Hvað er kynlíf?

Laufey Ösp Kristinsdóttir

Í nútímasamfélagi höfum við greiðan aðgang að ýmsum upplýsingum. Við getum fundið allar heimsins upplýsingar með örfáum fingurstrokum. Allt frá því hvað gerist í jáeindaskanna til ráða um hvernig skal best sjóða egg. En af hverju þykjumst við sem samfélag vita svona lítið um kynlíf? Varla vegna skort á upplýsingum? Kannski vegna lélegra kynfræðslu í grunnskóla? Óþægilegt og tabú umræðuefni sem enginn fullorðinn vill taka að sér? Tala nú ekki um þegar hinseginkynlífi er blandað inn í myndina. Þá fyrst fara allir í keng. Að stunda kynlíf í fyrsta skiptið er nefnilega eitthvað sem flest öll ungmenni koma til með að hugsa um. Hvernig verður það? Hvað mun gerast? Hvað á ég að gera? Hvað á ég ekki að gera? Spurningarnar eru endalausar. Fyrir ungmenni í hinseginpælingum hljóma spurningarnar eins. Þannig af hverju er ekki talað um hinseginkynlíf líka?

Það er vitað mál að kynfræðsla í grunnskólum landsins er mjög ábótavant. Persónulega fékk ég litla sem enga formlega kynfræðslu í grunnskóla. Það litla sem ég vissi hafði ég aflað mér sjálf upplýsinga um á bókasafninu, nördið sem ég var, því forvitnin var mikil en enginn vildi segja mér frá. Ég man eftir síðustu kynfræðslunni minni, þá 16 ára gömul. Við lærðum að setja smokk á banana og okkur var sýndar ógeðfelldar myndir af kynfæravörtum. Ég man hvað mér fannst þetta skrítin fræðsla. Ég hugsaði strax; hvað ef það eru engin typpi með í myndinni? Hvað ef tvær stelpur ætla að stunda kynlíf? Hvernig verjur nota þær? Varla smokk… Hvað gera þær? Er það þá ekki “alvöru” kynlíf? Því það er ekkert typpi? Hvað er kynlíf?

Ef flett er upp orðinu kynlíf á www.snara.is kemur upp eftirfarandi skýring:

ástalíf, kynferðislíf, sá samlífsþáttur kynjanna sem einkum er tengdur kynhvötinni

Þetta segir okkur ekki mikið. Hinsvegar, ef flett er upp orðinu samfarir kemur eftirfarandi skýring:

kynmök með því að limur karlsins fer í leggöng konunnar, samræði.

       
Það er augljóst að í þessari skilgreiningu ríkir töluverð gagnkynhneigðarhyggja. Þegar talað er um kynlíf er yfirleitt átt við gagnkynja kynlíf, þ.e. typpi-í-leggöng. Það er ekki gert ráð fyrir því að einstaklingar með sömu kyneinkenni stundi kynlíf. Yfirleitt er aðeins talað um gagnkynja kynlíf í kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Við fengum enga fræðslu um það hvernig tvær sís-konur eða tveir sís-karlar stunda kynlíf, hverskonar varnir eru til fyrir þau, við hverju má búast þegar þar að kemur, og lykilatriði; að slíkt kynlíf sé yfirhöfuð í boði. Það er grátlegt hversu algengt það er að kynlíf samkynja einstaklinga sé stimplað sem ekki „alvöru kynlíf“ eða aðeins „forleikur“ því þá á sér ekki í stað týpíska (og úrelta) skilgreiningin á kynlífi, typpi-í-leggöng. Þetta er því miður algengur misskilningur um hinseginkynlíf hjá ungmennum. En hvað er þá kynlíf?

Kynlíf er jákvæð, falleg og samþykkt kynferðisleg reynsla sem þú upplifir með öðrum einstaklingi, af hvaða kyni sem er, þar sem þið deilið líkama ykkar með snertingum. Oftast er markmið að fá eða gefa fullnægingu, en þó ekki nauðsyn.

Þessi lýsing á einnig við um hinseginkynlíf. Ég vil að ungmenni í dag viti að kynlíf þarf ekki að vera typpi-í-leggöng. Kynlíf er allskonar. Kynlíf er persónubundin og öðruvísi upplifun fyrir hvern og einn einstakling. Þú ert ekki að „missa“ neitt heldur öðlast reynslu. Þetta á ekki að vera neitt til þess að metast um, enda mismunandi hvenær hver og einn er tilbúinn til þess að deila þessari reynslu með öðrum einstaklingi. Með kynlífi geta fylgt ýmsir kynsjúkdómar. En ef viðeigandi varnir eru notaðar á ábyrgan hátt þarf ekkert að óttast. Það er því mikilvægt að ungmenni fái fræðslu um allar tegundir kynlífs, hvernig varnir standa þeim til boða svo þau geti, þegar þau eru tilbúin, stundað ábyrgt kynlíf.

Ég tel að það sé okkar ábyrgð sem tómstundafræðingar að betrum bæta þessa fræðslu, þrýsta á skóla og félagsmiðstöðvar að halda fræðslu og/eða bjóða upp á fræðslukvöld fyrir ungmenni um öruggt kynlíf, hvort sem það er hinsegin eða ekki.

Laufey Ösp Kristinsdóttir