Hafa íþróttir góð áhrif á líðan unglinga?

Unglingsárin eru mikilvægur tími í lífi hvers einstaklings og á þeim tíma skiptir máli fyrir félagsstöðu viðkomandi að tilheyra hópi. Á þessum árum er mikið að gerast hjá hverjum og einum bæði hvað varðar líkamlegan þroska og andlegan og því er gott að umgangast fólk sem hefur góð áhrif á líðan og þar sem einstaklingur getur verið hann sjálfur.

Mikil vitundavakning hefur orðið í samfélaginu hvað varðar heilbrigðan lífsstíl og er meirihluti unglinga í dag sem taka þátt í íþróttastarfi og/eða tómstundum af einhverju tagi. Unglingar eru orðnir mun upplýstari en áður um það hvað heilbrigður lífsstíll felur í sér en það er ekki einungis hreyfingin sem skiptir máli heldur einnig hollt og gott mataræði. Aðgengi að efni tengdu heilbrigðum matarvenjum er orðið mun aðgengilegra en áður og því auðveldara fyrir einstaklinga að afla sér upplýsinga.Meiri íþróttaþátttaka tengist betri námsárangir, betri andlegri og líkamlegri líðan, jákvæðari líkamsmynd og meiri sjálfsvirðingu. Unglingar sem stunda íþróttir reglulega eiga í minni hættu á að dragast út í áhættuhegðun, þeir eru ólíklegri en jafnaldrar þeirra sem ekki stunda íþróttir til að sýna neikvæða hegðun. Einnig eru skipulagðar tómstundir í umsjón fagaðila, sem unglingarnir geta litið upp til, taldar hafa forvarnagildi gegn frávikshegðun eins og afbrotum, vímuefnaneyslu og ofbeldi. Að vera með vinum og jákvæðu fólki að stunda sameiginlegt áhugamál í góðu og hvetjandi andrúmslofti bætir líðan einstaklinga.

Einstaklingar sem stunda íþróttir eru í minni hættu á að þróa með sér offitu ásamt öðrum heilsufarsvandamálum sem geta fylgt því að vera í yfirþyngd. Minni líkur eru á að þeir einstaklingar verði fyrir einelti þar sem börn og unglingar í yfirþyngd verða oftar þolendur eineltis en börn og unglingar í kjörþyngd. Eineltið á sér gjarnan stað á skólalóðinni eða á æfingum og getur það verið ein ástæða þess að börn í yfirþyngd finni sér ekki stað í neinum greinum og haldi sig frekar heima við og finna sig betur í tölvuleikjum eða við sjónvarpið.

Persónulega tel ég það að stunda íþróttir eða tómstund hafi góð áhrif á líðan unglinga. Það er staður sem allir eru velkomnir á og flestir hafa svipuð markmið. Þjálfari, kennari eða eldri æfingafélagi verður oft aðili sem unglingar líta upp til, en að hafa jákvæða fyrirmynd á þessum aldri getur hjálpað unglingunum að átta sig á því hverjir þeir eru eða vilja verða.

Á þessum aldri leitast einstaklingar við að finna út hverjir þeir eru og hvað þeir standa fyrir og því er mikilvægt að hafa góða fyrirmynd. Ef þeir hafa góða fyrirmynd er einfaldara að finna svar við stóru spurningunni „hver er ég?“ sem allir unglingar eru að leita svara við á þessum tíma.

Sjálf hef ég alltaf verið virk frá því ég var barn og unglingur og prófaði mig áfram í hinum ýmsu greinum og kynnst þar af leiðandi mörgum skemmtilegum einstaklingum sem ég hef ennþá sambandi við í dag. Í dag skipulegg ég vikuna út frá mínu áhugamáli og hlakka ég mikið til á hverjum degi að komast á æfingar. Bæði til að hitta fólkið sem ég æfi með og finna fyrir þeirri vellíðan sem fylgir því að hreyfa sig. Kostirnir sem taldir voru upp hér að ofan sýna að það hefur góð áhrif á líðan barna, unglinga og fullorðins fólks þegar það hreyfir sig í góðum vinahópi.

Svandís Viðja Víðisdóttir