Yndislestur, áhrif tækninnar í síbreytilegu samfélagi

Frá því að ég var ung hef ég alltaf haft mikinn áhuga á lestri og alltaf þekkt hugtakið yndislestur. Yndislestur er þegar aðili kýs að lesa sér til gamans, lesefnið er sérvalið og einstaklingurinn er ekki skyldugur til þess að lesa það. Fyrir mér var yndislestur sá tími sem fór í að lesa áhugaverða bók í rólegu umhverfi. Í dag finnst mér þó töluvert erfiðara að finna merkinguna á bakvið hugtakið. Hvort það sé vegna þeirra hröðu breytinga sem hafa orðið í samfélaginu eða að ég sé orðin eldri veit ég ekki. Þarf einstaklingur að halda á bók og fletta blaðsíðu fyrir blaðsíðu til þess að það kallist yndislestur? Ef þú slærð inn spurninguna „hvað er yndislestur“ í leitarvél Google blasir strax við setningin „Bók er vina best“. Annað sem kemur upp í leitarvélinni snýr að bókum og bókalestri almennt. En hvernig er þetta þá núna, með tilkomu tækninnar sem er að tröllríða þjóðinni, getum við ennþá bendlað hugtakið eingöngu við bækur?

Ég velti því fyrir mér hvort tæknin eins og hún birtist okkur í dag hafi bein áhrif á yndislestur barna og ungmenna. Það gæti verið að þau séu að lesa sér til gamans en lesi bækur og pistla á netinu. Vegna þess er möguleiki á að erfiðara sé að fylgjast með hvort börn og ungmenni séu raunverulega að lesa sér til gamans því netinu fylgir í rauninni ekkert bókamerki. Spurningin sem kviknar í höfðinu á mér er sú hvort það að lesa áhugaverðan pistil, skemmtilega stöðuuppfærslu á Facebook eða grein í tímariti á netinu, sé yndislestur. Við viljum að börn og ungmenni í okkar samfélagi lesi sér til gamans. Lestur hefur góð áhrif bæði á ímyndunarafl sem og þroska einstaklinga og því er mikilvægt að börn og ungmenni lesi hvort sem þau finna sér efni á netinu, bókasafni eða í bókabúð. Ef einstaklingur velur sér lesefni sem höfðar til hans, vekur áhuga og veitir honum ánægju myndi ég halda að það væri yndislestur. Hvort sem lesið er af tölvuskjá, spjaldtölvu eða í bók.

Tæknin býður ýmsum einstaklingum tækifæri til þess að lesa. Þeim sem ekki hafa þolinmæði í að halda á bók og eiga það til að missa athyglina auðveldlega. Nútímatækni færir hugtakinu yndislestri ný tækifæri og gæti því hugsanlega aukið áhuga fólks á lestri sér til gamans og einfaldað aðgengi og úrval lesefnis. Ég tel að tími sé kominn til þess að nútímavæða hugtakið yndislestur. Samfélagið er að þróast, og það hratt. Lestur er það stór hluti í lífi barna og ungmenna að nauðsynlegt er að hann þróist í takt við samfélagið okkar. Hvort sem um yndislestur sé að ræða eða lestur til náms. Yngri kynslóðin í okkar samfélagi kýs mögulega frekar að lesa sér til gamans á rafrænu formi. En þarf það að vera alslæmt, gæti það leitt til þess að skólabók verði meira heillandi?

Nú hefur þessi grein verið birt inná vefsíðu Frítímanns á netinu. Að öllum líkindum hefur þú lokið við lesturinn. Svo mín spurning til þín er: Var þetta yndislestur?

—-

Höfundur: Kolbrún Edda Jónsdóttir Scheving