Þar sem allir geta verið hetjur

Tíu karlar og konur lyfta sverðum, spjótum og skjöldum. Þau halda út í skóg og hafa augun opin. Hætta liggur við hvert fótmál, ógn bakvið hvert einasta tré. Fötin minna á miðaldir og tveir meðal þeirra klæðast skínandi brynju. Skyndilega koma þau í rjóður og sjá sjö orka þar. Eftir orðaskipti ákveður ein úr hópnum að gera árás. Það er stelpa með risa sverð í brynju og með skjöld sér til varnar. Það er öskrað og bardaginn er hafinn! Sverð og axir skella saman. Ekki líður á löngu þar til allir orkarnir eru dauðir. Fimm hetjanna særðust í bardaganum. Þær eru togðar á fætur upp og komið til galdramanns sem getur læknað þær. Hetjurnar öskra hraustlega meðan hann saumar sárin mað göldrum, húð og vöðvar smella saman eins og rennt væri rennilási.

Í bæ þar nálægt er mikið fjör. Fólk er að kaupa og selja, spjalla og borða. Vonardemanturinn er til sýnis og hann gefur frá sér gleði og von. Tveir skuggalegir menn tala saman lágum rómi. Þeir ætla að taka demantinn.  Eftir stuttar samræður fara þeir með þulu saman og úr höndum þeirra kemur sterkur vindur sem feikir öllum niður. Þeir kasta eld yfir suma og svæfa aðra samstundis. Þeir stela Vonardemantinum. Inn koma hetjurnar tíu. Þær hafa fundið næsta ævintýri.

LARP (Live Action Role Play) eða kvikspuni, er leikur þar sem fólk fer í önnur hlutverk heldur en þau sem þau hafa í hversdags lífinu. Það geta verið álfar, varúlfar, kóngar og hvað annað sem ímyndunaraflið leyfir. Til eru mörg mismunandi kvikspunaspil. Möguleikarnir eru óendanlegir. Fólk getur orðið hetja í fantasíuheimi, eða pólitíkusar í öðrum heimi. Það getur klætt sig upp og reynt að leysa morðgátu eða barist við vampýrur.

Hér á Íslandi er talsvert af  kvikspuna í boði, aðallega á höfuðborgasvæðinu. Hægt er að fara í hópinn Íslenskt LARP (kvikspuni) á Facebook. Þar er hægt að fá upplýsingar um alla þá viðurburði sem eru í boði á landinu. Mest spilaði og elsti leikurinn sem er í gangi er Fúnjeri, sem er fantasíuleikur spilaður í Öskjuhlíð. Í Hinu húsinu er hægt að spila Vampire: The Requiem. Þetta eru líklega stærstu föstu viðburðirnir.

Kvikspuni er spilaður út um allan heim. Sem dæmi má nefna að í Þýskalandi eru árlega haldin stórmót í kvikspuna. Þar er til dæmis  Drachenfest, Drekahátíðin,  þar sem spilarar takast á við að orrustur í mörg hundruð manna herjum.   Fólk berst fyrir sinn „Dreka“ og safnar drekaeggjum. Í Póllandi er haldið stórmótið Old Town, sem fer fram í heimi sem hefur næstum verið eytt í stríði.

Þeir sem stunda kvikspuna setja yfirleitt mikinn tíma og vinnu í leikinn. Fólk býr til persónur, spinnur söguþræði, gerir búninga og leikmuni. Kvikspuni getur verið áhugamál sem tengir saman flest önnur áhugamál og áhugi og hæfileikar ná að nýtast á mismunandi hátt.  Það er örugglega þess vegna að fólk sem stundar kvikspuna, gerir það af svona miklum krafti. Þau sem hafa gaman af að sauma eða búa til hluti geta varið löngum tíma í að búa til ný föt eða vopn eða annað sem hægt er að nota í kvikspunann. Þau sem hafa áhuga á leiklist geta varið tíma í að æfa sig heima fyrir næsta leik og búa til og leika nýju persónuna sína. Svo eru þeir sem hafa hreinlega gaman af að leika sér í öðrum veruleika, lifa fantasíur.

Kvikspuninn getur líka verið fullkominn fyrir þau sem eiga erfitt með að kynnast eða tala við annað fólk. Þetta eru oftast hópleikir og fara fram á afmörkuðum svæðum sem mynda þá nokkurs konar lokað umhverfi. Þannig fá þeir sem eru með sviðsskrekk eða félagsfælni rými til að fara í annan búning (bæði hugarfarslega og raunverulega) og vera einhver sem ekki þjáist af sviðsskrekk eða félagsfælni og það getur hjálpað þeim að vinna á óttanum.

Annars eru allir sem tilbúnir eru að vera skemmtilegir alltaf velkomnir. Kvikspuni er fyrir alla!

Björn Þórsson