Áhrif samskiptamiðla á sjálfsmynd unglinga

sonja lindMálefni sem hefur verið mér ofarlega í huga undanfarið er sjálfsmynd unglinga og þau áhrif sem samskiptamiðlar og aukin notkun á þeim hefur á hana. Sjálfsmyndakrísa er vissulega ekki nýtilkominn vandi á unglingsárunum en samskiptamiðlarnir eru tiltölulega nýlegir og í dag er það stór undantekning ef unglingur notast ekki við slíka miðla. Með samskiptamiðlum er átt við forrit á borð við Facebook, Instagram og Snapchat, en þetta eru nokkrir best þekktu samskiptamiðlarnir úr þeim hafsjó sem í boði er.

Það er ekkert leyndarmál að ungmenni eru stór markhópur fjölmiðla og áreiti sem þau verða fyrir frá hinum og þessum auglýsingum og tilkynningum sem birtast víða er mjög mikið og hefur óhjákvæmilega einhver áhrif. Með þessum auglýsingum er meðal annars verið að reyna að segja ungmennum hvernig þykir flott að líta út og hvaða hluti sé „nauðsynlegt“ að eiga. Þetta smitast síðan út í samskiptamiðlana og á hópsíður eins og til dæmis Beauty Tips þar sem það er daglegt brauð að sjá unglingsstúlkur setja inn myndir af sjálfri sér þar sem þær leitast eftir viðurkenningu frá kynsystrum sínum með því að spyrja hvort hitt og þetta í þeirra ytra útliti sé viðunandi. Þá fá þær ýmist hrós eða last sem oft er í formi algjörrar niðurrökkunar.

Vinsælt er að nýta samskiptamiðlana til að birta myndir af sér og á Facebook er algengt að sjá ungmenni merkja (e. tag) fjölda fólks á „profile“-myndum sínum í þeim tilgangi að fá sem flest „like“ og ég hef ósjaldan orðið vitni að því að heyra unglinga, og þá sérstaklega stúlkur, hafa orð á því að ef mynd af þeim hljóti ekki nógu mörg „like“ þá sjái þær sig knúnar til að eyða henni útaf Facebook síðunni sinni. Sama gildir um Instagram, en sá miðill gengur eingöngu út á myndbirtingu þar sem hægt er að gefa myndum annarra „like“. Snapchat er nýjasti miðillinn af þeim sem nefndir voru hér að ofan og hefur notið gríðarlegra vinsælda undanfarin ár. Nýr vettvangur hefur skapast fyrir fólk til að koma sér á framfæri og lífsstílsbloggarar og förðunarfræðingar hafa ásamt öðrum verið að sækja í sig veðrið þar. Snapchat snýst líka um að senda myndir eða stutt myndskeið.  Ég hef heyrt þónokkur dæmi þess að ungmenni séu að passa upp á að ekkert fari inn á þennan miðil sem ekki láti þau líta glæsilega út. Sem dæmi má nefna að margar stúlkur kjósa að bera allar myndir sem eiga að fara þarna inn undir vinkonur sínar til að spyrja hvort að þær séu nokkuð ljótar á myndunum og hvort þær séu birtingarhæfar. Ungmenni passa upp á að þau líti glæsilega út á myndunum og nýjustu snjallsímar bjóða upp á hin og þessu smáforrit til að „laga“ andlit og taka út mögulega galla sem kunnu að leynast á þeim með einum smelli. Myndir eru teknar frá ákveðnum sjónarhornum svo að þær verði örugglega sem fallegastar og margar stúlkur setja helst ekki inn af sér myndir ómálaðar og þær láta orð eins og „ég er með ljótuna“, „Vá hvað ég er mygluð“ og „djöfull er ég ógeðsleg“ óspart falla um sjálfar sig eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Þau dæmi sem nefnd eru hér að ofan er einungis lítill hluti þess sem ég hef orðið vitni að í mínu daglega lífi og mér þykir nóg um. Hvar endar þessi þróun? Útlitsdýrkunin er orðin svo gríðarlega sterk og birtist í sinni verstu mynd á samskiptamiðlunum sem eru orðnir gríðarlega stór hluti af frítíma og daglegu lífi ungmenna. Allt virðist snúast um að líta sem best út í augum annarra en minna máli virðist skipta að líta vel út fyrir sjálfan sig og að líða vel sem ætti að vera forgangsatriði allra.

Sonja Lind Sveinbjörnsdóttir, háskólanemi