Hvar eru unglingarnir?

Það á við um mína kynslóð, sem og þær sem á undan hafa gengið, að okkur finnst allt hafa verið betra þegar við vorum að alast upp. Ég, ásamt flestu fólki sem er staðsett núna miðja vegu milli þrítugs og fertugs, sé tíunda áratug síðustu aldar baðaðan gylltum ljóma. Hreinlega allt var betra þá; tónlistin, tískan, veðrið, tæknin/tæknileysið, nefndu það. Tíundi áratugurinn var það fullkominn að nánast væri hægt að ræða um útópíu í þessu samhengi. Eða hvað?

Gjarnan heyri ég því fleygt fram að þegar við vorum yngri hefðum við alltaf verið úti. Fyrst vorum við úti að leika okkur og á unglingsaldri vorum við að mæla göturnar og, best af öllu, hanga í sjoppunum. Í dag teljum við okkur trú um að börn á þessum aldri geri hreinlega ekki neitt. Við sjáum þau ekki úti, við sjáum þau ekki í sjoppunni, enda eru þær flestar á bak og burt. Þau hljóta að vera að gera eitthvað hræðilegt, ef þau eru hreinlega að gera eitthvað. Jú, það eru allar líkur á því að þau séu í tölvunni, ég tel það nær öruggt. Líklega eiga þau varla í nokkrum samskiptum við annað fólk, nema í gegnum tölvur.

Sjoppumenningin var, að mati okkar „næntís krakkanna“, náttúrulega hápunktur unglingamenningar, í sögulegu samhengi. Við hljótum öll að geta sammælst um það. Henni fylgdi gjarnan unglingadrykkja og reiðileysi. En samt minnumst við hennar með hlýju. Það er merkilegt hvað fjarlægðin gerir fjöllin blá. Oftar en ekki heyrist: ,,hvar eru unglingarnir eiginlega? Þegar ég var unglingur vorum við alltaf úti eða í sjoppunni.“

Það er auðvelt að skella skuldinni á tæknina og samfélagsmiðla, en ég held að þegar betur sé að gáð er sú staðreynd sú að sterkar félagsmiðstöðvar og sterkt frístundastarf fyrir unglinga sé stóri galdurinn í þessari jöfnu. Það er nokkuð ljóst að þau ungmenni sem stunduðu sjoppumenninguna hvað grimmast féllu síður inn í það tómstundastarf sem í boði var á þessum tíma. Og þar var ekki um auðugan garð að gresja. Einu tómstundir sem hægt var að iðka í mínu bæjarfélagi, þegar ég var barn og unglingur voru körfubolti, fótbolti og badminton. Ef svo vildi til að einstaklingur fann sig ekki innan þessara þriggja greina var lítið við að vera. Þannig er skiljanlegt að unglingar þess tíma hafi hópast saman á þeim stað, innan dyra, sem hægt var að hittast í hóp. Varla er hægt að segja að um uppbyggilega iðju hafi verið að ræða.

Í dag eru tækifærin fyrir ungmenni margföld, til þess að finna sér tómstundir við sitt hæfi, miðað við fyrir 20-30 árum síðan. Nú eru ekki einungis íþróttir í boði og lítið fyrir þá einstaklinga sem finna sig ekki í þeim. Nú er eitthvað í boði fyrir alla, faglegt starf um allt land sem er styrkjandi og fyrirbyggjandi, töluverð mótsögn við sjoppurnar og landabrúsana. Margs konar kúbbar og mismunandi félagsmiðstöðvar. Það er víst bara staðreynd að fólk á mínum aldri þekkir fæst hvað það er sem fer fram innan félagsmiðstöðva. Það hefði verið kjörið fyrir þá sem mest héngu í sjoppunni að fara í félagsmiðstöð og finna hæfileikum sínum farveg. Að finna mikilvægi sitt í samfélaginu. Að finna að þú getur látið rödd þína heyrast og hæfileikana blómstra.

Þannig að, ef þú ert að leita að unglingunum; kíktu í félagsmiðstöðina.

Unnur Rán Reynisdóttir