Bætt samskipti – Betri heimur

Sigrún Vatnsdal Bjarnadóttir

„Það er miðvikudagskvöld og ég er að labba heim úr félagsmiðstöðinni. Palli og Gummi eru á rúntinum. Þeir stoppa bílinn og bjóða mér far. Ég á ekki langt labb eftir heim, en það er rigning úti svo ég þigg farið. Ég sest aftur í. Gummi kemur strax í aftursætið og segir „Ég ætla að ríða þér!“ Þeir rúnta fáfarinn veg á meðan Gummi gerir akkúrat það, og skila mér svo á sama stað og þeir pikkuðu mig upp. Ég geng heim. Segi engum frá. Ég er 15 ára stúlka.“

 „Það er miðvikudagskvöld og ég er að labba heim úr félagsmiðstöðinni. Fimm strákar elta mig uppi og ráðast á mig. Þeir berja mig og sparka í mig. Kalla mig öllum illum nöfnum. Hlæja. Taka það upp á símana sína og senda á vini sína. Fara svo þegar þeir hafa fengið nóg. Ég geng heim. Segi engum frá. Ég er 15 ára strákur.“

Þetta er raunveruleikinn á Íslandi. Þetta eru í alvöru vandamál sem börnin og ungmennin okkar eru að glíma við. Hugsið ykkur! Ungmenni að meiða ungmenni, einbeittur brotavilji. Þetta er gömul saga og ný. Fáir fara í gegnum lífið án áfalla og þau geta haft mismunandi áhrif á daglegt líf fólks. Andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi, einelti, slys eða vanræksla geta sem dæmi haft áhrif á líf barna og ungmenna til framtíðar. Flest þeirra áfalla sem ég nefni hér að ofan eru áföll sem verða af mannavöldum. Skaði sem fólk veldur öðru fólki og eins og áður sagði, viljandi. Hvernig getum við sem samfélag bætt samskipti ungmenna og um leið fækkað áfallasögum?

Heimspekikennsla í forvarnarskyni  
Það er hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, að stuðla að þroska nemenda og efla þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Grunnskólinn á að huga að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Einnig á hann að sinna forvarnarfræðslu til foreldra, starfsfólks og nemenda. Forvarnir eru mikilvægar og geta til að mynda fyrsta stigs forvarnir verið valdeflandi fyrir börn, ungmenni, foreldra og samfélagið í heild.

Grunnskólinn eins og við þekkjum hann í dag leggur þó mesta áherslu á árangur í bóklegum greinum; íslensku, stærðfræði og lestri strax frá 1. bekk. Samfélagsfræði og lífsleikni eru einnig kennd, en með mun minni áherslu. Daglegt líf snýst að miklu leyti um samskipti og hér gæti grunnskólinn gert betur en hann gerir í dag í að efla borgaravitund og hlúa að félagsþroska nemenda.  Fastar kennslustundir í heimspeki frá fyrstu stigum grunnskóla gætu verið góð og gagnleg viðbót inní skólasamfélagið þar sem hópavinna, samræður, rökræður og gagnrýnin hugsun myndi auka á sjálfsvitund, siðgæðisvitund og félagsvitund barna. Heimspeki snýst um mannlega breytni og með henni eflum við bæði samræður og samskipti. Í heimspeki þarf hvorki bók né að taka próf. Nemendur ræða saman ýmist í stórum eða smáum hópum og kennari getur gripið inní þegar þarf. Í stað verkefna á blaði, eins og flest önnur fög í grunnskóla snúast um er hægt að taka á nær öllum málum þjóðfélagsins með samræðum og hópastarfi.

Börn og ungmenni eru alls konar og eiga að fá að njóta þess. Mikilvægt er að samfélagið, skólinn, fullorðna fólkið og foreldrar séu fyrirmyndir sem brýni fyrir börnum sínum og ungmennum að það sé rými í samfélaginu fyrir alla og að allir hafi sama tilverurétt.

Við komumst ekki í gegnum lífið án þess að hafa samskipti og almennt er talið að góð samskipti séu grundvöllur þess að stuðla að betra samfélagi. Til þess að bæta velferð ungmennanna okkar og fækka áfallasögum þurfum við að byrja snemma með forvarnir sem miða að því að bæta samskipti. Það er einlæg trú mín að skipulögð kennsla í heimspeki myndi gera þar gagn.

Sigrún Vatnsdal Bjarnadóttir