• Frítíminn
  • Um Frítímann
  • Fréttir og greinar
    • Aðsendar greinar
    • Fréttir
    • Greinar
    • Siðferðileg álitamál
  • Útgefið efni
    • Bachelor lokaverkefni
    • Masters lokaverkefni
    • Myndbönd
    • Ritrýnt efni
  • Verkfæri

Author: Bjarki Sigurjónsson


Samfélagsleg styrkleikakort

4 January, 2021 Posted by Bjarki Sigurjónsson under Aðsendar greinar, Greinar

Það er alltaf mikil orka sem fylgir því að hefja nýtt ár og nýja önn í tómstunda- og félagsmálastarfi. Eftir undarlega haustönn erum við reynslunni ríkari með allskyns nýjar leiðir til þess að halda úti starfinu en einnig bindum við vonir við að hægt verði að halda úti hefðbundnu starfi í auknum mæli næstu mánuði. Við upphaf nýrrar annar er alltaf gott að staldra við, ígrunda og rýna starfið, hvað er að ganga vel og hvar viljum við sækja fram. Eitt tól sem er afar gagnlegt til að nýta á slíkum tímamótum er samfélagsleg styrkleikakort (e. community asset mapping) á samfélagi einstaklingana sem samtökin eða stofnunin vinnur með. Út frá slíkri kortlagningu færist umræðan um starfið á hærra stig og fæðast oft allskyns hugmyndir um ný samstarfsverkefni og bætt samskipti við aðra hagaðila samfélagsins. 

Í bók sinni Building communties from the inside out fjalla þeir Kretzman og McKnight (1993) um að það séu tvær hugmyndafræðilegar leiðir til að styðja við samfélög. Í hefðbundinni leið er áherslan á að styðja við samfélög með því að skoða þarfir samfélagsins, áhyggjur og vandamál. Markmiðið er að breyta stofnunum samfélagsins og hreyfiaflið eru völd og valdhafar en litið er á einstaklinginn sem neytanda eða skjólstæðing (Allen o.fl., 2002). Hin leiðin er að gera samfélagsleg styrkleikakort sem efla samfélög með því að skoða þá styrkleika og resourca sem samfélagið býr yfir. Markmiðið er að efla samfélagið og hreyfiaflið eru sambönd, samstarf og samskipti. Litið er á einstaklinginn sem hreyfiafl sem á eignarhald í samfélaginu (Allen o.fl, 2002). Samfélagsleg styrkleikakort rýma því vel við áherslur tómstundastarfs um virðingu fyrir einstaklingnum og að hlutverk starfsins sé að byggja upp einstaklinginn út frá áhugasviði hans, draumum og styrkleikum. Samfélagsleg styrkleikakort geta verið margskonar en eiga það öll sameiginlegt að teikna upp þá styrkleika og þá resourca sem samfélagið býr yfir (Allen o.fl, 2002) Hér er dæmi um uppsetningu á samfélagslegu styrkleikakorti:

(Allen, 2002)

Þegar samfélagsleg styrkleikakort er unnið er mikilvægt að bera það undir ólíka þátttakendur samfélagsins til að þau endurspegli fjölbreyttni samfélagsins og er besta leiðin að fá fjölbreyttan hóp þátttakenda samfélagsins til að vinna kortið saman. Samfélagsleg styrkleikakort veita aukna innsýn inn í samfélag og samhengi starfseminar sem við höldum úti. Með aukinni innsýn opnast augu okkar fyrir því að til að bæta okkur þurfum við oft að líta út fyrir eigin samtök eða stofnun og auka samstarf og samskipti við aðra aðila samfélagsins. Ég mæli hiklaust með að útbúa samfélagslegt styrkleikakort með nýjum starfsmannahópi, einnig er hægt að gera það með þátttakendum í starfinu eða jafnvel blönduðum hópi starfsmanna, þátttakanda og annara hagaðila samfélagsins.

Guðmundur Ari Sigurjónsson
Mastersnemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands

Heimildir
– McKnight, John L. og  John P. Kretzmann. (1993). Building Communities From the Inside Out. Chicago: ACTA Publications.
– Allen, John C. og fleiri. (2002). Building on Assets and Mobilizing for Collective Action: Community Guide. Nebraska: CARI

Ég var tómstundafulltrúi

6 February, 2019 Posted by Bjarki Sigurjónsson under Aðsendar greinar

Nýverið var auglýst eftir nýjum tómstunda- og íþróttafulltrúa í Strandabyggð. Fjölmargt er undarlegt við auglýsinguna sjálfa og umræðuna í aðdraganda hennar. Auglýst er eftir íþróttafulltrúa, en þó er ekkert minnst á neitt íþróttatengt. Auglýst er eftir 70%-100% starfi sem vekur upp spurningar, telur sveitarstjórnin virkilega að 70% starfshlutfall dugi eða á kannski að ráða fleiri en einn í 70% starf og auka þannig umfangið? Hið síðarnefnda er skynsamlegt, hið fyrrnefnda glórulaust. Það sem stingur allra mest í augu er menntunarkrafan. Hér er einungis óskað eftir menntun við hæfi, ekki háskólamenntun við hæfi, ekki tómstunda- og félagsmálafræði eða annarri uppeldismenntun. Einstaklingur gæti þess vegna hlotið starfið eftir grunnskólapróf og virka þátttöku í eigin félagsmiðstöð, sem vissulega er mikið nám. (more…)

Að brjóta niður múra

11 December, 2018 Posted by Bjarki Sigurjónsson under Greinar

Múrbrjóturinn er viðurkenning sem Landsamtökin Þroskahjálp veita árlega þeim sem að mati samtakanna brjóta niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks og stuðla þannig að fullgildri samfélagsþátttöku, mannréttindum og lífsgæðum þess til jafns við aðra. Á alþjóðadegi fatlaðs fólks þann 3. desember sl. féll Múrbrjóturinn m.a. í skaut Frístundamiðstöðvarinnar Þorpsins og Ruthar Jörgensdóttur Rauterberg, sem starfaði í Þorpinu í 11 ár en er núna aðjúnkt og doktorsnemi við HÍ.

Vettvangur starfsemi Þorpsins er frítími og forvarnir þar sem megin áherslan er lögð á barna- og unglingastarf. Við settum okkur það markmið að vera ávallt opin fyrir nýjungum og breytingum og miða starfsemina út frá þörfum samfélagsins hverju sinni. En mikilvægast er að við viljum mæta þörfum hvers og eins eftir bestu getu. Við viljum gera ráð fyrir margbreytileika mannlífsins og að allir geti fengið hvatningu og stuðning við hæfi í sínu tómstundastarfi. Það eru allir velkomnir í starfið okkar, alltaf.

Starf án aðgreiningar

Haustið 2007 byrjaði félagsmiðstöðin Arnardalur með tómstundastarf fyrir fötluð börn í 5.-10. bekk eftir að skóla lauk á daginn.Við kölluðum það Frístundaklúbb Arnardals. Gaman-saman starf Þorpsins byrjaði svo sem tilraunaverkefni haustið 2009 en það þróaðist út frá tómstundastarfi Frístundaklúbbsins sem var í fyrstu eingöngu ætlað fötluðum börnum en breyttist svo í tómstundastarf fyrir öll börn. Á þeim tíma vorum við búin að átta okkur á því að börnin í Frístundaklúbbnum voru miklar félagsverur sem áttu í góðu sambandi við jafnaldra sína í skólanum og okkur fannst mótsögn í því að verið var að þróa skólastarf án aðgreiningar en í frítíma vorum við að stuðla að aukinni aðgreiningu.

Haustið 2013 framkvæmdi Ruth með stuðningi Þorpsins þátttökurannsókn á Gaman – saman starfinu í Þorpinu þar sem 40 börn á aldrinum 10-12 ára og 6 frístundaleiðbeinendur tóku þátt. Það var megin niðurstaða rannsóknarinnar að þróun starfs fyrir margbreytilega barna- og unglingahópa byggir á samvinnu sem felst í því að allir taki virkan þátt. Við sáum líka að þátttaka í tómstundastarfi eins og Gaman-saman getur undirbúið okkur undir það að takast á við áskoranir í samfélagi fyrir alla. Börn sem við héldum að þyrftu mestu aðstoðina frá okkur fóru að blómstra og voru jafnvel drifkrafturinn í hópnum. Þau komu sjálfum sér á óvart, unnu mikla sigra og var það oft hvatningu jafnaldranna að þakka.

Við viljum skapa menningu sem viðurkennir margbreytileikann og umhverfi þar sem þátttaka allra þykir sjálfsögð. Við viljum líka sína fram á að starf á vettvangi frítímans er kjörið til þes að stuðla að aukinni þátttöku og auknum samskiptum milli fólks. Við upplifðum nefnilega að fjölbreytileikinn í hópnum gat dregið fram það besta í öllum.

Það að vera múrbrjótur er ekki átaksverkefni. Það er lífstíll og það er hugmyndafræði. Með þessa hugmyndafræði að leiðarljósi geta allir tekið þátt í öllu starfi Þorpsins.

Við erum ákaflega stolt og þakklát fyrir þessa viðurkenningu og hún hvetur okkur til að halda áfram á þessari vegferð og fá aðra með okkur í lið. Það er nefnilega erfitt fyrir einn að brjóta niður múr en verður létt verk þegar allir hjálpast að.

—

Heiðrún Janusardóttir, verkefnisstjóri æskulýðs- og forvarnarmála Akraneskaupstað

Ruth Jörgensdóttir Rauterberg, þroskaþjálfi og aðjúkt við HÍ

Gæði og þróun – Um dægradvöl í Kópavogi

26 January, 2016 Posted by Bjarki Sigurjónsson under Aðsendar greinar

Bild6Frístundaheimilin sem ætluð eru fyrir 6-9 ára börn eru mikilvægur þáttur í lífi þeirra margra. Þar gefst börnunum tækifæri á að njóta sín, efla félags- og samskiptahæfni í gegnum bæði frjálsan leik og markvisst hópastarf og mynda vinatengsl við jafningja sína.

(more…)

Ég heiti Hrefna og ég vinn í félagsmiðstöð

15 October, 2015 Posted by Bjarki Sigurjónsson under Greinar

HrefnaÉg heiti Hrefna og ég vinn í félagsmiðstöð. Mörgum kann að þykja þetta undarlegt upphaf á faglegri grein en fyrir mér endurspeglar þessi örstutta setning mig sjálfa, hvað ég stend fyrir og hvað ég trúi á.
Ég er stolt af mínu starfi og langar oft á tíðum að segja hverjum sem á vegi mínum verður hversu heppin ég er að fá að kynnast og hafa áhrif á það unga fólk sem ég starfa með hverju sinni. Fyrir mér eru slík tækifæri algjör forréttindi.

Ég veit nefnilega hvað félagsmiðstöðvastarf getur skipt unga fólkið okkar gríðarlega miklu máli því ég er eitt dæmi um unglingsblóm sem fékk tækifæri til að vaxa og dafna í slíku starfi. Fyrir allnokkrum árum stóð ég, ómótaður unglingur frammi fyrir ansi stórri áskorun, að hefja nám í unglingadeild í nýjum skóla. Fyrir sumum er slík breyting ekki mikið stórmál en fyrir mér var þetta stærsta áskorun sem ég hafði glímt við á ævinni og erfið fannst mér hún. Ég átti ansi erfitt með að aðlagast, svo erfitt að ég kaus frekar að snæða nestið mitt í einrúmi og fann hverja afsökunina á fætur annarri til að mæta ekki í skólann. Ég var í feluleik en munurinn á þeim feluleik sem ég var í og þeim sem önnur börn stunda var sá að ég var eini þátttakandinn. Ég faldi mig en enginn virtist leita að mér – eða svo hélt ég. Vandamál mitt var alls ekki vinaleysi, ég átti marga og mjög góða vini en ég upplifði mig samt aleina sem er undarleg tilfinning sem erfitt er að koma í orð.

Dag einn, meðan feluleikurinn stóð sem hæst og afsökunin ,,mér er svo illt í maganum” eða önnur álíka hafði ekki dugað til að sleppa skólanum í það skiptið breyttist allt. Í skólanum var starfrækt félagsmiðstöð sem ég hafði aldrei veitt athygli nema að ég sá að allir ,,vinsælu” krakkarnir voru mikið að sniglast í kringum rýmið sem hýsti félagsmiðstöðina. Fyrir mér virkaði það gífurlega fráhrindandi. Ég upplifði mig ekki sem part af þessum hópi og gerði strax ráð fyrir að þarna ætti ég ekki heima. Þennan fyrrnefnda dag kom hinsvegar upp að mér ókunnug manneskja og gaf sig á tal við mig. Ég furðaði mig á því hvers vegna í ósköpunum hún valdi að tala við mig. Ég hafði ekki frá neinu áhugaverðu að segja. En þessi manneskja virtist hafa áhuga á mér, af öllum sem voru í kringum mig! Spurði mig til nafns, hvernig mér gengi að aðlagast skólanum og við ræddum allt milli himins og jarðar. Að lokum benti hún mér á að hún starfaði í félagsmiðstöðinni og sagði að það starf væri eflaust eitthvað fyrir mig. Ég þakkaði kurteislega fyrir ábendinguna en innst inni hélt ég að þetta væri bara rugl og þvæla. Ég var ekki partur af þessum hópi sem sótti félagsmiðstöðina. Ég var bara ómerkileg Hrefna.

Sama kvöld heyrði ég að vinir mínir ætluðu í félagsmiðstöðina og ákvað að fara með, bara til að prófa og sýna þessari manneskju að hún hefði rangt fyrir sér og þá væri það bara frá. Í stuttu máli má segja að þetta kvöld var upphafið að öllu. Ég mætti í félagsmiðstöðina næsta opnunarkvöld, og opnunarkvöldið þar á eftir og í raun og veru öll kvöld það sem eftir var grunnuskólagöngunnar. Í félagsmiðstöðinni lærði ég svo ótalmargt sem ekki er hægt að kenna í skólastofum eða námsbókum. Ég fékk að prófa mig áfram í hinu og þessu, allt frá því að læra pool upp í að skipuleggja árshátíð skólans. Ég kynntist hliðum á sjálfri mér sem ég hafði ekki kynnst áður og fór frá því að vera í feluleik yfir í að vera í sýnileik ef svo má segja. Veran í félagsmiðstöðinni mótaði mig sem einstakling, fékk mig til að hafa trú á sjálfri mér og opnaði augu mín fyrir öllum þeim tækifærum sem þessi frábæra veröld býður uppá. Þegar ég kláraði grunnskólann kvaddi ég með trega en við tóku fleiri spennandi ár í framhaldsskóla þar sem reynslan mín nýttist svo sannarlega.

Þegar ég lauk framhaldsskólanámi fór ég að huga að framtíðarstarfi eins og fullorðnu fólki sæmir. Ég hafði lengi átt draum um að verða leikkona og sá ekkert annað í stöðunni en að láta þann draum rætast. En eins og gengur og gerist í sumum ævintýrum var grasið í leiklistarheiminum ekki alveg jafn grænt og ég taldi. Dag einn, meðan ég upplifði einhverskonar tilvistarkreppu varð þessi ónefnda manneskja sem starfaði í félagsmiðstöðinni á vegi mínum og þá var eins og það kviknaði ljós í höfðinu á mér. Við áttum gott spjall um lífið og tilveruna og þegar ég sá hvað hún samgladdist mér mikið að hafa afrekað hina og þessa hluti fann ég hina klisjukenndu köllun. Ég ætlaði að starfa í félagsmiðstöð og fá að upplifa nákvæmlega þessa tilfinningu sem manneskjan upplifði. Ég vildi hjálpa öðrum að blómstra eins og ég fékk tækifæri til og vonandi hitta þá einstaklinga síðar á lífsleiðinni og sjá af eigin raun að ég hafði áhrif.

Í dag starfa ég í félagsmiðstöð og upplifi akkúrat þessa tilfinningu hvern einasta dag. Að fá að sjá og hjálpa öðrum að blómstra gerir mig að betri manneskju dag hvern og ég er ekki einu sinni að sykurhúða frásögn mína. Það að slíkar miðstöðvar séu starfræktar er bráðnauðsynlegt fyrir öll ungmennin þarna úti, sama hvort þau eru tíu ára eða tvítug! Það að einstaklingar geti komið, prófað sig áfram í allskonar athöfnum, fengið tækifæri á að gera mistök og læra af þeim án þess að einn né neinn dæmi þá og fái að vera þeir sjálfir er eitt það allra mikilvægasta sem ég veit. Ég er handviss um að margir hverjir sem hafa skarað fram úr í okkar þjóðfélagi eigi jákvæða sögu um félagsmiðstöðvastarf eða frítímastarf almennt og það hafi átt þátt í að koma þeim á þann stað sem þeir eru á í lífinu og einnig þeir sem minna heyrist frá á opinberum vettvangi.

Ég hvet alla, unga sem aldna til þess að kynna sér það frábæra starf sem fram fer í félagsmiðstöðvum víðsvegar um landið, sérstaklega þá sem ekki þora. Þið eigið ekki eftir að sjá eftir því! Að lokum bið ég og vona að félagsmiðstöðvastarf fái að halda sinni frábæru mynd um ókomin ár svo fleiri fái tækifæri til að blómstra!

Saga félagsmiðstöðva – Viðtal við Árna Guðmunds

8 February, 2015 Posted by Bjarki Sigurjónsson under Greinar

Félagsmiðstöðvar eru búnar að vera starfandi hér á Íslandi um nokkur skeið en hversu lengi? Hvenær var fyrsta félagsmiðstöðin stofnuð? Af hverju var hún stofnuð? Við hjá Frítímanum ákváðum að leita svara við þessum spurningum og fleirum. Við veltum fyrir okkur hver væri með þessi svör á reiðum höndum. Hver annar en Árni Guðmundsson, höfundur bókarinnar Saga félagsmiðstöðva og kennari við Háskóla Íslanda. Frítíminn fór á stúfana og hitti fyrir hann Árna Guðmundsson á skrifstofunni hans í Bolholtinu.
Frítíminn ákvað nú á dögunum að prufa í bland nýjar leiðir við miðlun á efni hér á síðunni og tókum því upp viðtal við Árna þar sem saga félagsmiðstöðva er rakin.

Er í lagi að skutlast með ungling á einkabíl – Hvað finnst þér?

4 November, 2014 Posted by Bjarki Sigurjónsson under Siðferðileg álitamál

Við höfum ákveðið að setja inn nýtt siðferðilegt álitamál. Við veltum upp spurningunni:
Er í lagi að skutlast með ungling á einkabíl fyrir, eftir eða á vakt?
Er það alltaf í lagi? Er það aldrei í lagi? Er það í lagi í ákveðnum tilfellum? Er það í lagi við ákveðnar aðstæður?

Við hvetjum alla til að blanda sér í umræðuna og beita rökum með og á móti. Mikilvægt er að fólk sé opið og virði skoðanir annarra. Ef þið hafið siðferðilegt álitamál sem ykkur langar að ræða sendið það endilega á fritiminn@fritiminn.is. Það má vera raunverulegt úr starfinu ykkar eða aðstæður sem gætu hugsanlega komið upp.

„Maður lærir líka að vera góður“

10 July, 2014 Posted by Bjarki Sigurjónsson under Fréttir, Masters lokaverkefni

Þrátt fyrir áratugasögu hefur félagsmiðstöðvastarf á Íslandi lítið verið rannsakað en þó er nokkuð stór hópur unglinga virkir þátttakendur í starfi félagsmiðstöðva einhvern tíma á unglingsárum. Í rannsókn sem var grunnur að meistaraverkefni í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands beindi Eygló Rúnarsdóttir sjónum að félagsmiðstöðvastarfinu.

Um rannsóknina

Í rannsókninni, sem ber yfirskriftina „Maður lærir líka að vera góður“ kallaði hún eftir sýn unglinga á starf félagsmiðstöðva í Reykjavík og sýn þeirra á eigin þátttöku í starfseminni. Viðtöl við átta unglinga sem tóku þátt í starfi tveggja ólíkra félagsmiðstöðva í Reykjavík veturinn 2008–2009 lágu til grundvallar en áður hafði hún til undirbúnings tekið viðtöl við þrjá unglinga í þremur ólíkum félgsmiðstöðvum, gert vettvangsathuganir og tekið viðtöl við frístundaráðgjafa. Með rannsókninni var leitast við að svara því hvaða merkingu félagsmiðstöðin hefur í hugum þessara unglinga, hvaða ástæður þeir telja vera fyrir því að þeir hófu þátttöku í starfi félagsmiðstöðva og héldu þátttöku sinni áfram, hvaða reynslu eða lærdóm, ef einhvern, unglingarnir telja sig draga af þátttöku sinni í félagsmiðstöðvastarfi og upplifun unglinganna af starfsfólki félagsmiðstöðva.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að unglingarnir sjá félagsmiðstöðina sem öruggan samastað í hverfinu þar sem aðgengi er að jafningjum, skemmtun og afþreyingu. Þessir þættir eru jafnframt hvatar
að fyrstu kynnum þeirra af félagsmiðstöðvastarfinu. Áframhaldandi þátttaka þeirra mótast af tvennu. Annars vegar mótast hún af ytri þáttum, öðrum viðfangsefnum þeirra í frítímanum, tímaskorti, opnunartíma félagsmiðstöðvarinnar, aldri unglinganna og viðfangsefnum í starfi félagsmiðstöðvanna. Hins vegar mótast áframhaldandi þátttaka af því hvort unglingarnir mynda öflug tengsl við starfið, einhvers konar skuldbindingu. Unglingarnir telja sig flestir læra, þó í mismiklum mæli, af þátttöku í starfinu. Þau þemu sem þar koma fram eru þekking, verkleg færni, félagsleg færni, persónuleg færni eða eiginleikar og lífsgildi. Starfsfólk félagsmiðstöðva virðist jafnframt skipta unglingana miklu máli. Þeir eru sammála um að þar starfi gott fólk með viðmót sem einkennist af jafningjanálgun, stuðningi og hvatningu.

Niðurstöðurnar gefa þeim sem fyrir félagsmiðstöðvastarfinu standa og starfsfólki á vettvangi innsýn í hugmyndir unglinga um starfsemi sem þeim er ætluð og eru vonandi lóð á vogarskálarnar við áframhaldandi þróun starfsins.

Hér má nálgast verkefnið í heild sinni.

Um höfundinn

Eygló Rúnarsdóttir er grunnskólakennari og uppeldis- og Eygló Rúnarsdóttirmenntunarfræðingur en hefur hátt á annan áratug starfað á vettvangi frístundarstarfs. Hún starfaði um árabil í Breiðholtinu í Reykjavík, fyrst um nokkurra ára skeið í félagsmiðstöðinni Fellahelli en síðar í Frístundamiðstöðinni Miðbergi sem deildastjóri unglingastarfs. Síðast liðin 12 ár hefur hún starfað á skrifstofu tómstundamála hjá íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkur (ÍTR), og nú skóla- og frístundasviði Reykjavíkur (SFS) auk þess að starfa sem sérfræðingur hjá námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræðum við Háskóla Íslands. Í starfi sínu hjá Reykjavíkurborg hefur hún auk verkefna sem snúa að málefnum unglinga og félagsmiðstöðva unnið með Reykjavíkurráði ungmenna og leitt þróun starfsemi ungmennaráða í hverfum borgarinnar frá 2001 eða frá upphafi verkefnisins.

Auk verkefna sinna hjá Reykjavíkurborg og Háskóla Íslands hefur Eygló sinnt fjölmörgum verkefnum á sviðið æskulýðs,- forvarnar- og félagsmála. Eygló var verkefnastjóri ráðstefnunnar Ungdom, demokrati og deltagelse undir merkjum Norrænu ráðherranefndarinnar þegar Ísland fór með formennsku í nefndinni 2004. Hún kom jafnframt að stofnun Félags fagfólks í frítímaþjónustu árið 2005 og sat í stjórn félagsins í nokkur ár, hefur tekið virkan þátt í starfi SAMFÉS, samtökum félagsmiðstöðva, og sinnt fræðslu og námskeiðshaldi um félagsmiðstöðvastarf og starfsemi ungmennaráða víða um land. Eygló kom að stofnun veftímaritsins Frítímans og situr jafnframt í ritstjórn hans.

Veitum ungmennum raunveruleg áhrif – lækkum kosningaaldur

9 April, 2014 Posted by Bjarki Sigurjónsson under Aðsendar greinar

árnigVeik rödd

Við sem höfum starfað að velferðaramálum barna og ungmenna  um langa hríð  höfum ekki farið varhluta af því hve börn og ungmenni eiga sér veika rödd í samfélaginu. Margt hefur áunnist en það er ennþá langt í land hvað varðar raunveruleg áhrif ungmenna, bæði í samfélaginu og í nærumhverfi sínu.  Á níunda áratug síðustu aldar innleiddu félagsmiðstöðvar hérlendis starfsaðferðir unglingalýðræðis sem tæki og lið í valdeflingu ungmenna. Aðferð sem byggir á lífsleikni og er menntandi í víðasta skilningi þess orðs. Starfsaðferðir unglingalýðræðis ganga út á það að efla getu einstaklings og/eða hópa til þess að vinna með öðrum á lýðræðislegum forsendum og að takast á við tilveruna í öllum hennar margbreytileika.  Ungmennin öðlast með virkni í starfinu aukna félagslega hæfni og þroska með sér jákvæða sjálfsmynd sem fæst með þátttöku í þeim fjölmörgum verkefnum og viðfangsefnum sem starfsemi félagsmiðstöðva inniheldur

Æskulýðslög

Þessi þróun hefur m.a leitt til þess að í æskulýðslögum (17.mars/2007/11.gr.) er ákvæði um heimild um stofnun ungmennaráða í sveitarfélögum en þar segir: „Sveitarstjórnir hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð. Hlutverk ungmennaráða er m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarstjórnir setja nánari reglur um hlutverk og val í ungmennaráð.“ Flest sveitarfélög hafa nýtt þetta heimildarákvæði en ekki öll. Í Hafnarfirði var ákveðið fyrir margt löngu að fulltrúi unglinga ætti sæti í Íþrótta- og tómstundanefnd bæjarins með áheyrnar- og tillögurétt  á sama hátt og fulltrúi íþróttahreyfingarinnar.

Ungmennaráð

Starfsemi ungmennaráða hafa víða um land gengið vel ekki síst hér í Hafnarfirði en hér var búið að koma á ungmennaráði löngu áður en ákvæði um slíkt kom í lög. Ungmennaráðið/in hér í bæ hafa ýmsu áorkað í gegnum árin.  Hinu er þó ekki að leyna að þegar að kemur að stóru málunum þá verður oft brestur á, ekki bara hér í firðinum heldur víðar þar sem ungmennaráð starfa. Það má velta fyrir sér hvers vegna ungmennaráð eru ekki höfð með í ráðum í stærri málum. Ég minnist mikils niðurskurðar til æskulýðsmála hér í bæ fyrir nokkrum árum. Á þeim tímapunkti sýndu hafnfirsk ungmenni sterka lýðræðisvitund, efndu til fjölmennrar mótmælagöngu og  sýndu hug sinn í verki.  Í þessu ljósi má velta fyrir sér hvers vegna er verið að tala um unglingalýðræði og til hvers er fyrirkomulag eins og Ungmennaráð  ef það hefur ekkert um brýn hagsmunamál ungs fólks að segja þegar virkilega á reynir? Mynd af brosandi stjórnmálamönnum og ungmennaráðum er vissulega hugguleg en hefur ekkert vægi umfram það ef starfsemi ráðanna fylgja ekki raunveruleg völd.

Lækkum kosningaaldur

Gæti verið að ungt fólk þ.e.a.s. þau sem ekki eru kjörgeng eigi sér í raun enga rödd eða málsvara í samfélaginu þegar að raunverulega blæs á móti?  Ég minnist þess fyrir allmörgum árum þegar að stjórnmálamenn fóru allt í einu að tala um framhaldsskólann sem var í velflestum tilfellum í beinu samhengi við lækkun kjörgengis í 18 ár. Getur verið að áherslur stjórnmálamanna miðist nær eingöngu við áhuga virkra atkvæða sbr. foreldramiðuð skólaumræða? Ég hef lengi verið talsmaður þess að lækka kjörgengi í 16 ára og jafnvel 15 ára aldur og með því gefa ungmennum raunhæfa möguleika á því að hafa áhrif á mótun samfélagsins, ekki síst nærsamfélagsins og á þau mál sem á þeim brennur. Unglingalýðræði í núverandi mynd virkar ekki þegar á móti blæs. Ég tel því einu raunhæfu leiðina að lækka kjörgengi og því fyrr því betra. Ég veit sem er að við slíkt myndu málefni unglinga ekki verða sú afgangsstærð í  þjóðfélaginu sem því miður oft vill verða. Það hefur ekkert samfélag efni á slíku fálæti og allra síst á tímum eins og þeim sem við lifum á.

Árni Guðmundsson M.Ed  félagsuppeldisfræðingur

Fjölbreytileiki mikilvægur í tómstundastarfi fyrir aldraða

30 January, 2014 Posted by Bjarki Sigurjónsson under Aðsendar greinar

Aldraðir og tómstundirfélagsstarf á Hrafnistu
Í dag eru rúmlega 37.000 einstaklingar á Íslandi sem eru 67 ára og eldri og samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands er talið að þeir verði um 52.000 eftir aðeins 10 ár. Þetta merkir hraða fjölgun hjá þeim sem standa frammi fyrir starfslokum og þar með ákveðnum tímamótum í lífinu. Margir hverjir finna sér ný hlutverk, tómstundir eða fara að eyða meiri tíma í þau verk sem þau voru vön að stunda samhliða vinnu, s.s. að sinna viðhaldi á eigin húsnæði, garðyrkju, eyða meiri tíma með barnabörnunum svo eitthvað sé nefnt. Með tómstund er átt við allt það sem hinn aldraði tekur sér fyrir hendur sér til dægrastyttingar og veitir honum ánægju. Margir aldraðir eru einnig farnir að hugsa meira um eigin heilsu og eru virkir þátttakendur í ýmsum íþróttum og hreyfingu þrátt fyrir hækkandi aldur. Má þar t.d. nefna gönguhópa, golf og aðrar boltaíþróttir, fimleika, sund, dans og ýmsa þjálfunarhópa á vegum líkamsræktarstöðva ætlaða öldruðum. Svo eru það þeir sem leggja mikinn metnað í að sækja sér nýja þekkingu, njóta þess að vera skapandi og hafa þörf fyrir að gefa af sér eins og t.d. í sjálfboðavinnu á fyrrum vinnustað, hjá Rauða krossinum eða innan félagsmiðstöðva eldri borgara. Þeir sækja námskeið innan menntakerfisins, tölvunámskeið og fjölbreytt handverksnámskeið s.s. myndlist, leir-, gler-, trévinnslu eða annað sem vekur áhuga þeirra. Þróunin síðustu ár og áratugi hefur sýnt að aldraðir eru virkari þátttakendur í samfélaginu eftir starfslok. Ástæða þessa er hækkandi lífaldur beggja kynja ásamt bættri heilsu vegna þróunar innan læknavísindanna og aukinni áherslu á heilsusamlegan lífstíl og vellíðan.

Heilsa, búsetuform og hjúskaparstaða

Rannsóknir sýna að heilsufar, búsetuform og hjúskaparstaða hafa mikil áhrif á hversu virkur þátttakandi hinn aldraði er innan og utan heimilisins. Góð heilsa og vellíðan er grunnurinn að lífsgæðum einstaklinga. Veikindi, sjúkdómar og skert hreyfigeta hafa áhrif á þau tækifæri sem einstaklingnum býðst til að vera virkur ásamt búsetuformi. Aðgengi innan og utan heimilis og fjarlægð í mikilvæga þjónustu, s.s. verslanir, apótek, heilsugæslu og félagsmiðstöðvar skipta einnig miklu. Hjúskaparstaðan getur líka haft áhrif á hversu mikinn þátt einstaklingurinn tekur í félagslegum afþreyingum utan heimilis. Sýnt hefur verið fram á að giftir eldri borgarar, sér í lagi karlmenn, taka síður þátt í félagsstarfi utan heimilis en það getur einnig átt við um eldri karlmenn sem eru ógiftir eða ekklar. Eldri konur virðast vera öflugri í að sækja í félagsskap utan heimilisins og tómstundir þótt engar staðfestar tölur liggi fyrir um það. Flest okkar eigum við það sameiginlegt að hafa þörf fyrir tilgang í lífinu. Það að hafa ástæðu til að fara fram úr rúminu á morgnana, líka þegar við erum komin á efri ár.

Félagsstarf, bæði skipulagt og óskipulagt

Mikil vitundavakning hefur átt sér stað um málefni aldraðra síðustu áratugi og hafa sveitarfélög víðs vegar um landið komið til móts við þarfir eldri borgara um félagsstarf og tómstundir. Mörg þeirra bjóða uppá fjölbreytt starf í þjónustumiðstöðvum fyrir aldraða, í félagsheimilum eða innan stofnana fyrir eldri borgara. Þjónustan er mismikil yfir árið eftir landshlutum og ekki ólíklegt að fjöldi þeirra sem nýti sér hana hafi áhrif á það. Þeir sem ekki geta sótt félagsstarf af sjálfsdáðum, búa enn heima og eru ófærir um að nota almenningssamgöngur hafa rétt á að sækja um sérstakt þjónustuúrræði sem ýmist kallast dagvistun eða dagþjálfun en sú þjónusta hefur það markmið að bjóða hinum aldraða uppá fjölbreytta þjónustu í formi hreyfingar, félagsstarfs og tómstunda með meira utan um haldi og sumum tilfellum aðgengi að þjálfun. Þá mætir hinn aldraði að morgni til og fer svo aftur heim samdægurs um miðjan daginn, oftast með aðstoð akstursþjónustu en hægt er að sækja um þá þjónustu hjá því sveitarfélagi sem viðkomandi býr í. Þess má einnig geta að margar kirkjur bjóða uppá sérstakt kirkjustarf ætlað eldri borgurum þar sem í boði eru samverustundir, söngur, helgihald, sjálfboðastarf og margt fleira.

Þetta er allt þjónusta sem flokkast undir skipulagða þjónustu en svo má ekki gleyma að nefna allt það óskipulagða félagsstarf sem á sér stað víðs vegar um landið í gegnum félagslegt samneyti af ýmsum toga. Þar sem eldri borgarar hittast í heimahúsum, á kaffi- og veitingahúsum, fara á tónleika, listasöfn, í leikhús, ferðalög innan- og utanlands eða annað slíkt án aðkomu þjónustu fyrir aldraða.

Þökk sé þróun á sviði tækninnar og samskiptabúnaðar, þá hefur hinn aldraði fleiri tækifæri á að vera í góðum samskiptum við ástvini þrátt fyrir búsetu á ólíkum landshlutum eða öðrum löndum og þar með þátttakandi í lífi stórfjölskyldunnar og vina. Rannsóknir hafa leitt í ljós að aldraðir sem nýta sér tæknina til samskipta á veraldarvefnum, t.d. í gegnum Facebook og Skype eru ólíklegri til að upplifa einmanaleika, depurð eða þunglyndi.

Þörf fyrir aðstoð til þátttöku

Hvað svo um þá sem eru einangraðir heima við meirihluta ársins og eru mögulega að kljást við einmanaleika, þunglyndi og hafa lítið fyrir stafni? Þar skiptir þátttaka aðstandenda, vina, nágranna og heimaþjónustunnar megin máli. Það er mjög mikilvægt að þeir hjálpi hinum aldraða með því að kynna fyrir honum þau úrræði sem standa honum til boða í því sveitarfélagi sem hann býr í en mögulega er hinn aldraði sáttur við sínar núverandi aðstæður og hefur ekki áhuga á að breyta þeim. Hafa verður í huga að hinn aldraði gæti upplifað óöryggi gagnvart breytingum sem verða á hans daglegu venjum við það að prófa ný úrræði eins og t.d. að sækja nýja þjónustu í félagsmiðstöð eða dagvistun þar sem hann þekkir engan. Mikilvægt er að veita þessu óöryggi skilning og gefa hinum aldraða tíma til að venjast þeirri tilhugsun að nú muni hann sækja t.d. dagvistun þrjá daga í viku. Fyrir suma er þessi breyting leikur einn um leið og hún á sér stað en fyrir aðra getur aðlögunin tekið lengri tíma og í sumum tilfellum alls ekki tekist.

Skipulagt félags- og tómstundastarf inná dvalar- og hjúkrunarheimilum þarf að vera fjölbreytt

Á dvalar- og hjúkrunarheimilum býr sá hópur aldraðra sem er að kljást við alvarleg veikindi, mikla skerðingu í hreyfigetu eða minnisskerðingar eins og t.d. alzheimer. Það er því mikilvægt að þar sé í boði skipulagt félags- og tómstundastarf fyrir hinn aldraða sem er fjölbreytt og tekur mið af hans núverandi getu. Með fjölbreytileikanum eru meiri líkur á því að hinn aldraði taki frekar þátt í félags- og tómstundastarfinu þar sem honum býðst eitthvað innan síns áhugasviðs. Það er þó ekki nóg að hafa fjölbreytileikann því það er einnig mikilvægt að geta aðlagað afþreyinguna að núverandi getu hins aldraða svo hann geti tekið þátt. Til þess að geta boðið uppá slík gæði í þjónustunni þarf sá sem hana skipuleggur að hafa þekkingu á því hvaða þættir það séu sem hafa hvetjandi og hamlandi áhrif á þátttöku hins aldraða. Það er því mikilvægt að félags- og tómstundastarf sé skipulagt og stjórnað af þeim sem hafa þekkingu til þess til að hámarka tækifæri hins aldraða til þátttöku. Ýmsar fagstéttir innan heilbrigðis- og félagsvísinda hafa einbeitt sér að þjónustu í félags- og tómstundastarfi fyrir aldraða. Iðjuþjálfar hafa þá sérstöðu að hafa þekkingu til að aðlaga iðju að einstaklingnum og nálgast þjónustuna við einstaklinginn með heildrænni sýn en einnig má nefna tómstunda- og félagsmálafræðinga, félagsráðgjafa, þroskaþjálfa, félagsliða og sjúkraliða.

Guðrún starfsmaður á Hrafnistu

Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir
Iðjuþjálfi með diplómu í öldrunarþjónustu
Deildarstjóri iðjuþjálfunar og félagsstarfs Hrafnistu í Hafnarfirði

Next Page »
Félag fagfólks í frítímaþjónustu
Gerast áskrifandi

Efnistök Frítímanns
brottfall börn Einelti fagmennska foreldrar Forvarnir framhaldsskóli fræðsla Frístundaheimili frístundastarf Frítími fyrirmynd fyrirmyndir Félagsmiðstöð félagsmiðstöðvar félagsstarf jafnrétti kynfræðsla kynlíf landsbyggðin lýðræði netnotkun samfélagsmiðlar Samfés samskipti samvera Sjálfsmynd snjalltæki tómstunda- og félagsmálafræði Tómstundafræði Tómstundastarf Tómstundir tölvunotkun unglingalýðræði Unglingar Ungmennahús ungmennaráð Ungmenni ungt fólk uppeldi áhrifavaldar áhættuhegðun íþróttir útivist þátttaka
Nýleg virkni
Viðburðardagatal
<< Mar 2023 >>
MTWTFSS
27 28 1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31 1 2
Frítíminn - Fritiminn@Fritiminn.is - Allur réttur áskilinn