Evrópu samvinna í 20 ár – Uppskeruhátíð Evrópu unga fólksins

Föstudaginn 22. nóvember fer fram uppskeruhátíð samstarfsáætlanna ESB en frá og með áramótum verða þessar áætlanir sameinaðar undir einu nafni, Erasmus+. Ein af þeim áætlunum sem munu falla undir Erasmus+ er Evrópa unga fólksins en sú áætlun hefur stutt við æskulýðsvettvanginn með því að fjármagna samstarfs- og þróunarverkefni á sviði æskulýðsmála.

Á síðustu 7 árum sem EUF hefur verið starfandi hefur áætlunin úthlutað €6.882.515 en á gengi dagsins í dag eru rúmlega 1.1 milljarður króna. Þetta fjármagn hefur runnið 410 verkefni sem unnin hafa verið hér á landi og hafa 6500 þátttakendur tekið þátt í þessum verkefnum.

Við hvetjum alla til að fjölmenna í Hafnarhúsið þar sem EUF verður með bás og kynningu á fyrirmyndarverkefnum sem áætlunin hefur styrkt. Einnig munu fulltrúar EUF svara spurningum varðandi nýju áætlunina Erasmus+.

Uppskeruh.22-2

Forvarnir í félagsmiðstöðvastarfi

magnus_gudmundsson_tomstundafraedingurLeiksviðið er Fellahverfið og árið er 1994. Ungur drengur er áhugasamur á fundi félagsmiðstöðvaráðs Fellahellis sem er að ræða stórdansleik sem á að halda síðar í mánuðinum. Hann hlustar á aðra meðlimi ráðsins ræða um hvaða hljómsveitir séu mest móðins á þessum tímapunkti og hlýðir í hálfgerðri lotningu á starfsmann félagsmiðstöð-varinnar ræða um aðgerðaáætlanir. Allt þetta umstang er honum framandi og hann finnur hvernig ábyrgðar-tilfinningin veitir honum gleði. Hann hefur æft íþróttir í áratug en varla tekið neinum framförum en þarna finnst honum hann metinn að verðleikum og hans styrkleikar fá að njóta sín. Tækjagrúsk, plötusnúðafikt, heimspeki-legar vangaveltur, graffiti og viðburða-stjórnun eru þættir sem hann stundar af alúð í Fellahelli og með hverju verkefninu þá þróar hann með sér nýja færni. Reynslunám er að eiga sér stað í gegnum óformlegar námsleiðir og það allt án þess að hann átti sig á nokkru. Þarna öðlast hann grunn að dýrmætri færni í gegnum handleiðslu fagmanna sem starfa í félagsmiðstöðinni – færni sem síðar kveikir hjá honum áhuga til að hefja nám í tómstundafræðum og gera þau að ævistarfinu. Eftir að þessi rótgróna og sögufræga félagsmiðstöð lokar á kvöldin og starfsmenn Fellahellis halda til síns heima þá mælir hann götur Fellahverfis næstu þrjú árin með tugum ef ekki hundruðum annarra ungmenna úr þessu hverfi sem hafði á sér ógæfustimpil. Leiksviðið er líflegt og þar gilda oft önnur lögmál en samfélagið samþykkir. Lögreglan er með aðsetur í hverfinu og dyrnar á lögreglustöðinni eru ávallt opnar fyrir forvitinn æskulýðinn. Neysla ungs fólks hefur verið vandamál og fjölmiðlar keppast við að mála Breiðholtið í vandræðalit og sögur af hinni alræmdu Landalöggu birtast á forsíðum dagblaða reglulega. Þegar þessi ævintýragjarni ungi maður, sem er ég, lítur til baka og ígrundar unglingsárin sín og hvað þátttaka í opnu félagsmiðstöðvastarfi gerði fyrir hann þá sækir á hann forvitni. Forvitnina ákveður hann að festa á blað og senda frá sér þessar vangaveltur.

Það sem mig fyrst langaði að vita var hversu alvarleg og algeng neysla ungmenna var á þeim tíma sem ég ólst upp og hvort sú mynd sem fjölmiðlar máluðu hafi verið réttmæt. Einnig langaði mig að rýna í hvernig staðan væri í dag. Frá því að ég var að ala manninn þá hefur verið unnið markvisst með forvarnastarf og skyldi það starf hafa borið árangur? Fjölmiðlar hafa stundum fjallað um alvarleika ýmissa brota sem unglingar fremja og margir sem ekki þekkja vel til halda án efa að á Íslandi sé stór partur ungmenna sem sé stórlega vafasamur.

Hvað skyldu rannsóknir sýna um unglingamenninguna á Íslandi? Eins og allir starfsmenn í æskulýðsstarfi vita þá hefur neysla ungmenna á tóbaki, áfengi og vímuefnum verið skoðuð reglulega síðan 1997. Bendi ég á rannsóknina „Vímuefnaneysla unglinga í efstu bekkjum grunnskóla“ sem allir geta kynnt sér á vef Rannsókna og greiningar (http://www.rannsoknir.is). Þar kemur fram að árið 1997 hafi 61% nemenda í 10.bekk prufað að reykja sígarettu en árið 2012 var það hlutfall komið niður í 21%. Daglegar reykingar sama árgangs hafa lækkað úr 21% í 3%. Rannsóknin sýnir vel þróun áfengisdrykkju unglinga. Svona lítur hún út: grein-afengi

(Rannsóknir og greining, 2012:19)

Þegar maður skoðar þróun kannabisneyslu ungmenna þá birtast manni þessar tölur:

grein-kannabis

(Rannsókn og greining, 2012:21)

Það er því ljóst að gríðarlegur árangur hefur náðst í forvarnastarfi á Íslandi. Það er oft sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Menntastofnanir og jafnvel kirkjan hefur í aldanna rás komið að uppeldi barna með beinum hætti í gegnum formlegar kennsluaðferðir. Um miðja síðustu öld kom Æskulýðsráð Reykjavíkur (ÆR) upp tómstundaheimili að Lindargötu (Árni Guðmundsson, 2007:62) og með því hófst blómleg saga félagsmiðstöðva í höfuðborg Íslendinga. Þessar félagsmiðstöðvar hafa vaxið og dafnað á þessarri rúmu hálfu öld og fagmennska starfsmanna einnig. Þær léku stórt hlutverk í forvarnastarfi fyrir unglinga þegar ég var unglingur og gera enn. Þær eru vettvangur óformlegrar menntunar sem þátttakendur starfsins öðlast í gegnum leik og starf. Allt þeirra starf er litað af beinum og óbeinum forvörnum um málefni líðandi stundar og fylgjast starfsmenn þeirra vel með tíðarandanum hverju sinni. Þegar ný vá steðjar að þá keppast þeir við að skapa umræður og hvetja notendur sína til að taka upplýsta ákvörðun í áttina að beinu brautinni. Starfsmenn félagsmiðstöðva starfa náið með öðru fagfólki sem kemur að uppeldi barna í gegnum þverfagleg teymi. Þessi þverfaglega vinna hefur borið árangur í forvarnarmálum á Íslandi. Kennarar, foreldrar, þjálfarar, lögreglan, starfsmenn þjónustumiðstöðva, aðrir fagmenn og starfsfólk í félagsmiðstöðvum geta klappað sér á bakið og verið stolt af árangrinum.

Starfsmenn Fellahellis, þau Linda Udengaard, Eygló Rúnarsdóttir, Agnar Arnþórsson, Hafsteinn Hrafn Grétarsson, Helgi Eiríksson og Arna Kristjánsdóttir, áttu öll markvisst inngrip í mitt líf á mínum róstusömu unglingsárum og voru mínar fyrirmyndir. Þau öll starfa enn í æskulýðsstarfi með ólíkum hætti og hafa snert við lífi margra. Þegar ég var forvitinn um andfélagslega hluti og þreifaði fyrir mér í rangar áttir þá átti ég heimahöfn í minni félagsmiðstöð. Þar gat ég sest niður og rætt við þessa starfsmenn og fengið ráðgjöf og hvatningu. Ég einsetti mér sem ungur maður að verða eins og þau þegar ég yrði stór og lifi enn í draumnum. Félagsmiðstöðvastarfsfólk á Íslandi – verum stolt af þætti okkar í forvarnarmálum og höldum áfram baráttunni.

Magnús Sigurjón Guðmundsson

Tómstundafræðingur

Landsþing Ungmennahúsa – „Markmið Ungmennahúsa er að efla ungmenni og leyfa þeim að vinna að áhugamálum sínum”

landsþing ungmennahúsaDaganna 24. – 25. október fór fram Landsþing Ungmennahúsa sem haldið var á vegum Samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi (Samfés). Landsþingið fór fram í Hvíta húsinu sem er ungmennahús á Akranesi. Á Landsþingið voru mættir fulltrúar frá sjö ungmennahúsum víðs vegar af landinu. Dagskráin var fjölbreytt en auk almenns hópeflis til að kynna ungmennin hvert fyrir öðru var Sigga Dögg með kynlífsfræðslu og unnið var í smiðjuvinnu.

Ungmennahús eru ekki ný á nálinni hér á landi en sem dæmi má nefna að Hitt Húsið var stofnað sem eins konar ungmennahús árið 1991. Ungmennahúsin sem nú eru starfrækt hér á landi eru um 20 talsins en þau eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Ungmennahús eru þó oftar en ekki aðstaða fyrir ungmenni 16 ára og eldri til að stunda jákvæðar og uppbyggilegar tómstundir á sínum eigin forsendum. Starf ungmennahúsanna er afar mikilvægt þar sem lítið sem ekkert opið vímuefnalaust tómstundastarf er í boði fyrir þennan aldurshóp sem að hluta til er ekki orðinn lögráða og hefur einnig ekki aldur til að drekka áfengi.

Á Landsþinginu var haldinn stórfundur þar sem fulltrúum frá ólíkum ungmennahúsum var skipt upp í umræðuhópa sem fjölluðu um málefni ungmennahúsa. Eitt af því sem unga fólkið ræddi sín á milli var hvert markmiðið með ungmennahúsum væri í þeirra huga. Hér fyrir neðan verða taldir upp nokkrir þeir hlutir sem þau nefndu:

  • Staður til þess að hafa gaman
  • Staður til að hittast, kynnast öðru fólki og blanda geði
  • Staður til að leyfa ungmennum að koma hugmyndum sínum í framkvæmd
  • Staður til að efla ungmenni og leyfa þeim að vinna að áhugamálum sínum
  • Samastaður til að skapa heilbrigt umhverfi án vímuefna (forvarnarstarf)
  • Umhverfi fyrir krakka sem gætu verið útundan, þeir sem stunda kannski ekki íþróttir eða eru jafnvel ekki í skóla
  • Staður til að lífga upp á samfélagið

Að lokum vann unga fólkið saman að því að búa til samstarfsverkefni ungmennahúsa þar sem markmiðið væri að efla samstarf á milli ungmennahúsa og kynna ungmennahúsin fyrir ungu fólki út um allt land. Það verður því spennandi að sjá hvernig þetta frábæra starf ungmennahúsanna mun þróast á næstu mánuðum og árum.