarf að taka á hverri braut og reyna að vinna nemendur inn á sitt band út frá áhugasviði nemendanna.

En við erum þó ekki öll eins og fyrir marga gæti þetta þó verið sýnin og margir að velja skóla út frá því sem að þau fá að sjá í þessum kynningum. Við munum að minnsta kosti ekki komast að niðurstöðu í þessu máli hér en ég veit þó að þetta eru spurningar sem að brenna hjá mörgum ungmennum og fleirum í kringum þau þessa dagana.

Birna Daðadóttir Birnir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands