Geta uppeldishættir haft áhrif á sjálfsmynd unglinga?

Unglingsárin geta verið flóknustu ár ævinnar, miklar breytingar eru á þeim tíma og má þar nefna kynþroskaaldurinn. Á kynþroskaaldrinum verða miklar breytingar á andlega, tilfinninga og félagsþroska okkar. Sjálfsmyndin er mikilvæg á unglingsárum og því er mjög gott að hafa góða sjálfsmynd. Þroskun hennar skiptir miklu máli á unglingsárum og er það eitt helsta verkefni þeirra að þroska og uppgvöta sjálfsmynd sína. Hún hættir aldrei að þroskast, hún getur breyst og þroskast með þeim nýju hlutverkum sem einstaklingurinn tekur sér fyrir hendur, mismunandi aðstæður sem það er í og þær breytingar sem verða á lífi einstaklingsins. Sjálfsmyndin byggist upp í samskiptum og með auknum þroska, meðvitund og félagslegum kröfum (Demo,1992).

Uppeldishættir foreldra hafa mikil áhrif á sjálfsmynd unglingsins og er því mikilvægt að foreldrarnir séu meðvitaðir um það og reyni að gera sitt besta í því að hafa góð áhrif á sjálfsmynd þeirra þar sem hún mótast alla ævi. Unglingurinn þarf mikinn stuðning á unglingsárunum vegna þess að hann getur upplifað mikla óvissu og uppreisn og getur það einnig haft áhrif á hvernig hann horfir á sjálfan sig. Margar rannsóknir hafa sýnt það að þeir foreldrar sem notast við leiðandi uppeldishætti hafi góð áhrif á sjálfsmynd unglingsins þar sem hann sýnir sjálfstæði, meiri ábyrgð og er með meiri sjálfsvirðingu en aðrir unglingar. Þeir foreldrar sem eru í góðum samskiptum við börnin sín eru á sama tíma að efla sjálfsmynd og bæta líðan þeirra, ef þeir fá ekki nægilega athygli heima fyrir eða eiga ekki gott samband við foreldra getur það haft gríðarlega slæm áhrif á sjálfsmynd og líðan unglingsins.

Það getur verið auðvelt að sjá hvort að unglingar séu með brotna eða mjög góða sjálfsmynd, en svo er líka oft sem unglingar þykjast vera einhverjir aðrir en þeir eru og þá er líklegt að hún sé ekki nógu góð. Þeir sem bera sig stöðugt saman við aðra og hafa þörf á að tala illa um aðra til þess að upphefja sjálfan sig eru t.d. þeir sem eru ekki með góða sjálfsmynd. Mér finnst því mikilvægt að grípa inn í ef maður tekur eftir þessum einkennum hjá unglingum og reyna að komast að því hver ástæðan sé fyrir þessari hegðun og hvort það sé hægt að bæta hana.

Sem unglingur þá átti ég mjög gott samband við foreldra mína og þau reyndu að gera allt til þess að mér myndi líða vel með sjálfa mig, ég er ekki frá því að sjálfsmynd mín hafi verið betri vegna þess hversu mikið foreldrar mínir tóku þátt í mínu lífi og sýndu því áhuga. Ef ég hugsa til baka þá hefði ég ekki viljað hafa sambandið milli mín og  foreldra minna neitt öðruvísi þar sem ég er á góðum stað í dag. Foreldrar mínir notuðu leiðandi uppeldishætti og get ég sagt að það hafi virkað vel á mig þar sem ég er mjög sjálfstæður einstaklingur og með gott sjálfstraust. Gott samband við systkini hefur líka mikið að segja um hversu góð sjálfsmynd okkar er. Ég tel að mikilvægt sé að foreldrar kynni sér uppeldisaðferðir og fari eftir þeim uppeldisaðferðum sem sýna besta árangurinn í uppeldi unglingsins.

Sjöfn Steinsen, nemandi í uppeldis og menntunarfræði við HÍ

 

Heimildaskrá

Erikson, E. H. (1968). Identity: Youth and crisis. London: W. W. Norton & Company.

Demo, D. H. (1992). The self-concept over time: research issues and directions. Annual Review of Sociology, 18, 303-326.