Það á við um mína kynslóð, sem og þær sem á undan hafa gengið, að okkur finnst allt hafa verið betra þegar við vorum að alast upp. Ég, ásamt flestu fólki sem er staðsett núna miðja vegu milli þrítugs og fertugs, sé tíunda áratug síðustu aldar baðaðan gylltum ljóma. Hreinlega allt var betra þá; tónlistin, tískan, veðrið, tæknin/tæknileysið, nefndu það. Tíundi áratugurinn var það fullkominn að nánast væri hægt að ræða um útópíu í þessu samhengi. Eða hvað? Lesa meira “Hvar eru unglingarnir?”
Month: August 2019
Frítíminn og framhaldsskólinn
Um sextán ára aldurinn hætti ég að æfa fimleika og eftir stóð stelpa með ótrúlega mikinn frítíma í höndunum, stelpa sem hafði stundað skipulagt tómstundastarf í rúm 12 ár og var svo viss um það að hún hefði öðrum mikilvægum hnöppum að hneppa en að æfa íþróttir – En stóra spurningin var, hvað átti ég að gera við allan þennan frítíma?
Ég byrjaði að vinna tvisvar í viku eftir skóla og aðra hvora helgi, þar á milli hékk ég með vinkonum mínum og lærði þegar ég nennti eða hafði tíma. Um leið og ég byrjaði í framhaldsskóla varð ég félagslyndari og bauð mig meðal annars fram í nemendafélagið og reyndi eftir bestu getu að taka þátt í öllu sem var í gangi. Þrátt fyrir að ég mætti á öll böll og flesta viðburði tengda skólanum þá fannst mér samt ekki nóg um að vera í félagslífinu hjá mér. Ég vissi af ungmennahúsinu á Akranesi, Hvíta húsinu, en hélt að það væri bara hægt að spila pool og horfa á fótbolta þar, sem það var svo sannarlega ekki. Fáfræðin í mér var alveg að fara með mig og ég mætti aldrei í ungmennahúsið.
Ungmennahús eru fyrir þá sem ekki vita, félagsstarf fyrir ungmenni á aldrinum 16 til 25 ára og þjóna þeim tilgangi að veita ungmennum öruggt félagslíf undir leiðsögn fagaðila og hafa þau mikil forvarnargildi fyrir ungmennin. Ungmennahús er staður til að geta komið inn og fundið sig á sínum eigin forsendum og hjálpar unglingum að læra að nota frítíma sinn. Á Íslandi eru ungmennahús um 20 talsins en í Reykjavík er aðeins eitt ungmennahús, Hitt Húsið. En að mínu mati er eitt ungmennahús í allri Reykjavík alls ekki nóg enda er Reykjavík stórt svæði með mörg ungmenni. Afhverju ekki að fjárfesta í ungmennum landsins? Sporna gegn áhættuhegðun ungmenna sem eru í viðkvæmum áhættuhópi á þessum aldri, 16 til 25 ára. Rannsóknir hafa sýnt að skipulagt tómstundastarf hafi mikið forvarnargildi og hjálpi einstaklingum að verja frítíma sínum á jákvæðan og uppbyggilegan máta.
En afhverju er eins og allt skipulagt félags- og tómstundastarf stoppi hjá mörgum ungmennum eftir grunnskóla, engin félagsmiðstöð lengur og einu viðburðirnir sem þú getur sótt eru böll eða stakir viðburðir af og til. Að fara frá grunnskóla yfir í framhaldsskóla er stórt stökk fyrir flesta, 10 ára skólagöngu að ljúka og tími til að sleppa takinu á umsjónakennurunum sem hafa verið með þig í öll þessi ár. Það sem fylgir því að kveðja grunnskólann sinn er að kveðja félagsmiðstöðina sína og það getur reynst mörgum erfitt, kveðja starfsfólkið og herlegheitin í félagsmiðstöðinni. Og hvað svo? Hvað geta þau gert þegar venjulegum skóladegi lýkur í framhaldsskóla? Jú þau fara mörg hver að feta sín fyrstu fótspor á vinnumarkaðinum og hafa jafnvel minni frítíma en áður en að hafa kost á að mæta í ungmennahús í sínu hverfi væri ótrúlega mikill kostur. Að þurfa ekki alltaf að hanga hjá Gunnu vinkonu því hún á stærsta herbergið og þar geta allir hangið saman. Að geta farið og spjallað við starfsfólk sem þú lítur upp til og getur leitað til því foreldrar þínir skilja þig ekki alveg eins og þú vilt að þau skilji þig. Að geta bara farið og slappað af með vinunum í afslöppuðu umhverfi.
Stóra spurningin er: Hvaða félags- og tómstundastarf tekur við eftir grunnskóla fyrir ungmenni landsins? Eru ungmenni á aldrinum 16-25 ára að nýta frítíma sinn jafn vel og hægt væri?
—
Aldís Rós Hrólfsdóttir
Hvað er kynlíf?

Í nútímasamfélagi höfum við greiðan aðgang að ýmsum upplýsingum. Við getum fundið allar heimsins upplýsingar með örfáum fingurstrokum. Allt frá því hvað gerist í jáeindaskanna til ráða um hvernig skal best sjóða egg. En af hverju þykjumst við sem samfélag vita svona lítið um kynlíf? Varla vegna skort á upplýsingum? Kannski vegna lélegra kynfræðslu í grunnskóla? Óþægilegt og tabú umræðuefni sem enginn fullorðinn vill taka að sér? Tala nú ekki um þegar hinseginkynlífi er blandað inn í myndina. Þá fyrst fara allir í keng. Að stunda kynlíf í fyrsta skiptið er nefnilega eitthvað sem flest öll ungmenni koma til með að hugsa um. Hvernig verður það? Hvað mun gerast? Hvað á ég að gera? Hvað á ég ekki að gera? Spurningarnar eru endalausar. Fyrir ungmenni í hinseginpælingum hljóma spurningarnar eins. Þannig af hverju er ekki talað um hinseginkynlíf líka?