Verum fyrirmyndir

Dóra Eggertsdóttir

Sú sem hér ritar hefur mikið verið að hugsa um kvíða barna og ungmenna undanfarið vegna BA ritgerða skrifa um kvíða barna. Við þekkjum örugglega öll tillfinninguna að upplifa kvíða af einhverju tagi eða við ákveðnar aðstæður. Margir eiga börn og ungmenni sem eiga við kvíðavandamál að stríða. Að vera ungmenni í dag getur ekki verið auðvelt.

Annars eru unglingsárin sjaldan auðveldur tími en með hröðum tækni- og samfélagsbreytingum getur undirritaður ímyndað sér að það sé ansi erfitt að standast ýmsar kröfur og væntingar sem unglingar standa frammi fyrir í nútímasamfélagi. Kvíði er hugtak sem  lýsir ótta, hræðslu og áhyggjum. Kvíði er eðlileg tilfinning sem getur verið bæði neikvæð og jákvæð. Þegar kvíði er jákvæður er það tilfinning sem er hluti af lífinu og getur bætt einbeitingu og frammistöðu. Þegar kvíði hefur heftandi áhrif á líf unglings og kallar á óeðlileg viðbrögð við aðstæður sem ættu ekki að kalla fram kvíða er það neikvæður kvíði sem er orðin að kvíðaröskun.

En hver getur verið ástæða þess að börn og unglingar eru kvíðnari í dag en áður fyrr?  Kannski er bara meira talað um það nú til dags og einstaklingar eru opnari. Margir þættir koma til greina sem orsakar kvíða og hafa rannsóknir sýnt að þessir þættir eru meðal annars: áhrif samfélagsmiðla, prófkvíði og fjárhagur foreldra. Kvíði ungmenna hefur aukist verulega og er talið að eitt af hverju tíu börnum þjáist af kvíða. Kvíði stúlkna hefur farið vaxandi síðan árið 2000 og er sérstaklega slæmur hjá stúlkum á aldrinum 13-15 ára.

Samfélagsmiðlar setja gríðarlega pressu og óraunhæfar kröfur á unglinga. Margir upplifa kvíða vegna samfélagsmiðla sem getur þróast yfir í kvíðaröskun sem er mun alvarlegri og þá upplifir einstaklingur mikla hræðslu og áhyggjur í aðstæðum sem ekki ættu að kalla á slík viðbrögð. Sumir geta ekki borðað kvöldmat eða sofið heila nótt án þess að kíkja í símann og fylgjast með hvað aðrir eru að gera. Með því fara einstaklingar ósjálfsrátt að bera sitt líf saman við glansmynd samfélagsmiðla og getur andleg líðan versnað við þann stanslausa samanburð. Sumir upplifa kvíða bara við þá hugsun að síminn gleymist eða sé batteríslaus og ekkert hleðslutæki til staðar. Hjá mörgum ungmennum skiptir mestu máli að fá sem flest like og ef það gerist ekki verður að eyða myndinni eða færslunni út vegna þess að það hefur áhrif á ímynd þeirra innan ákveðins samfélagsmiðils. Samfélagsmiðlar eru alls ekki bara slæmur vettvangur fyrir ungmenni og aðra einstaklinga. Samfélagsmiðlar geta haft jákvæð áhrif á samskipti við vini og ættingja, félagslegan stuðning og vettvangur þar sem hægt er að tjá skoðanir sínar. En því miður hafa samfélagsmiðlar líka neikvæðar afleiðingar á andlega líðan ungmenna. Sum ungmenni upplifa einangrun, kvíða og neteinelti.

En hvað getum við sem foreldrar, uppalendur og virkir þátttakendur í lífi ungmenna gert? Samfélagsmiðlar eru komnir til að vera og það þarf að aðlagast því. Mikilvægt er að ræða við börn og ungmenni um hvernig sé hægt að nota samfélagsmiðla á jákvæðan hátt. Það skiptir líka miklu máli að þau geri sér grein fyrir því að allt sem fer inn á þessa miðla eru þau búin að missa úr höndunum og er ekki eign þeirra lengur. Foreldrar þurfa að gera grein fyrir þeim hættum og neikvæðu afleiðingum sem samfélagsmiðlar hafa í för með sér og kenna ungmennum að bera virðingu fyrir öllum. Þó svo að manneskjan sjái þig ekki geta orð sært og haft alvarlegar afleiðingar fyrir báða aðila ef neteinelti á sér stað.

Foreldrar og aðrir uppalendur þurfa að vera vakandi, vera fyrirmyndir og upplýstir um líðan barna og unglinga. Mikilvægt er að þeir viti hvað ungmennin þeirra eru að skoða á netinu, hvaða forrit og leiki þau eru að nota og hverja þau eiga í samskiptum við. Ef tekið er eftir kvíðaeinkennum í sambandi við samfélagsmiðla og netnotkun eru mikilvægt að taka á því strax. Með því að taka strax á kvíðaeinkennum og hjálpa börnum og unglingum að takast á við hræðslu og ótta er hægt að koma í veg fyrir að kvíðinn verði alvarlegri og hafi heftandi áhrif á líf þeirra.  Börn og ungmenni sem nota samfélagsmiðla og netið þurfa að læra hvernig hægt er  að nota þessa miðla á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Þau þurfa að læra að bera virðingu fyrir hvert öðru, að orð og gjörðir geta sært og haft gríðarlegar afleiðingar.

Verum fyrirmyndir og sýnum ungmennum okkar gott fordæmi um hegðun á samfélagsmiðlum og netinu.

Dóra Eggertsdóttir