Hvar standa tómstunda- og félagsmálafræðingar í fagþróun sinni í samanburði við leikskólakennara?

Um rannsóknina

Rannsókn þessi heitir: Hvar standa tómstunda- og félagsmálafræðingar í fagþróun sinni í samanburði við leikskólakennara. Rannsóknin er 30 eininga lokaverkefni til meistaragráðu í tómstunda- og félagsmálafræðum við Háskóla Íslands. Hún er eigindleg, þar sem niðurstöður er unnar út frá viðtölum við sex þátttakendur. Kolbrún Þ. Pálsdóttir leiðbeindi.

Kveikjan að verkefninu kom fljótlega eftir að ég byrjaði í meistaranámi mínu. Heitar umræður um stöðu tómstunda- og félagsmálafræðinga voru mjög algengar bæði í tímum og kaffipásum. Ég vildi því átta mig betur á stöðunni, til dæmis um það hvar við stöndum sem faghópur. Í þessu verkefni beindi ég því sjónum mínum að fagþróun tómstunda- og félagsmálafræða og voru rannsóknarspurningarnar eftirfarandi:

  • Hvar standa tómstunda- og félagsmálafræðingar og leikskóla­kennarar, miðað við reynslu þátttakenda af fagþróun, ef tekið er tillit til fagþróunarmódels Wilensky  ?
  • Hvaða sérþekkingu telja tómstunda- og félagsmálafræðingar og leikskólakennarar störf þeirra byggjast á ?
  • Hvernig upplifa tómstunda- og félagsmálafræðingar/ leikskóla­kennarar viðhorf annarra til starfsvettvangsins ?

Útdráttur

Markmið verkefnisins er að kanna stöðu tómstunda- og félags­málafræðinga sem sérfræðihóps í samfélaginu. Til að varpa ljósi á stöðu tómstunda- og félagsmálafræðinga voru viðhorf annars vegar þeirra sem störfuðu á vettvangi tómstunda og hins vegar leikskólakennara til fagsins, starfsumhverfis og fagþróunar skoðuð og borin saman með tilliti til fyrri kenninga.

Staða sérfræðihópa hefur verið viðfangsefni félagsfræðinnar um nokkurra áratuga skeið. Virknikenningar (e. functionalism) leggja áherslu á að sérfræðihópur hafi skýrt afmarkað hlutverk í samfélaginu og hagnýti þekkingu sína til góðs fyrir samfélagið. Útilokunarkenningar (e. neo-Weberian) byggjast á þeirri hugsun að sérfræðihópur verði til þegar hópur aðila berst fyrir sérhagsmunum á grunni sérþekkingar. Það ferli sem starfsstéttir fara í gegnum á leið sinni til að verða fullgildir sérfræðihópar er kallað fagþróun. Í þessu verkefni er unnið út frá módeli Wilensky um fagþróun.

Um er að ræða eigindlega viðtalsrannsókn. Tekin voru viðtöl við sex einstaklinga sem áttu það sameiginlegt að hafa reynslu af forystuhlutverki innan sinnar starfsstéttar. Leitast var eftir að draga fram reynslu þátttakenda af fagþróun og stöðu stéttarinnar. Skipulögð inni­haldsgreining (e. directed content analysis) var notuð til að greina gögnin, og draga fram þemu sem einkenndu stöðu stéttar að mati viðmælenda.

Niðurstöður benda til þess að hjá báðum starfsstéttum fari fram óformleg- og tilviljunarkennd menntun og að mikilvægt sé að þekkja þá fræði sem liggi þar að baki. Viðmælendur túlkuðu sérfræðihópa með tilliti til bæði virkni- og útilokunarkenninga. Reynsla viðmælenda af fagþróun þeirra benti til þess að leikskólakennarar væru komnir í gegnum öll stig Wilensky í fagþróunarferli sínu. Hins vegar upplifðu leikskólakennarar að þeir væru ekki viðurkenndir sem sérfræðihópur, þeirra reynsla var sú að fólk sæi ekki mun á fag- og ófaglærðum einstakling og að fólk teldi að í raun þyrfti ekki fimm ára háskólamenntu til að starfa á leikskóla, aðeins stórt fang og hlýtt hjarta. Reynsla tómstunda- og félagsmálfræðinga af fagumhverfi þeirra bendir til þess að þeir séu á flest öllum stigum Wilenksy, þeir eru því komnir á skrið í fagþróun sinni en margt þarf að bæta og þar geta þeir nýtt sér reynslu leikskólakennara. Í ljós kom að mikilvægt væri að rannsaka, skilgreina og koma sérfræðihlutverki starfstéttanna í orð, það myndi auka líkur á viðurkenningu á sérfræðihlutverki hópsins.

Hagnýtt gildi rannsóknar er það að tómstunda- og félagsmálafræðingar geta lært af reynslu leikskólakennara. Í ljós kom að mikilvægt væri að rannsaka, skilgreina og koma sérfræðihlutverki starfstéttanna í orð, það myndi auka líkur á viðurkenningu á sérfræðihlutverki hópsins.

Hér má nálgast verkefnið í heild sinni

Um höfundinn

EddaÉg heiti Edda Ósk Einarsdóttir er fædd og uppalinn skagamær. Ég hóf störf í félagsmiðstöðinni Arnardal á Akranesi árið 2006 og starfaði þar til ársins 2012. Ég kláraði B.s í sálfræði frá Háskóla Íslands. Ég ákvað síðan að fara í meistaranámi í tómstunda- og félagsmálafræði þar sem starfið í félagsmiðstöðinni heillaði mig upp úr skónum, ég gjörsamlega kolféll fyrir þessu starfsumhverfi og vildi því mennta mig frekar á því sviði. Því miður er ekki mikið um 100% störf á þessu sviði hér á Akranesi. Þess vegna hóf ég störf í leikskólanum Akraseli árið 2012  þar vinn ég með litlum snillingum, þar sem ég reyni eftir fremsta megni að yfirfæra nám mitt og reynslu til að mennta þá einstaklinga sem hjá mér eru.  Over and Out 🙂

Tómstundamenntum þjóðina!

Innsend grein frá Agnari Júlíussyni tómstunda- og félagsmálafræðingi


Eitt sinn þegar ég var að gramsa á internetinu vegna verkefnis sem ég þurfti að skila af mér í háskólanáminu rakst ég á frétt í Viðskiptablaðinu frá 1. janúar 2010 sem nefndist “Kostnaður vegna öldrunar hleðst upp” og byggði hún meðal annars á grein sem finna má á vef Samtaka atvinnulífsins.

Þar kemur meðal annars fram að fjöldi íbúa á eftirlaunaaldri kemur til með að tvöfaldast á næstu fjórum áratugum í hlutfalli við fólk á vinnumarkaðsaldri ef við getum kallað það svo, það er að segja í Evrópu. Vegna þessa munu útgjöld vegna heilbrigðis- og lífeyrismála stóraukast og Framkvæmdastjórn ESB áætlar að þau muni aukast að jafnaði um 3.4% af landsframleiðslu á ári, 2.3% vegna lífeyris og 1.1% vegna heilbrigðis og umönnunar aldraðra.

Verg landsframleiðsla á Íslandi í krónum talið var 1.537.106.000.000 (rúmlega 1.537 milljarðar ISK). Ef við tökum lífeyrinn út og reiknum bara með heilbrigðismálum og umönnun aldraðra þá gæti kostnaðurinn verið um það bil 1.7 milljarður ISK sem hann hækkar ár frá ári. Heildarútgjöld til þjónustu vegna aldraðra í árslok 2010 var 7.209.000.000 kr (rúmlega 7 milljarðar ISK).

Í framhaldinu af þessu fór ég á vef Hagstofu Íslands og kannaði fjölda aldraðra á Íslandi. Í ársbyrjun 2010 voru íslendingar 65 ára og eldri 38.069 manns, þar af voru 3.079 manns sem þurftu að leita til hjúkrunar- og dvalarheimila eða á öldrunar- og hjúkrunarlækningarými sjúkrahúsanna. Hlutfall þeirra af heildarfjölda einstaklinga yfir 65 ára aldri er því 8%.

Ef við gefum okkur að þetta hlutfall muni haldast óbreytt (8%) og heimfærum það upp á mannfjöldaspá Hagstofu Íslands, þá má áætla að fjöldi þeirra sem þurfa að leita til öldrunar- og hjúkrunarlækningarýma og dvalarheimila verði hátt í 8.000 manns árið 2060, miðað við að fjöldi íslendinga 65 ára og eldri verða 110.964.

Hafi menn haft ærna ástæðu til þess að kvarta undan ICESAVE-reikningnum á sínum tíma, þá er komin hér nægjanleg góð ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur af framtíð hagkerfis Íslands.

En hvað er ég að tuða, tómstunda- og félagsmálafræðingurinn um hagtölur og hagkerfi Íslands?

Ástæðan er einfaldlega sú að með þátttöku í heilbrigðum skipulögðum tómstundum viðheldur maður félagslegri færni, viðheldur andlegu og líkamlegu heilbrigði og þar með er kannski hægt að minnka líkurnar á því að maður þurfi á dýrri þjónustu að halda þegar á efri árin er komið.

Grískir heimspekingar forðum bentu á að ef það væri vinnan sem göfgaði manninn, þá væru það tómstundirnar sem mótuðu hann. Það er, hvernig einstaklingurinn nýtir frítíma sinn, getur haft gríðarleg áhrif á hvernig hann mótast sem samfélagsþegn. Lausnin er því að tómstundamennta þjóðina með því markmiði að auka ánægju hvers og eins einstaklings í frítíma sínum.

Með hugtakinu tómstundamenntun er átt við ferli sem á að leiða til þess að einstaklingurinn nái að hámarka ánægju sína í tómstundum sínum. Það er að segja renna styrkari stoðum undir einstaklinginn þannig að hann geti valið sér tómstund við hæfi og þroskast á þann veg að útkoman verði öllu samfélaginu til góða á endanum. Tómstundamenntun ætti að koma í námsskrá grunnskólanna. Í gegnum tómstundamenntun má t.d. auka trúna á sjálfan sig og eigin getu, sem gerir manni jafnvel kleift að standast ýmsar freistingar sem eru í boði í samfélaginu í dag og ógna jafnvel velferð þess.

Tómstundamenntun getur líka nýst við starfslok síðar á ævinni þegar maður stendur frammi fyrir þeim tímamótum að hafa allt í einu nægan tíma til þess að gera allt sem mann langar til að gera en hefur ekki hugmynd um hvað mann langar til eða hvað er í boði. Tómstunda- og félagsmálafræðingar á Íslandi telja nú vel fyrir hundraðið. Er ekki kominn tími á að nýta sér þeirra sérþekkingu?