Útivera fyrir alla

kristin kristinsdottirAð vera úti er hollt og gott fyrir alla og bætir heilsuna, hvort sem að það er andlega heilsan eða líkamlega. Ég tel að það sé mikilvægt að börn og fullorðnir séu duglegir að fara út, anda að sér fersku lofti og tæma hugann í fallegu náttúrunni okkar. Sjálf hef ég mikinn áhuga á útivist og er sannfærð um að það sé besta meðalið við þeim kvillum sem geta hrjáð okkur.

Í grunnskólanum sem ég var í var lagt upp með útiveru og ferðamennsku. Farið var í gönguferðir á vorinn en erfiðleikastigið fór stigvaxandi eftir því sem að við urðum eldri. Þessar gönguferðir voru á skólatíma og var því skylda fyrir alla að fara. Þessi gönguferð var oft mikil upplifun fyrir mig og það að lenda í vondu veðri en ná samt að klára gönguferðina og komast á toppinn á fjallinu sem við vorum að ganga á var alltaf góður sigur. Á haustinn var svo farið í einhverskonar ferðalag. Farið var yfir nótt en líkt og með gönguferðirnar þá fóru þessi ferðalög stigvaxandi eftir því sem að við urðum eldri. Ferðirnar sem við fórum í í 8. – 10. bekk fannst mér þær allra skemmtilegustu en þær voru þó val. Ég fór í allar þessar ferðir og núna 9 – 11 árum seinna er ég ennþá að minnast á þær og hugsa um hvað mér þótti skemmtilegt og hvað ég lærði mikið á þeim. Við gengum Laugarveginn og hjóluðum fjallabak Syðra og Nyrðra. Þessar ferðir eru það besta við mína grunnskólagöngu og vildi ég óska þess að allir fengju tækifæri til þess að upplifa þetta.

En útivera þarf ekki að vera stórt ferðalag úti í náttúrunni eða mjög flókin. Útivera er líka að fara í göngutúr um hverfið, fara út að leika með vinum sínum eða hvað sem er sem gerist utandyra. Oft hef ég heyrt talað um að börn og unglingar nú til dags fari lítið sem ekkert út nema að þau þurfi þess. Ef það er raunin þá þykir mér það sorgleg þróun því það er svo gott og endurnærandi að vera aðeins úti. Börn og unglingar læra að klæða sig eftir veðri. Áhugamál fólks er þó misjafnt og er það ekki fyrir alla að vera mikið úti en ég er þó sannfærð um að smá útivera sé góð fyrir alla.

utiveraFyrir þá unglinga sem að eru að leita sér að einhverjum tómstundum og hafa áhuga á útivist og starfi með öðrum einstaklingum myndi ég mæla með skátastarfi eða unglingadeild í björgunarsveit. Þar er mikil áhersla lögð á að læra að bjarga sér og öðrum úti í náttúrunni. Þau læra líka að vinna með öðrum einstaklingum og í hópum sem að hjálpar þeim þegar þau eru komin lengra út í lífið.
Eins og áður hefur komið fram þá þarf útiveran ekki að vera flókin og er um að gera að nota ímyndunaraflið. Einnig hefur verið gefið út mikið efni tengt útiveru og göngum. Til eru margar bækur um hinar ýmsu gönguleiðir og getur verið gaman fyrir börn og unglinga að fá að fara út fyrir sitt venjulega svæði sem þau eru í dags daglega og upplifa eitthvað nýtt. Góð samverustund með fjölskyldunni úti í náttúrunni er gott fyrir alla einstaklingana í fjölskyldunni og þurfum við fullorðna fólkið að muna að við erum fyrirmyndir barnanna okkar.

Kristín Kristinsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ