Félagsmiðstöð.xlsx

gislifelixHugtakið félagsmiðstöð er flestum kunnugt og skilgreina það eflaust margir út frá þeirri  aðstöðu sem þar má finna. Að félagsmiðstöðin sé eins konar „hangout“ unglinga þar sem þeir geta hist, spilað borðtennis og pool og mætt á böll. Raunin er sú að í félagsmiðstöðvum er unnið margþætt starf sem allt miðar að því að efla unglinginn sem einstakling og hjálpa honum að móta með sér heildstæða sjálfsmynd. Þarfir unglinganna sem félagmiðstöðina sækja eru fjölbreyttar og ólíkar og tekur starfið ávallt mið af þessum þörfum. Það þýðir að starfsemi félagsmiðstöðvarinnar er síbreytileg og eiga unglingarnir sjálfir stóran þátt í að móta hana í samvinnu við starfsfólk.

Síðustu ár hefur mikil þróun átt sér stað í starfi félagsmiðstöðva á Íslandi og hafa kröfur hins opinbera um gæði og innihald aukist samhliða. Þrátt fyrir það er þessi starfsemi ekki enn bundin í lög á Íslandi og hafa forstöðumenn þar af leiðandi þurft að berjast með kjafti og klóm til þess að halda opnunartíma félagsmiðstöðvanna óbreyttum. Í flestum tilfellum hefur það ekki tekist og hefur því þurft að skerða opnunartíma og vinnutíma starfsfólks verulega.

Algengasta form kvöldopnunar félagsmiðstöðva í dag er þannig að opið er tvö kvöld í viku (t.d. þriðjudaga og fimmtudaga) og annað hvert föstudagskvöld. Félagsmiðstöðvar sem hafa opið öll föstudagskvöld eru í miklum minnihluta. Á höfuðborgarsvæðinu er algengt að einnig sé opið frá hádegi fram að kaffi eða svokallaðar síðdegisopnanir. Undirritaður hefur lengi velt vöngum yfir þessu og furðað sig á hvernig þessar ákvarðanir eru teknar. Skyldu unglingar hafa eitthvað um það að segja hvenær félagsmiðstöðin þeirra skuli vera opin?

Í félagsmiðstöðvum á Íslandi er unnið eftir hugmyndafræði unglingalýðræðis og mætti því ætla að unglingarnir væru hafðir með í ráðum þegar kemur að ákvarðanatöku sem snýr að þeirra eigin starfi. Einnig eru í felstum sveitarfélögum í dag starfandi ungmennaráð sem ætlað er að vera ráðgefandi fyrir hið opinbera í málefnum ungmenna og væri tilvalið að leita til þeirra með þessi mál. Sé það ekki gert nú þegar þarf að breyta því hið snarasta að mati þess sem hér skrifar.

En til hvaða þátta skyldi vera horft þegar ákvarðanir eru teknar um starfsemi félagsmiðstöðva? Tíðkast hefur að skrá fjöldatölur víða í félagsmiðstöðvum hér á landi. Þannig má með góðu móti sýna fram á hvernig aðsóknin er og færa með því rök fyrir lengdum opnunartímum. Fjöldatölur eru góðar upp á þetta að gera en það eru fleiri þættir sem skipta máli þegar meta á mikilvægi starfsins. Það að ná inn tveimur nýjum einstaklingum í félagsmiðstöðina á annars fámennu kvöldi getur reynst stærri sigur en að halda ball sem allir heimalningarnir mæta á.

Hinn raunverulega árangur starfs eins og þess sem unnið er í félagsmiðstöðvum landsins er ekki hægt að meta í excel skjölum, ársskýrlum og fjöldatölum (þó slík tæki geti verið til margs gagnleg). Árangurinn sjáum við sem þar vinnum oft ekki fyrr en nokkrum árum eftir að þeir unglingar sem sóttu starfið hafa lokið grunnskóla og hætt að mæta í félagsmiðstöðina. Undirritaður getur rennt stoðum undir þessa fullyrðingu með tilliti til eigin reynslu sem þátttakandi og síðar meir starfsmaður í félagsmiðstöð.

Einn mikilvægasti þátturinn í starfi félagsmiðstöðva er að starfið er skipulagt af unglingum, fyrir unglinga. Félagsmiðstöðin er tilraunavettvangur þar sem allir unglingar fá tækifæri til að máta sig inn í ólík hlutverk og finna hvað hentar þeim. Félagsmiðstöðin er mikilvægur þáttur í þroskaferli unglingsins og þeir sem fara með ákvörðunarvald í málefnum félagsmiðstöðva verða að kalla eftir og hlusta á raddir unglinganna sem sækja þær. Það gengur ekki að svo mikilvægt starf lendi alltaf undir í niðurskurði hins opinbera og þurfi sífellt að staðfesta tilverurétt sinn sem ætti að vera orðinn öllum ljós.

Gísli Felix Ragnarsson, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ