Unglingar í ástarsorg og kvíðalyf

Ég hélt að mínar tilfinningasveiflur á unglingsaldri snerust mikið um uppgötvun sjálfsins, hvaða smekk ég hefði á tónlist og hvernig ,,týpa ég væri”. Dagbókarfærslur mínar segja hins vegar annað, þar sem mitt aðal umræðuefni voru strákarnir sem ég var hrifinn af, kærastar og óendurgoldin ást. Það getur verið vegna þess að tilfinningin að verða ástfangin kemur upp fyrst á unglingsárunum og sorgin sem fylgir því að hætta með kærasta getur verið yfirþyrmandi. Þegar ég var ellefu ára upplifði ég mína fyrstu ástarsorg. Ég var skotin í vini mínum sem hét Alban og fannst eins og hann væri líka skotinn í mér. Einn daginn dró hann mig afsíðis og spurði hvort ég vildi gera eitt fyrir hann.

Ástfangna ég hélt að hann vildi að ég myndi kyssa hann en svo rétti hann mér krumpaðan pappír. Í pappírnum stóð, ,,Sara, viltu byrja með mér, Kv. Alban” Ég þóttist samgleðjast honum og Söru vinkonu minni og fékk illt í magann. Ég hljóp inn á salernið í skólanum og hágrét. Ég hafði aldrei upplifað svona mikla sorg áður og klukkan var bara tvö á þriðjudegi. Þegar mamma sótti mig sama dag sagði ég að ég hafi rifist við vinkonu, og þess vegna væri ég svona útgrátin og bólgin. Ég vildi ekki segja mömmu frá þessu því ég skammaðist mín hrikalega og ætlaði sko aldeilis ekki að viðurkenna það fyrir neinum nema dagbókinni. Ég var leið í nokkra daga þar til að ég jafnaði mig og lífið hélt áfram.

Það muna flestir eftir fyrstu ástinni en það gleymir enginn fyrstu ástarsorginni. Ástarsorg er nefnilega svo ógeðsleg að hún étur mann og annan að innan. Að upplifa lystarleysi, svefnleysi og að gráta ekkatárum undir sæng því lífið virðist bara vera svo ósanngjarnt er ekkert grín. Ég er núna 26 ára og get enn staðfest það að ástarsorgin hverfur ekki með aldrinum, ef eitthvað er þá versnar hún. Ég hef lært það að lífið er allskonar og alls ekki fullkomið, og það ekki hjá neinum. Er ungt fólk of verndað fyrir ástarsorg? Er búið að ofgreina unglinga sem kvíðasjúklinga og með hátt þunglyndi vegna þess að þau gætu verið að ganga í gegnum sitt fyrsta áfall á lífsleiðinni sem tengist ástinni?

Ég held því ekki fram að unglingar séu ranglega greindir kvíðasjúklingar en mín reynsla sem unglingur og mín reynsla sem fullorðinn starfsmaður með unglingum hefur gefið mér öðruvísi sýn á ungt fólk. Þegar maður er unglingur veit maður ekki enn hver maður er í raun og veru, þó maður haldi það og þess vegna finnst mér mikilvægt að við fræðum unglingana okkar með fjölbreytni og opnum hug. Lífið er
alls ekki alltaf dans á rósum og munu allir lenda í einhverju áfalli einhvern tímann. Einnig eru áföll enn einn partur af lífinu sem allir þurfa að læra að komast í gegnum. Eftir að hafa unnið með unglingum í dag get ég staðfest það að þau segja ekki foreldrum sínum, lækninum sínum, kennaranum sínum allt. Ég sem starfsmaður í félagsmiðstöð fæ að heyra leyndarmálin sem þau hin fá ekki, sem er bæði gott og slæmt. Ég heyri slúðrið hjá þeim, hlusta á kvíðavandamál þeirra og reyni að leiðbeina þeim í rétta áttina.

Það sem kemur oftast upp hjá unga fólkinu er einmitt ástarsorgin. Ástarsorgin er sú sorg sem flestir hræðast, vilja ekki viðurkenna að þeir séu að upplifa hana og fela sorgina frá öllum, sérstaklega foreldrum sínum og vinum. Að lenda í ástarsorg þykir vandræðalegt, of persónulegt og á einungis að tala um það við sína bestu vinkonu eða vin, ef maður á einn slíkan. Sumir eru það heppnir að eiga foreldra eða eldri systkini til að ræða þetta við, en í þessum tæknivædda heimi sem við búum við í dag er sjaldgæft að fólk þori að sýna sínar ,,veiku” hliðar. Fyrst að ástarsorgin er svona falin og getur haft áhrif á getu unglings til þess að taka þátt í sínum daglegum þörfum og skyldum, á fólk það til að misskilja einstaklinginn. Ástarsorgin er í raun vægt áfall sem getur varað í mislangan tíma en þarfnast skilnings, umhyggju og styrkleika aðstaðanda til að komast í gegnum það. Þó getur einstaklingur sýnt kvíða og þunglyndiseinkenni á háu stigi eftir svoleiðis áfall en of margir unglingar sem ég hef talað við hafa tilkynnt mér í trúnaði að foreldrar þeirra og læknar hafi sett sig á kvíða- og þunglyndislyf þegar orsökin hafi einungis verið sambandsslit.  Unga fólkið hefur einnig sagt mér frá því að þau haki í réttu boxin til þess einmitt að fá kvíða- og þunglyndislyf því þau vilja ekki finna fyrir neinum slæmum tilfinningum.

Hvenær má hefja nýja byltingu þar sem við undirbúum unga fólkið okkar fyrir raunverulegum áföllum lífsins? Hvað gerir þetta fólk þegar það lendir í skilnaði eða missir einhvern nákominn á fullorðinsárum? Það hlýtur að vera einhver leið til þess að leyfa unga fólkinu að upplifa ástina og allt sem því fylgir án þess að kvíði komi strax upp í huga allra.

Ég held að við þurfum að opna umræðuna um ástina, ástarsorgina og tilfinningaflóð unglina sem á ekki endilega heima í lyfjaskírteini geðlæknis.

Melkorka Sjöfn Magnúsdóttir