Einelti er dauðans alvara …

Að flytja á nýjan stað getur haft margt í för með sér, bæði jákvætt og neikvætt og skiptir þá engu máli á hvaða aldri maður er. Það getur bæði verið spennandi en einnig getur því líka fylgt mikil óvissa, sér í lagi fyrir yngri kynslóðina þar sem að þau eru sífellt í mótun og sum hver þola illa breytingar.

Oft gera börn sér ekki grein fyrir því hvað þau eru að gera þegar að þau taka nýja nemandann fyrir bæði með því að stríða og skilja t.d. út undan. En hvað er það sem veldur því að einstaklingar leggja aðra einstaklinga í einelti? Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu sviði og má finna einn samnefnara í þeim flestum. Niðurstöður rannsókna á einelti sýna það að gerendur eiga það oft sameiginlegt að vera árásarhneigðir og að þeir hafi þannig jákvætt viðhorf til ofbeldis og annara verka í þeim dúr. Einnig benda niðurstöður til þess að sami hópur (gerendur) hafi upplifað minni hlýju og minni jákvæðan stuðning frá foreldrum sínum öfugt við aðra jafnaldra þeirra. Oft er það líka þannig að gerendur eineltis hafa jafnvel áður staðið hinu megin við línuna, þ.e.a.s. verið þolendur eineltis á einhverjum tímapunkti. En hverjir eru það þá sem verða fyrir einelti?

Þegar niðurstöður rannsókna á þolendum eineltis eru skoðaðar kemur margt í ljós. Börn og ungmenni sem verða fyrir einelti eiga það yfirleitt sameiginlegt að vera óöruggari en önnur ungmenni, viðkvæmari og hæglátari ásamt fleiri þáttum. Oft virðist það líka vera nóg að þykja aðeins öðruvísi, að vera ekki eins og allir hinir, þó svo að rannsóknir hafi sýnt fram á að þolendur eineltis eru yfirleitt ekki frábrugðnir öðrum krökkum í útliti. Eini marktæki munurinn er sá að þolendur eineltis eru jafnan veikbyggðari en jafnaldrar þeirra.

Það hafa eflaust flestir einhvern tímann heyrt sögur af því hvernig er að vera nýi unglingurinn í bekknum. Að vera ungur drengur og flytjast á nýjan stað ásamt móður sinni og stjúpföður, nýtt systkini á leiðinni og þekkja engan á nýja staðnum. Að mæta fyrsta skóladaginn sem nýi strákurinn í bekknum getur tekið á ef hann er ekki samþykktur sem einn af hópnum. Það að flytja úr öðru bæjarfélagi yfir í annað gerir þig strax öðruvísi en þeir sem eru þar fyrir, sérstaklega ef um er að ræða minni bæjarfélög út á landi. Það eitt og sér getur gert einstaklinga óörugga því óvissuþættirnir geta verið margir. Að mæta í skólann og vera strax tekinn fyrir sem nýi nemandinn býður upp á brotið sjálfstraust og beygða sjálfsmynd.

Það ætti ekki að fara fram hjá neinum að áhrif eineltis getur haft langvarandi áhrif á líðan og heilsu einstaklinga og eru margir hverjir að vinna í sínum málum jafnvel áratugum eftir að einelti lýkur. Sjálfur var undirritaður einn af þeim ungmennum sem flokka mætti sem þolanda eineltis á sínum yngri árum. Sjálfur þurfti ég þvingandi að sýna mig og sanna svo ég yrði viðurkenndur af hópnum og í kjölfarið að losna við þann stimpil sem fylgdi því að vera nýi strákurinn. En ég er langt frá því að vera eitthvað einsdæmi í þessum málum og snýst þessi grein alls ekki um mig. Þó svo ég hafi fundið leiðir til að sigrast á eineltinu og öllu sem því fylgdi, á það svo sannarlega ekki við um alla og er það virkilega sorgleg staðreynd.

Þá má því velta fyrir sér hvað sé til ráða þegar kemur að eineltismálum. Undirritaður er á þeirri skoðun að efla þurfi fræðslu og forvarnir enn betur en gert er nú þegar til þess að börn, ungmenni og fullorðnir geri sér grein fyrir því hvað einelti getur haft í för með sér, því einelti er alltaf dauðans alvara.

Stöndum saman – Stöðvum einelti.

Kári Olsen