Freistar síminn í óspennandi kennslu?

ingimarFyrir nokkru rakst ég á grein inni á heimasíðu Ríkisútvarpsins þar sem Guðríður Arnardóttir formaður Félags framhaldskólakennara fór yfir símanotkun unglinga. Í þeirri grein er fyrirsögnin „Kennarar varnarlausir gagnvart símum nemenda“. Guðríður er á því að nemendur séu með símann uppi allan daginn í skólanum. Sjálfur finnst mér það vera nokkuð líklegt ef ég hugsa til baka um mína skólagöngu og sögur frá öðrum einstaklingum. Umræðan sem Guðríður tekur fjallar meira um öryggi kennara og hvernig símanotkun unglinga getur ógnað persónulegu lífi þeirra. Kennarar hafa leitað til hennar og sambandsins „þar sem tekin hafa verið upp samtöl, hljóð- eða myndbrot af þeim án þeirra vitundar.“

Þetta hefur haft þær afleiðingar að kennarar eru sumir hverjir farnir að halda aftur af sér og passa sig að fara ekki út í viss málefni vitandi af unglingunum tilbúnum að taka það allt upp. Guðríður segir að hún og þau hjá sambandinu hafi „séð myndir af kennara í kennslustund og fyrir neðan eru skrifaðar ósmekklegar athugasemdir og myndunum dreift á stóran hóp nemenda í skólanum. Það eru svona hlutir sem kennarar eru mjög varnarlausir gagnvart.“

Þegar þessi umræða hefur verið tekin finnst mér mikilvægt að önnur umræða verði tekin upp í kjölfarið. Hvernig lögum við ástandi? Hvaða aðferðir þarf að nota? Á að banna alla símanotkun? Eða kenna unglingum hvernig hægt er að skemma orðspor fólks með svona löguðu? Eða viljum við reyna að breyta þessari neikvæðu símahegðun í eitthvað jákvætt? Verðlaun fyrir nemendur sem tala best um kennarann sinn?

Ég er og hef alltaf verið þeirra hugsunar að mikilvægt er sé finna lausn á vandamálum sem þessum. Ég hef enga trú á því að banna síma væri rétta svarið. Frekar væri ég til í að sjá einhverskonar verkefni sem myndi fela í sér skilning unglinga á að þetta sé ekki rétt. Það gæti samt sem áður verið krefjandi – og jafnvel ekki passað inn í skólakerfið. Að breyta símahegðuninni úr neikvæðri yfir í jákvæða gæti verið eitthvað. Hvetja nemendur til þess að hrósa kennurum? En að sama skapi gæti það ekki haft langvarandi áhrif.

Hvað myndi ég gera? Útinám og útikennsla! Allavega myndi ég vilja skoða það frekar. Ástæðan fyrir því að ég tel að sú nálgun myndi henta er persónuleg reynsla. Tveimur dögum áður en ég las þessa umfjöllun Guðríðar hafði ég, ásamt þremur öðrum nemendum úr Háskóla Íslands, tekið á móti framhaldsskólanemendum í Háskólaherminum. Viðfangsefnið var útinám og umhverfi svo auðvitað tókum við hópinn út. Hvernig kemur það símanotkun við?

Nemendurnir sem komu til okkar voru í kringum 170 talsins og var þeim skipt í 10 hópa.  Hver hópur samanstóð af 16-18 einstaklingum og voru þetta því 10 kennslustundir, um 45 mínútur hver. Við spurðum alla hópana eftir hverja kennslustund hvort þau hefðu gerst sek um það að kíkja í símann í tíma og ef svo var þá áttu einstaklingar að rétta upp hönd. Grófleg talning sýndi að 168 einstaklingar höfðu gert það. Við spurðum síðan hvort þau hefðu gerst sek um það að taka upp símann á öðrum stað hjá öðrum sviðum í Háskólaherminum. Þar kom sama talan upp. Nánast hver og einn einstaklingur hafði tekið upp símann í kennslustundum í Háskólaherminum. Þegar við spurðum hvort þau hefðu tekið upp símann hjá okkur réttu 3-4 af 170 upp hendina.

Ef þrír háskólanemendur geta kennt 170 framhaldskólanemum þar sem nánast enginn tók upp síma í 45 mínútna kennslustund, þá tel ég að framhaldskólakennarar eigi að geta það líka. Kannski er bara kominn tími til þess að breyta kennsluháttum og reyna að vera í takt við nútíma samfélag og breytingar þess.

Ingimar Guðmundsson, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ