Áhrif samfélagsmiðla á börn og unglinga

Börn og unglingar búa í dag við tíðar tækniframfarir og eru samfélagsmiðlar hvort sem við viljum eða ekki  alltaf að verða meira áberandi í þeim efnum. Margt má nefna í þessu samhengi eins og facebook, snapchat, ingstagram og eflaust eru fleiri miðlar í gangi sem ég hef ekki nöfn á ennþá en ætlun mín er að kynna mér þessa miðla betur.

Ég er kona á besta aldri eins og sagt er eða um fertugt  og er ég búin að ganga í gegnum þessar tækniframfarir frá því að eiga pennavin, já eflaust reka margir upp stór augu af yngri kynslóðinni og skilja ekki af hverju né hvað það er. Nú til dags sendir þú bara skilaboð á messenger eða snapchat og eflaust öðrum miðlum og kemur þínum skilaboðum áleiðis á nokkrum sekúndum á meðan bréfið mitt til pennavinar tók marga daga að ferðast. Þetta er allt gott og gilt og fagna ég þessum tækniframförum þó svo ég hafi nú verið hrædd við að læra inn á þessa tækni í byrjun og er enn að læra. Að mínu mati sem móðir tveggja unglinga og nemi í tómstunda- og félagsmálafræði tel ég að allir foreldrar barna og unglinga eins og starfsmenn sem vinna með börnum og unglingum þurfi að kynna sér tæknina og þá samfélagsmiðla sem þau nota og reyna að koma sér vel inn í þessi mál. Með því að vera með á nótunum í þessum  málum eiga foreldrar og starfsmenn auðveldara með að setja sig inn í hinar ýmsu aðstæður og þau mál sem upp koma á samfélagsmiðlunum hjá börnunum og unglingunum.

Af mörgu er að taka í þessum málum en hér verður einblínt á vaxandi vinsældir „snappara“ sem eru orðnir ansi margi og fylgjendur þeirra ekki færri og að mestum hluta eru fylgjendurnir börn og unglingar. Þessi „atvinnugrein“ ef svo má orða það sem „snapparar“ eru orðnir í samfélaginu fer bara vaxandi og er ekkert á leiðinni í burtu og ef eitthvað er þá mun þeim bara fjölga ásamt fylgjendum í framtíðinni. Að vera „snappari“ með marga fylgjendur er jú gott og gilt, þetta er jú ný leið í auglýsingatækni margra fyrirtækja í dag þar sem fyrirtækin fá fræga „snappara“ til að auglýsa sínar vörur. En þá komum við einnig að vaxandi vandamálum tengdum fylgjendum „snapparanna“ inn á heimilum barnanna og unglinganna og einnig er þetta líka vandamál meðal margra fullorðinna einstaklinga þó svo hér muni ég bara einblína á börnin og unglingana.

Margir unglingar eru með uppundir 30-50 „snappara“ sem fjalla sem dæmi um mat, heilsu og lífstíl inn á sínum snapchat lista og komast ekki í gegnum daginn nema að skoða hvað hver „snappari“ hefur að segja um það málefni eða vöru sem er í umræðunni þann dag og hvað þeir hafi fram að færa. Hvað þau eigi að borða í dag „hvaða heilsuvara er aðal málið í dag“, hvernig þau eigi að mála sig og hvaða snyrtivörur eru bestar eða hvaða maski er akkúrat málið í dag!.  Tökum sem dæmi einn frægur „snappari“ upphefur eina tegund af maska sem að hans sögn geri kraftaverk, þú bara verður að eignast þennan maska annars ertu ekki maður með mönnum, annar „snappari“ auglýsir aðra tegund af maska sem að sjálfsögðu er aðal málið líka í dag og enn annar þriðja maskann og svoleiðis heldur þetta áfram út í hið óendanlega!. Unglingurinn veit að hann verður að eignast alla þessa maska samkvæmt snöppunum og stendur allt í einu uppi með 5 tegundir af maska og tóma buddu!. Unglingar með viðkvæma sjálfsmynd eru þó sérstaklega viðkvæmir fyrir áhrifum „snapparanna“ og enda oftar en ekki með fulla skápa af allskonar töfralausnum. Búnir að prufa alla 5 mismunandi lífstílskúrana með tilheyrandi fæðubótarefnum því þau eru nú best samkvæmt sumum snöppunum.  Oft standa þau uppi eftir þetta með brotnari sjálfsmynd þrátt fyrir að þau hafi farið eftir öllum þessum góðu ráðum sem þau fengu út úr snöppunum. Glansmyndin sem lífstíls „snapparar“ eru að sýna er ansi sterk en getur verið varhugaverð í mörgum tilvikum, sérstaklega í tilfellum barnanna og unglinganna.

Nú er ég ekki að segja með þessari grein minni að snöppin eigi ekki rétt á sér og að þau séu öll slæm en það er margt forvitnilegt og sniðugt í þessum snöppum eins og sem dæmi „ungur bóndi“ en þar fjallar ungur bóndi um lífið í sveitinni og kynnir það fyrir sínum fylgjendum. En aftur á móti verður samfélagið og við sem vinnum með börnum og unglingum að haga fræðslu okkar samkvæmt þessum tækniframförum. Hægt væri að koma inn fræðslu í skólana, félagsmiðstöðvarnar og jafnvel námskeið um hvernig börn og unglingar eigi að stjórna sínu lífi sjálf án þess að láta snöppin stjórna sínu lífi og lífstíl sem því miður er orðið alltof algengt í dag. Hægt væri að koma fræðslu til þeirra um að þau eigi rétt á að velja hvað þau telji henta sér og sé gott fyrir þau án áhrifa og oft hópþrýstings frá samfélaginu og snöppunum meðtöldum. Þó svo margt flott og sniðugt komi fram í þessum snöppum verða unglingarnir að gera sér grein fyrir því að flestir af „snöppurunum“ fá ókeypis vörur frá snyrtivörufyrirtækjum og fleirum gegn því að þeir auglýsi vöruna á sínu snappi. Það er ekki þar með sagt að þeim þyki þetta besta varan þó svo sé sagt á snappinu fyrir framleiðendur varanna.

Það leynast mörg sniðug snöpp þarna inn á milli og góðar vörur eflaust líka og með nýrri tækni koma fram nýjar leiðir til að auglýsa vörur eins og gert er í snöppunum. En við megum ekki gleyma því að stærsti markhópur „snapparanna“ það er að segja börnin og unglingarnir eru mjög viðkvæmur hópur sem er að ganga í gegnum brothætt skeið frá því að vera barn yfir í ungling og svo að finna sig sem fullorðin einstakling. Ef sjálfsmyndin er lág þá grípa þau hvert hálmstrá sem þeim er boðið til að finna sig og oft geta þessi lífstíls snöpp brotið niður frekar en hitt þó svo auðvitað sé góður vilji frá hendi snapparans sem heldur snappinu úti.

Sem betur fer eru margir sem gera greinarmun á milli þess hvað er auglýsing og hvað ekki og átta sig þar af leiðandi ekki á að þau þurfa ekki fara eftir þessum lífstíls snöppum í einu og öllu. Fræðsla er aftur á móti af hinu góða og tel ég að hún myndi nú gera meira gott en slæmt um þessi málefni.

Þóra Björk Jónsdóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.