Hvar á að geyma geðveikina?

Það er að verða mun algengara að börn og unglingar greinast með geðræna sjúkdóma í dag. Það er misjafnt eftir löndum hversu góð úrræðin eru fyrir þá einstaklinga. Þótt hér á landi hafi verið brugðist við úrræðum fyrir geðsjúk ungmenni á undanförnum árum,  þá er enn ansi langt í land að þau verði á þeim stað sem þau ættu að vera á. Úrræðin eru svakalega fá og á meðan fjölgar þeim ungmennum sem eiga við geðræn vandamál að stríða. Úrræðaleysi stjórnvalda er talsvert og það þarf að gera varanlegar ráðstafanir áður en meiri skaði hlýst af.

Barna -og unglingageðdeild (BUGL) tekur á móti börnum og unglingum sem eiga við geð og hegðunarvandamál að stríða. En það er mjög takmarkað hversu margir komast að og fá aðstoð. Af hverju? Það er vegna þess að það vantar bæði pláss og fjármagn til þess að veita þá aðstoð sem krakkarnir þurfa á að halda. Það er algjörlega fáránlegt því geðsjúkdómar eru með þeim algengustu sjúkdómum sem eru ríkjandi í dag.

Unglingsárin geta verið rosalega erfiður og viðkvæmur tími. Það getur því oft verið erfitt fyrir unglinga að leita sér hjálpar. Það að þeir fá svo jafnvel ekki þá hjálp sem þeir þurfa getur komið þeim enn lengra á þann stað sem þeir ættu ekki að stefna að, á botninn. Það er nefnilega svo oft þannig að geðsjúkdómar og einkenni þeirra eru allsráðandi og foreldrar og aðrir sem ekki eru fagaðillar ráða ekki við þá. Þess vegna er mikilvægt að úrræðin séu til taks þar sem afleiðingar geðsjúkdóma án hjálpar geta verið hræðilegar. Ég var unglingur sem greindist með geðsjúkdóma. Ég leitaði mér ekki hjálpar hjá BUGL heldur fór ég beint niður á geðdeild LSH þegar ég þurfti á sem mestu hjálpinni að halda. Þar tók líka við nokkurra mánaða bið. Sá tími var rosalega erfiður. Biðin var svo löng og manni leið ömurlega eftir að hafa leitað sér hjálpar og fá svo ekki þá hjálp sem maður var að leitast eftir.

En hvað er hægt að gera í þessu? Geðsjúkdómar eru ekki eins viðurkenndir hér í samfélaginu eins og aðrir sjúkdómar sem er fáránlegt af svo mörgum ástæðum. Maður verður svo reiður vegna þess að ef þeir sem eru veikir á geði fá ekki viðeigandi hjálp getur það haft svo alvarlegar afleiðingar í för með sér. Að lifa með geðsjúkdóm er nefnilega rosalega erfitt og hefur ekki bara áhrif á mann sjálfan heldur líka alla sem eru í kringum mann.

Stjórnvöld hafa lítið sem ekkert stutt við þá sem eru veikir á geði hér á landi. Ríkið veitir varla fjármagn eða meðferðarpláss til að hjálpa. Hve mikið þarf að gerast svo það verði gert eitthvað í málunum? Hversu margir þurfa að lenda á botninum eða jafnvel hverfa í annan heim ?  Árið er 2017 og hlutirnir eiga að vera þróaðari en þetta. Þeir unglingar sem veikir eru á geði eiga ekki að þurfa að bíða í marga mánuði eftir hjálp. Þó þeir fái ekki topp meðferð þá eiga að vera einhver önnur úrræði!

Á meðan þeir bíða … hvar eiga þeir að geyma geðveikina ?

Kristín Rán Júlíusdóttir