Leyfum unglingum að mistakast og kennum þeim mikilvægi þess

Mistök eru misskilin af mörgum. Þau eru talin slæm og það er sagt okkur að forðast þau. En margir átta sig ekki á því að mistök eru í raun gjöf til þess að læra og gera betur. Stundum geta mistök jafnvel verið það besta í stöðunni. Því hvernig getum við vitað að við séum að gera hlutina rétt ef við gerum aldrei mistök? Í þessari grein langar mér að leggja áherslu á mikilvægi þess að mistakast. Þetta á við alla aldurshópa en ég vil leggja sérstaka áherslu á mikilvægi þess að unglingar samþykki mistök sín og nýti þau til góðs því það getur gefið þeim mikið forskot á sína framtíð.

Nútíminn og áhrif hans á viðhorf mistaka
Í hraða heimi nútímans og tilkomu samfélagsmiðla er auðvelt að detta inn í þá hugsun að maður sé ekki að gera nóg og þá líka að maður sjálfur sé ekki nóg. Í gamla daga var meiri harka og minni tími til þess að velta sér of lengi upp úr hlutunum. Einnig var miklu minna upplýsingaflæði á milli unglinga og það má spyrja sig að því hvort að það hafi verið gott eða slæmt. Samfélagsmiðlar eru stór partur af samskiptum unglinga í dag og pressan við það að vera ekki nóg lætur marga unglinga fela sig í stað þess að mæta heiminum í allri sinni dýrð. Margir eiga erfitt með að gera það sem þeim langar vegna þess að þau eru hrædd um að gera mistök, vera asnaleg eða gera sig að fífli. En ef þú gerir aldrei neitt, þá gerist aldrei neitt. Þegar ég var unglingur átti ég mjög erfitt með að gera mistök og gat velt mér upp úr þeim endalaust. Með aldrinum og annarri reynslu eins og meðal annars leiklistarnámi þá lærði ég það að oft eru mistök það besta sem við getum gert. Ég átti kennara í leiklistarnáminu mínu sem var alltaf að vitna í tilvitnun frá Samuel Becket leikritahöfund en hún var svona: Ever tried? Ever failed? No matter, try again. Fail again? Fail better. Þessi tilvísun hefur setið í mér síðan þá og ég minni mig oft á hana þegar mér finnst það eiga við.

Sambönd skipta miklu máli á unglingsárum.
Þegar barn þroskast og kemst á unglingsárin þá eru þau orðin mjög meðvituð um sína eigin getu og hæfileika. Það hefur síðan mikil áhrif á það hvernig unglingurinn nálgast lífið. Sambönd skipta miklu máli á unglingsárunum, að mynda sjálfsmynd með sjálfum sér og öðrum. Hvar passa ég inn í samfélagið? Hefur annað fólk áhuga á mér? Er ég góð/ur í einhverju sem gæti hjálpað mér að skera mig úr hópnum? Félagsleg tengsl á unglingsárum krefjast mikillar seiglu. Unglingar eru oft rosalega meðvituð um sjálfa sig og þá skiptir félagslegt öryggi og samþykki miklu máli en það hefur síðan áhrif á það hvernig unglingurinn lítur á mistök. Ég tel að margir unglingar haldi aftur af sér útaf þessari hræðslu um að gera mistök.

Seigla og að gefast aldrei upp þrátt fyrir mótlæti
Nýlega las ég ævisögu Kevin Hart, uppistandara, leikara og Hollywood stórstjörnu. Sagan segir frá honum og hvernig hann gafst aldrei upp á sínum draum á að verða uppistandari. Í mörg ár mætti hann á mismunandi bari og var með uppistand þar sem oft fékk hann ekki einn einasta hlátur. Hann sótti um endalausar prufur en alltaf var honum vísað í burtu. Hann gerði endalaus “mistök” og hann er mjög hreinskilinn með þau í bókinni sinni en núna í dag er hann einn frægasti grínisti Bandaríkjana. Hann segir að aðal ástæðan fyrir því var að hann gafst ekki upp þegar hann gerði mistök heldur notaði hann þau til þess að læra eitthvað nýtt og breyta því sem hann var að gera til hins betra. Boðskapur bókarinnar er í raun að gefast aldrei upp, þrátt fyrir að þér mistakist.

Uppeldi foreldra hefur áhrif
Það er mikilvægt að allir hugsi ekki um hugtakið mistök sem neikvætt. Sem foreldri vill maður alltaf passa barnið sitt frá þeim sársauka við að gera mistök. Mistök unglinga er mikilvægur þáttur í þroska þeirra að verða fullorðin. Velgengni á fullorðinsárum veltur mikið á því að unglingar læri að takast á við mistök og viti að mistök eru fullkomlega eðlileg og partur af lífinu. Mistök láta okkur sjá betri leið og leiða okkur að því að hugsa gagnrýnt og fara út úr okkar þægindaramma. Ef mér mistókst, hvað get ég gert til þess að sigra næst? Erik Fisher sálfræðingur sagði: Teaching our kids to see the opportunity in what felt like tragedy, that’s when we become better participants in life rather than people who would rather not play the game at all than play the game and lose.

Hvernig geta mistök verið góð?
Í fyrsta lagi er rétt að minnast á það að allir gera mistök og mörg í gegnum lífið. Svo það er alveg eins gott að byrja að samþykkja þín strax og nýta þau til góðs. Að gera mistök lætur þig þroskast og kennir þér að leita nýrra leiða, að kafa dýpra í það sem þú ert að gera og ná nýjum skilning á hlutunum. Að gera mistök styrkir þig, þú þroskast andlega og þú öðlast meiri seiglu sem hjálpar þér í mörgum þáttum lífsins. Gegnum mistök lærir þú einnig lífsreglur sem þú getur ekki lært í gegnum sigra/velgengni.

Að vera unglingur getur verið mjög erfitt. Þörf fyrir samþykki annarra og óvissa um eigin getu heldur oft aftur af unglingum og getur fylgt þeim fram á fullorðinsár. En með því að samþykkja mistök sín, nýta þau til góðs og skilja að þau eru besti lærdómurinn, þá geta unglingar fengið mikið forskot á lífið. Fólk kann líka best að meta þig þegar þú ert alveg einlæg/ur og gerir eitthvað asnalegt eða sem þér fannst vera mistök. Einlægni dregur fólk að þér því við tengjum öll við það að gera mistök því það er eðlilegur og nauðsynlegur partur af því að vera manneskja.

Natalía Gunnlaugsdóttir