Orðin og frítíminn – Stuðningur við fagstarf og fræði

karitas_hrundar_palsdottir_myndFyrir rétt rúmum tveimur árum var sett á laggirnar Orðanefnd í tómstundafræðum og fjallað var um stofnun hennar í Frítímanum. Nú í sumar barst nefndinni liðsauki í formi sumarstarfsmanns fyrir tilstilli styrkja frá Æskulýðsráði og Málræktarsjóði. Nefndin réð til starfa Karítas Hrundar Pálsdóttur, nema í grunnnámi í íslensku við Háskóla Íslands. Frítíminn tók Karítas tali nú á lokametrum ráðningartímans og spurðist fyrir um starf hennar fyrir nefndina í sumar.

Hvernig kom það til að þú tókst að þér að vinna fyrir orðanefndina í sumar?

Það var í rauninni skemmtileg tilviljun sem réði því að ég tók að mér starf fyrir orðanefndina í sumar. Ég var búin að hugsa töluvert um að það væri gaman að fá nýja starfsreynslu í sumar en vissi svo sem ekki alveg við hvað eða hvernig ég ætti að bera mig að við að sækja um störf. Svo var það einn daginn að ég fékk hálfgert bænasvar eða atvinnutilboð – og það í kirkju. Ég vinn í sunnudagaskóla með skólanum á veturna og eftir messukaffið einn daginn í vor kom Ágústa Þorbergsdóttir, sem starfar í orðanefndinni, til mín og við fórum að spjalla. Ég kannaðist aðeins við hana þar sem hún hafði komið sem gestakennari í tíma til mín í Háskólanum nokkrum vikum fyrr. Við spjölluðum meðal annars um það tómstundastarf sem ég hef unnið við og tekið þátt í, s.s. sumarbúðir KFUM og KFUK, og fleira tengt æskulýðsmálum. Hún spurði mig í framhaldinu hvort ég hefði áhuga á íðorðastarfi og þannig vildi það til að mér bauðst starfið í sumar.

Og í hverju var verkefni þitt fyrir orðanefndina í sumar fólgið?

Verkefnið var fólkið í því að taka saman íðorð eða fagorð í tómstunda- og félagsmálafræði, skýra þau og skilgreina og gefa dæmi um notkun þeirra. Í framhaldinu setti ég þau svo inn í Orðabanka íslenskrar málstöðvar sem er aðgengilegur á netinu. Orðunum er safnað saman í orðabankann áður en þau eru birt almenningi. Svo í rauninni er þetta nokkurs konar orðabókarstarf. Ólíkt því sem algengt er í íðorðavinnu fólst verkefnið á þessu stigi lítið sem ekkert í að búa til íslensk orð yfir erlend hugtök. Slík vinna er komin langt en vandamálið er að margir hafa búið til íslensk orð yfir erlend hugtök og því eru stundum mörg orð notuð yfir sama hugtakið innan tómstunda- og félagsmálafræðanna. Það getur gert samskipti og umræðu innan fagsins og fræðasviðsins flókin þegar fólk leggur ekki sömu merkingu í orðin.

Nú er vettvangur tómstunda og æskulýðsstarfs nokkuð víður og hugtök og orðræðan oft óljós. Hvernig hefur þú nálgast verkefnið?

Ég ákvað í samráði við orðanefndina að takmarka mig við kennsluefni til BA-prófs í tómstunda- og félagsmálafræðum. Ég fór í gegnum kennsluáætlanir, námsáætlanir, glærur og kennslubækur en einnig bæklinga, handbækur og vefsíður félagasamtaka sem starfa á vettvangi frítímans. Heimildir settu stundum ólíkar merkingar í hugtökin en ég reyndi eftir bestu getu að finna hvað þau áttu sameiginlegt og skilgreina þau út frá því.

Þegar þú lítur yfir afrakstur sumarsins hver finnst þér ávinningurinn vera fyrir tómstunda- og æskulýðsstarf?

Þegar ég hófst handa voru þegar rúmlega 100 orð til í gagnagrunni orðanefndarinnar en nú eru þau meira en 400. Orðin ná jafnframt núna yfir stærra svið en orðabankinn flokkast m.a. í fræðileg hugtök, kenningar, frístundastarf sveitarfélaga, skátastarf, kristilegt starf, starfsheiti, starfsemi og starfsþætti. Þó áherslan hafi aðallega verið á fræðileg hugtök sem nýtast munu nemendum í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands er jafnframt kominn góður grunnur að orðum sem tengjast tómstundastarfsemi á vettvangi.

En fyrir þig? Hvað reynslu hefur þú öðlast eftir sumarið?

Ég er búin að auka orðaforðann minn heilmikið. Og í rauninni hefur ég stundað nokkurs konar sjálfsnám í tómstunda- og félagsmálafræðum. Orðin hafa komið inn á siðfræði, sálfræði, uppeldisfræði og viðburða- og verkefnastjórnun svo eitthvað sé nefnt. Svo ég hef komið víða við. Ég hef jafnframt þurft að rökræða við sjálfa mig fram og til baka um einstaka orð. Ég varð stundum alveg ringluð því siðfræðikenningar og alls kyns kenningar settu eina vídd í orðin og svo voru alls kyns námsorð með ýmsum forskeytum, ævintýra-, úti-, reynslu-, formlegt – og svo mætti lengi telja.

Og hvað tekur við hjá þér nú í vetur?

Ég er staðráðin í að skipta yfir í tómstunda- og félagsmálafræði enda komin með góðan grunn og gæti kannski fengið eitthvað metið! Nei, ég er að grínast en þetta virðist vera mjög spennandi nám og auk þess eru margir almennilegir kennarar þarna. Ég er hins vegar að fara í skiptinám til Japan og mun læra japönsku þar og aðstoða jafnframt við íslenskukennslu í háskólanum þar sem ég verð.

Frítíminn þakkar Karítas fyrir spjallið og óskar henni alls hins besta á komandi vetri í Japan. Og hver veit nema íðorð í tómstunda- og félagsmálafræði rati inn í íslenskukennslu við háskóla í Japan á komandi vetri.